Eggert Þór Kristófersson, forstjóri Festi, er í ítarlegu viðtali í bókinni 300 stærstu , sem kom út í morgun. Í viðtalinu er meðal annars fjallað um stefnubreytinguna sem orðið hefur í rekstri Festi, áskoranir vegna örra tæknibreytinga, orkuskipti og umhverfismál, heimsfaraldurinn, kjaramál og kaup N1 á gamla Festi.

Það er óhætt að segja að félagið, sem Eggert Þór réði sig til árið 2011 og varð forstjóri yfir fjórum árum síðar, hafi tekið miklum breytingum. Í raun má segja að hann sé í dag að stýra allt öðruvísi félagi en hann gerði þegar hann tók við stjórnartaumunum hjá N1 . Helsta breytingin er auðvitað kaupin á Festi, sem rak matvöruverslanir undir merkjum Krónunnar, Kr, Nóatúns og Kjarvals, sem og raftækjaverslunina ELKO og vöruhótelið Bakkann.

N1 gerði tilboð í Festi í júní 2017 og var samningurinn formlega undirritaður í október sama ár en þá átti Samkeppniseftirlitið eftir að leggja blessun sína yfir viðskiptin. Í júlí 2018 samþykkti það kaupin en með þeim skilyrðum að N1 myndi selja matvöruverslun Kjarvals á Hellu, sem og fimm bensínstöðvar. Var skrifað undir sátt þessa efnis. Mátti N1 einungis selja stöðvarnar til nýrra, óháðra félaga á eldsneytismarkaði. Um var að ræða bensínstöðvar við Salarveg í Kópavogi og Vatnagarða í Reykjavík og þrjár sjálfsafgreiðslustöðvar sem störfuðu undir merkjum Dælunnar en þær voru við Fellsmúla og Staldrið í Reykjavík og Hæðasmára í Kópavogi.

Var Lúðvík Bergvinsson lögmaður skipaður óháður kunnáttumaður, sem hafði það hlutverk að hafa eftirlit með því að skilyrðum í sátt Samkeppniseftirlitsins og N1 yrði fylgt eftir. Allt þetta ferli tók langan tíma og lauk í raun ekki fyrr en í byrjun þessa árs þegar verslunin á Hellu var loks seld. Skipunartíma óháða kunnáttumannsins lýkur eftir tvö ár.

„Átján mánuðir fóru í viðræður við Samkeppniseftirlitið,“ segir Eggert Þór. „Okkur fannst alltaf mjög skrítið að olíufélag, sem var að kaupa matvörubúð, raftækjaverslun og vöruhótel, þyrfti að selja frá sér eignir. Hvorki Krónan né nokkurt annað af þessum fyrirtækjum voru í samkeppni við N1 .

Samkeppniseftirlitið vissi að kaupin voru mikilvæg fyrir N1 og ég fékk á tilfinninguna að það hafi nýtt sér tækifærið til að minnka okkar hlutdeild á eldsneytismarkaðnum í leiðinni þótt það hafi ekki verið nein rök fyrir því að mínu mati. Í þessu sambandi er vert að hafa í huga að á sama tíma voru Hagar að kaupa Olís . Til þess að það gengi í gegn þurftu Hagar að selja fimm stöðvar líkt og við, sem og þrjár matvöruverslanir, sem mér fannst stórskrítið. Samkeppniseftirlitið gat þarna sýnt vald sitt. Mér þykja þetta ekki eðlileg vinnubrögð.

Samkeppniseftirlitið er orðið ríki í ríkinu, sem ræður ansi miklu þegar kemur að þróun í atvinnulífinu. Þeir segja við mann á fundum að þeir ætli ekki að hafa áhrif á þróunina en þeir gera það samt og það er að mínu mati alls ekki þeirra hlutverk.“

Vita ástæðuna

Forsvarsmönnum N1 var gert að selja bensínstöðvarnar til „nýs aðila“ á eldsneytismarkaði, sem þýðir að ekki mátti selja þær til Atlantsolíu, Olís eða Skeljungs. Þetta gekk eftir því í febrúar 2019 var tilkynnt að stöðvarnar fimm hefðu verið seldar til félags í eigu Einars Arnar Ólafssonar fjárfestis og fyrrverandi forstjóra Skeljungs. Það félag seldi þær síðan til Skeljungs.

Salan á matvöruversluninni Kjarval á Hellu gekk hins vegar ekki snurðulaust fyrir sig og það var ekki fyrr en á fyrri hluta þessa árs, sem tilkynnt var að Samkaup hefðu keypt verslunina, sem í dag er rekin undir merkjum Kjörbúðarinnar.

