Klara Sif Magnúsdóttir, Onlyfanskona, er efst á lista áhrifavalda og annarra efnisskapara í Tekjublaði Frjálsrar Verslunar þetta árið, en miðað við greitt útsvar þénaði hún að jafnaði um 1,1 milljón á mánuði á síðasta ári.

Birgitta Líf Björnsdóttir, bankastrætisdrottning og World Class erfingi, er önnur með um 971 þúsund krónur að jafnaði og Eva Ruza Miljevic þriðja með 920 þúsund.

Fjórða á lista er Linda Benediktsdóttir með um 802 þúsund krónur að jafnaði á mánuði og fimmti er Arnar Gauti Arnarsson, betur þekktur sem Lil Curly á TikTok, með um 729 þúsund krónur á mánuði.

Snorri Rafnsson, oftast nefndur Vargurinn, sem var efstur á blaði í síðasta Tekjublaði með um 1,5 milljónir króna á mánuði, er nú ellefti á lista en hann þénaði um 441 þúsund krónur að meðaltali á mánuði á síðasta ári.

Tekjuhæstu áhrifavaldarnir árið 2020:

  1. Klara Sif Magnúsdóttir, Onlyfans - 1.098
  2. Birgitta Líf Björnsdóttir, áhrifavaldur / snappari - 971
  3. Eva Ruza Miljevic, áhrifavaldur / snappari - 920
  4. Linda Benediktsdóttir, áhrifavaldur - 802
  5. Arnar Gauti Arnarsson, Lil Curly, Tiktok-stjarna - 729
  6. Sólveig V Sveinbjörnsdóttir, áhrifavaldur / snappari - 721
  7. Sólrún Lilja Diego Elmarsdóttir, áhrifavaldur - 525
  8. Laufey Ebba Eðvarðsdóttir, Tiktok-stjarna - 506
  9. Ingileif Friðriksdóttir, áhrifavaldur / snappari - 498
  10. Guðrún Veiga Guðmundsdóttir, áhrifavaldur / snappari - 446

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í gær. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .