Ekki hefur skort verkefni í helstu iðngreinum síðustu ár, og pípulagningar eru þar engin undantekning. Meðal þeirra efnahagslegu björgunaraðgerða sem gripið var til í heimsfaraldrinum var hækkun á endurgreiðsluhlutfalli vegna vinnu við íbúðarhúsnæði úr 60% í 100% auk þess sem heimildin var útvíkkuð og náði einnig yfir vinnu við frístundarhúsnæði, bílaviðgerðir og fleira.

Til viðbótar við hvatann sem í auknu endurgreiðsluhlutfallinu fólst neyddust landsmenn, eins og flestir muna, til að eyða meiri tíma heima fyrir en flestir áttu að venjast, og höfðu auk þess margir hverjir meira á milli handanna meðal annars sökum þess að komast ekki í utanlandsferðir.

Mjög margir nýttu því tækifærið og réðust í viðhald eða endurbætur og altalað hefur verið hversu erfitt sé að fá pípara – og reyndar iðnaðarmann almennt – síðustu ár.

Í upphafi árs féll endurgreiðsluheimildin fyrir bílaviðgerðir niður, og í september síðastliðnum lækkaði hlutfall endurgreiðslunnar niður í 60% á ný.

Samanlögð velta þeirra 14 fyrirtækja sem hér eru tíunduð nam 7,3 milljörðum í fyrra og jókst um 10% eða 678 milljónir milli ára. Félögin högnuðust sín á milli rétt um milljarð króna sem var aukning upp á 335 milljónir eða 51%.

Alls jukust tekjur hjá 9 af 14 félögum og hagnaður jókst hjá sama fjölda, en drógust saman hjá öðrum. Lands- og Kraftlagnir voru umfangsmestu félögin og þónokkuð yfir þeim sem á eftir koma, hvort um sig með um 1,1 milljarðs veltu. Þau sáu auk þess mestu veltuaukninguna í krónum talið milli ára og voru einu félögin sem högnuðust um meira en 200 milljónir, og skiluðu raunar um tvöfalt meiri hagnaði en OSN sem tók þriðja sætið með 123 milljónir.

Þriðja veltuhæsta félagið fylgir nafnavenju hinna tveggja efstu og heitir því ágæta nafni Topplagnir, og var raunar veltumeira en Landslagnir árið áður.

Einna mesta athygli vekur þó fyrirtækið Húsanes verktakar, sem velti mestu allra félaga listans í fyrra, 858 milljónum, en féll um slétt 400 milli ára og datt því niður í 8. sætið í ár. Hagnaður félagsins árið 2020 hafði verið langt umfram samkeppnisaðilana: 275 milljónir samanborið við 105 hjá Kraftlögnum í öðru sætinu, og staðið undir heilum 42% af samanlögðum hagnaði allra félaganna. Í fyrra féll hann hins vegar niður í 22 milljónir og var því aðeins um 2% heildarinnar. Skýringin er þó einföld. Félagið seldi lóðir og íbúðir fyrir 778 milljónir króna árið 2020, en aðeins tæpar 300 milljónir í fyrra. Seld þjónusta ríflega tvöfaldaðist hins vegar úr tæpum 80 milljónum króna í 166.

Til að lesa meira

Hægt að er kaupa áskrift að Viðskiptablaðinu, Fiskifréttum og Frjálsri verslun hér.

Verð frá 4.495 kr. á mánuði