„Það var mikil andstaða hjá heimamönnum, sem vildu alls ekki missa okkur,“ segir Eggert Þór. „Í tvígang vorum við búin að selja verslunina en í bæði skiptin hafnaði leigusalinn, sveitarfélagið sem á húsnæðið, samningunum. Það var ekki fyrr en við drógum Samkaup að borðinu að kaupin gengu í gegn. Þetta gerðum við eftir að hafa rætt við Samkeppniseftirlitið því upphaflega áttum við að selja verslunina til „nýs aðila“ líkt og bensínstöðvarnar, sem þýddi að við máttum ekki selja Högum eða Samkaupum verslunina. Eftirlitið skipti síðan um skoðun og verslunin var seld til Samkaupa en að auki þurftum við að selja verslun Krónunnar við Nóatún 17 í Reykjavík þar sem verslun á Hellu var ekki ein og sér söluvara að mati kaupanda.

Þetta gekk því allt mjög brösuglega og auðvitað hafði covid líka áhrif því það var ekki mikið um fyrirtækjasölur á þeim tíma sem faraldurinn stóð sem hæst. Við gerðum sáttina til þess að uppfylla hana en það tók of langan tíma. Samkeppniseftirlitið veit ástæðuna, sumt var vegna þess að Eftirlitið sjálft var að tefja okkur og sveitarfélagið gerði það líka en það er mikilvægt að þessu sé nú lokið.“

Óþarflega dýr kunnáttumaður

Eggert Þór segir að þetta ferli sé of tímafrekt. Það mættu vera betri leiðbeiningar frá Samkeppniseftirlitinu.

„Maður ætti að geta mætt á staðinn, viðrað ákveðnar hugmyndir og fengið álit á því hvaða leið á að fara. Í fyrstu hugsuðum við með okkur að við værum að kaupa matvöru- og raftækjaverslanir og því þyrftum við ekki að breyta neinu en það reyndist algjör misskilningur eins ég hef komið inn á. Mér finnst margt mega betur fara í þessum efnum. Það mætti vera meira samtal – meira samstarf en kannski er það draumsýn hjá mér.

Eins og þetta er í dag þá setur Samkeppniseftirlitið fram mjög strangar kröfur og skilyrði, sem það gefur aldrei eftir. Það er aldrei hægt að ræða hlutina og finna bestu lausnina heldur snýst þetta meira um að klára eitthvað svo Eftirlitið verði sátt – það er eiginlega vandamálið. Í stað þess að líta á svona ferli sem samstarf þá finnst mér Samkeppniseftirlitið stilla sér upp sem mótherja, sem reynir jafnvel að hanka þig á einhverju. Ef þú myndir spyrja lögregluna hvort þú megir keyra ákveðna götu og hún myndi segja já en sekta þig síðan beint í kjölfarið þá yrðirðu ekki sáttur. Þetta er því miður svolítið mín upplifun.“

Að sögn Eggerts Þórs hefur þetta ferli verið gríðarlega kostnaðarsamt og nefnir hann sérstaklega kostnað vegna óháðs kunnáttumanns.

„Í okkar tilfelli er kostnaðurinn kominn vel yfir 200 milljónir króna. Það hefur verið mikill kostnaður vegna allra tafanna en mesti kostnaðurinn er vegna óháða kunnáttumannsins — hann er efstur á lista og óþarflega dýr. Það sér heldur ekki fyrir endann á kostnaðinum vegna hans því hann var skipaður til fimm ára og lýkur því ekki störfum fyrr en eftir tvö ár. Við erum þegar búin að uppfylla öll skilyrðin, selja þær eignir sem okkur bar að selja en samt á að halda áfram að rannsaka eitthvað. Í mínum huga er bara verið að búa til óþarfa verkefni fyrir óháða kunnáttumanninn.

Samkvæmt lögum má Samkeppniseftirlitið rannsaka nánast hvað sem er og að verið sé að útvista slíkum verkefnum finnst mér vafasamt. Mér finnst ótrúlegt að hægt sé að búa til svona mikið flækjustig. Þegar kunnáttumaðurinn er skipaður haustið 2018 þá vorum við þegar búnir að standa í þessu í rúmt ár og fannst ferlið þá þegar hafa tekið alltof langan tíma. Við vorum eiginlega komin með upp í kok. Ef við hefðum vitað hvað í vændum væri þá hefðum við strax þarna um haustið andmælt.“

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .