Skýrsla starfshóps sem Landssamtök lífeyrissjóða létu skipa til að taka út fjárfestingastefnu, ákvarðanatöku og lagalegt umhverfi sjóðanna á árunum fyrir hrun og kom út árið 2012 segir meðal annars:

„Frá setningu [lífeyrissjóðslaganna] hafa verið gerðar fjölmargar breytingar og viðbætur á [36. grein], bæði fyrir og eftir hrun bankanna. Sammerkt flestum eða öllum breytingum er að fjárfestingarheimildir voru auknar. Flestar þessar lagabreytingar voru ekki nógu vandaðar og verður að setja spurningarmerki við hversu vel sumar þeirra voru ígrundaðar og samrýmdust illa tilgangi laganna um ábyrgar fjárfestingar.

Sem dæmi má nefna, að hámarki fjárfestinga sjóðanna í hlutabréfum var breytt í áföngum úr 35% af hreinni eign til greiðslu lífeyris í 60%, síðast með lögum 28/2006.“

Hátt í 200 síðna úttektin er jafn óvægin og hún er beinskeytt í gagnrýni sinni á svo til allar hliðar kerfisins í aðdraganda hrunsins, sem hún segir hafa kostað sjóðina 480 milljarða króna.

Aðrir bentu að vísu á í því samhengi á sínum tíma að sú upphæð miðaðist við ársbyrjun 2008 sem upphafspunkt. Frá því að hrunið sjálft hófst í október það ár nam tap þeirra því ekki nema 380 milljörðum eða 23% heildareigna frá þeim mánuði.

Fréttin er hluti af lengri úttekt á eignarhaldi lífeyrissjóðanna í Kauphöllinni í gegn um tíðina í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní. Hægt er að gerast áskrifandi hér.