Á uppgjörsfundir Sýnar síðasta haust sagði Heiðar Guðjónsson forstjóri að eftir að eftir mikla fjárfestingu í upplýsingakerfum væri félagið tilbúið að auka vöruframboðið. Í nýju tímariti Frjálsrar verslunar er Heiðar spurður nánar út í þetta og segir hann að fyrsta skrefið hafi verið að fara í færsluhirðingu í samkeppni við Valitor , Salt Pay og Rapyd .

„Þetta hentar okkur afar vel því við erum með fjölda fyrirtækja í viðskiptum og höfum hvort eð er verið tengja posana fyrir þau í gegnum ljósleiðara eða með SIM -korti eða hvoru tveggja. Færsluhirðingin er núna bara viðbótarþjónusta, sem við getum veitt þeim. Þetta útheimtir litla sem enga fjárfestingu hjá okkur og einfaldar lífið hjá viðskiptavininum. Við erum byrjuð að afhenda posa og það gengur vonum framar. Kaupmenn og söluaðilar bíða í röðum eftir að prófa þetta hjá okkur. Við erum með stærsta og öflugasta færsluhirði Evrópu á bakvið okkur sem er fjölþjóðlega fyrirtækið Nexi Group . Með slíkan bakhjarl getum við boðið trausta og örugga þjónustu.“

Orkusala og öryggisþjónusta?

Þar sem Sýn er nú þegar í viðskiptum við fjölda heimila og fyrirtækja vaknar sú spurning hvort til standi að útvíkka starfsemina enn frekar með því að fara inn á nýja markaði, eins og til dæmis orkusölu eða öryggisþjónustu?

„Það blasir við að það er spennandi að bjóða upp á öryggisþjónustu þó ekkert hafi verið ákveðið í þeim efnum,“ segir Heiðar. „Við höfum svo sem skoðað orkusölu og þekkjum hana. Við erum með helming allra fyrirtækja í viðskiptum hjá okkur og þeir eru stórir notendur. Við erum líka það fyrirtæki sem fólk hefur fyrst samband við þegar það er að flytja í nýja íbúð en það er vegna þess að fólk fær rafmagnið strax en ekki Internetið. Af þessum sökum vitum við þegar fólk er að flytja þannig að það myndi alveg passa fyrir okkur að selja raforku. Raforkumarkaðurinn er samt ekki sérlega aðlaðandi núna vegna verðstríðsins sem er í gangi og ég leyfi mér að segja óreiðunnar sem er á þessum markaði í dag.

Ef við ætlum að selja raforku eða bjóða upp á öryggiskerfi þá þarf það bæði að vera ódýrari og þægilegri þjónusta en neytandinn er með í dag. Það er ekki nóg að það sé bara ódýrara eða bara þægilegra.“

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .