Eftir að skipulegum hlutabréfamarkaði var komið á fót hér á landi undir lok síðustu aldar áttu lífeyrissjóðirnir lengi vel aðeins lítið brot í honum.

Gögn Seðlabankans og Hagstofunnar ná aðeins aftur til ársins 1997, en sjóðirnir áttu þá rétt um tíund skráðra hlutabréfa eftir markaðsvirði, og jafnvel á hápunkti fyrirhrunsáranna fór hlutfallið ekki mikið yfir 15%.

Raunar hafði eignasafnið samanstaðið að langmestum hluta af innlendum skuldabréfum í ársbyrjun 1997. Í fyrsta mánuði þess árs, og gagnanna, voru þau 88% safnsins og því aðeins tæpur áttundi hluti þess í öðru.

Árin í kringum aldamótin voru mikill umbrotatími í íslensku fjármálalífi og strax um aldamótin var hlutfall skuldabréfanna komið niður í 60%.

Á sama tíma hafði hlutdeild innlendra hlutabréfa hátt í fimmfaldast úr 5% í 18%. Erlend hlutabréf, sem aðeins höfðu verið um fjórðungur þeirra innlendu, voru nú orðin enn stærri og hlutabréf í heild komin í 37%.

Hæst náðu innlendu hlutabréfin tæpum 30 prósentum af heildareignunum sjóðanna sumarið 2007 eða ríflega 900 milljörðum króna að núvirði, en hlutabréf alls voru þá orðin 55% eignasafns sjóðanna og höfðu verið í meirihluta frá ársbyrjun 2006.

Fréttin er hluti af lengri úttekt á eignarhaldi lífeyrissjóðanna í Kauphöllinni í gegn um tíðina í nýjasta tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út í lok júní. Hægt er að gerast áskrifandi hér.