Hjónin Jón Ásgeir Jóhannesson og Ingibjörg Pálmadóttir hafa lengi verið áberandi í íslensku viðskiptalífi. Jón Ásgeir vakti fyrst athygli þegar hann stóð að opnun Bónus með föður sínum heitnum, Jóhannesi Jónssyni.

Hann byggði upp risastóra verslunarsamstæðu í Baugi, sem í lok árs 2007 rak fjögur þúsund verslanir með 75 þúsund starfsmenn í 35 löndum.

Ingibjörg kemur úr hinni svokölluðu Hagkaupsfjölskyldu, er dóttir Pálma Jónssonar stofnanda Hagkaups.

Ingibjörg hefur meðal annars verið umfangsmikil í fasteignaviðskiptum. Þannig á hún meirihluta fasteigna sem mynda húsalengjuna á milli Stjórnarráðsins og bílastæðakjallarans til móts við Þjóðleikhúsið, þar á meðal 101 Hótel sem hún opnaði árið 2003. Ingibjörg festi einnig nýverið kaup á Hótel Selfossi og Hótel Vestmannaeyjum með aðaleigendum Eskju.