Frjáls verslun fjallaði um endalok Skipaútgerðar ríkisins, Ríkisskipa, árið 1992. Á fimmtudaginn fjallaði Óðinn í Viðskiptablaðinu um Íslandspóst og bar saman við Ríkisskip. Því er vert að rifja upp sögu Ríkisskipa.

Hér á eftir umfjöllun um skipaútgerðina sem birtist í 2. tölublaði Frjálsrar verslunar árið 1992. Þó ert rétt að núvirða þrjá milljarðanna í fyrirsögninni. Sparnaður ríkisins þá hefði verið 11 milljarðar að núvirði á þeim áratug sem nefndin sem rætt er um í fréttinni komst að þeirri niðurstöðu.

Skipaútgerð ríkisins lögð niður: Áratug og þremur milljörðum of seint

Flest bendir til þess að Halldór Blöndal samgönguráðherra hafi stigið farsælt skref þegar hann hafði forystu um að framkvæma þá stefnu ríkisstjórnarinnar að leggja Skipaútgerð ríkisins niður og fá öðrum skipafélögum verkefni og þjónustuhlutverk hennar í hendur.

Ljóst er að þessi aðgerð mun spara ríkissjóði hundruð milljóna króna á ári. Þegar litið er á þetta mál er grátlegt til þess að hugsa að allar forsendur voru fyrir hendi til að stíga þetta skref fyrir nær áratug.

Ef ríkissjóður hefði losnað við Ríkisskip fyrir tíu árum væri sparnaðurinn fyrir ríkissjóð trúlega orðinn um þrír milljarðar króna á núverandi verðlagi.

Halldór Blöndal var samgönguráðherra þegar Ríkisskip voru lögð niður. Hér er hann við opnun Hvalfjarðarganga árið 1998.

Á árunum 1981 og 1982 starfaði nefnd á vegum Samgönguráðuneytisins sem hafði þann starfa að gera úttekt á strandsiglingum við Ísland.

Nefndin komst að þeirri niðurstöðu að heppilegast væri að sameina alla strandflutninga í einu félagi. Var þar um að ræða starfsemi Skipaútgerðar ríkisins og strandflutningastarfsemi hinna skipafélaganna, þ.e. Eimskips, Hafskips og Skipadeildar Sambandsins.

Samkvæmt tillögum nefndarinnar var gert ráð fyrir sama þjónustustigi og verið hafði, arðsömum rekstri og því að ekki yrði um frekari fjárstuðning úr ríkissjóði að ræða. Hugmyndin var að stofna sérstakt félag um reksturinn. í nefnd þessari störfuðu þeir Axel Gíslason, Ragnar Kjartansson, Hörður Sigurgestsson, Guðmundur Einarsson, Bergþór Konráðsson og Halldór Kristjánsson.

Það er merkilegt að enginn samgönguráðherra á þessu tíu ára tímabili skyldi hrinda hugmyndinni í framkvæmd og leysa ríkissjóð undan þeim skuldbindingum og ríkisstyrkjum sem árlega hafa runnið til Skipaútgerðarinnar og hlaupið á milljörðum króna á þessum tíu árum.

Á árinu 1990 námu ríkisframlög til fyrirtækisins 755 milljónum króna og árið 1989 voru þau 158 milljónir á verðlagi hvors árs fyrir sig. Á árinu 1990 var beint framlag 169 milljónir króna en niðurfelling skulda við ríkið nam 586 milljónum króna. Hér er því verið að tala um fjárhæðir sem munar um.

Samgönguráðherra hefur unnið gott verk fyrir ríkið með því að leggja Ríkisskip niður og selja bróðurpart starfseminnar til Samskipa sem munu í aðalatriðum halda uppi sömu þjónustu og áður var.

Umfjöllunin birtist í 2. tbl Frjálsar Verslunar árið 1992.