Aflraunamaðurinn Hafþór Júlíus Björnsson var langtekjuhæstur meðal fólks í íþróttageiranum á Íslandi á síðasta ári. Tekjur hans námu að jafnaði 9,8 milljónum króna á mánuði miðað við greitt útsvar. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í Tekjublaði Frjálsrar verslunar þetta árið.

Hafþór, sem er hvað frægastur fyrir hlutverk sitt í þáttunum Game of Thrones, rekur sína eigin líkamsræktarstöð og er einnig byrjaður að selja skyr undir vörumerkinu Thor‘s Skyr. Auk Hafþórs kemst vaxtaræktarmaðurinn Gísli Örn Reynisson á listann en hann er í fimmta sæti með 1,2 milljónir. Gísli Örn starfar einnig sem lögmaður VÍS.

Annie Mist Þórisdóttir, íþróttakona í Crossfit, nær þriðja sætinu fyrir árið 2020 með tæplega 1,3 milljónir á mánuði að jafnaði. Hún var í þrettánda sæti í síðustu útgáfu Tekjublaðsins, sem fór yfir tekjur einstaklinga árið 2018, þá með nærri 1,1 milljón á mánuði.

Heimir Guðjónsson, þjálfari meistaraflokks Vals í knattspyrnu karla, er í sjöunda sæti og Davíð Þór Viðarsson, aðstoðarþjálfari FH og sparkspekingur, vermir áttunda sætið en báðir eru þeir með nærri 1,2 milljónir á mánuði.

Tekjur tíu hæstu á mánuði að jafnaði í þúsundum króna:

  1. Hafþór Júlíus Björnsson, aflraunamaður - 9.769
  2. Líney Rut Halldórsdóttir, frkvstj. ÍSÍ - 1.592
  3. Annie Mist Þórisdóttir, íþróttak. CrossFit - 1.282
  4. Klara Ósk Bjartmarz, frkvstj. KSÍ - 1.261
  5. Gísli Örn Reynisson Schramm, vaxtaræktarm. - 1.242
  6. Jóhann Másson, form. Júdósamb. - 1.219
  7. Heimir Guðjónsson, þj. Vals - 1.198
  8. Davíð Þór Viðarsson, aðst. þjálf. FH & sparkspekingur - 1.163
  9. Róbert Geir Gíslason, frkvstj. HSÍ - 1.130
  10. Darri Freyr Atlason, fyrrv. þjálfari KR í körfubolta - 1.108

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .