Efstur á lista Tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir embættismenn og forstjóra ríkisfyrirtækja þetta árið er Óskar Sesar Reykdalsson, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins en miðað við greitt útsvar þénaði hann að jafnaði um 6,1 milljón króna á mánuði á síðasta ári. Rétt er að geta þess að samkvæmt launatöflu skrifstofu kjara- og mannauðs, innan fjármála- og efnahagsráðuneytisins, voru regluleg laun Óskars um 1,7 milljón króna á mánuði. Við það bættist einskiptisgreiðsla vegna álags út af farsóttinni, um þriðjungur af mánaðarlaunum hans. Aðrar tekjur skýrast af öðrum þáttum eins og lesa má hér fyrir neðan.

Á eftir honum er Magnús Þór Ásmundsson, sem tók við starfi hafnarstjóra Faxaflóahafna 1. ágúst 2020 en var áður forstjóri Alcoa Fjarðaáls, með um tveimur milljónum króna lægri mánaðartekjur að jafnaði eða um 4,1 milljón króna. Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar, er þriðji á lista með um 3,7 milljónir á mánuði.

Fjórði á lista er Sveinbjörn Indriðason, forstjóri Isavia, að jafnaði með um 3,1 milljón króna á mánuði og Tómas Örn Kristinsson, sérfræðingur hjá Ríkissáttasemjara, er sá fimmti með um 2,9 milljónir.

Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti lýðveldisins, þénaði að jafnaði um 2,6 milljónir króna á mánuði, en hún er tíunda á listanum og eina konan sem er á meðal tíu tekjuhæstu embættismanna og forstjóra ríkisfyrirtækja.

Tekjuhæstu embættismennirnir og forstjórar ríkisfyrirtækja árið 2020:

  1. Óskar Sesar Reykdalsson, forstj. Heilsug. Höfuðborgarsv. - 6.100
  2. Magnús Þór Ásmundsson, Hafnarstj. Faxaflóahafna  - 4.112
  3. Hörður Arnarson, forstj. Landsvirkjunar.- 3.730
  4. Sveinbjörn Indriðason, forstj. Isavia - 3.052
  5. Tómas Örn Kristinsson, sérfr. hjá Ríkissáttasemjara - 2.876
  6. Sigurður Erlingsson, sparisjóðsstj. S. Þingeyinga - 2.715
  7. Stefán Eiríksson, útvarpsstjóri RÚV - 2.702
  8. Páll Matthíasson, forstj. Landspítala - 2.608
  9. Kolbeinn Árnason, skrifstofustj. í atv.vegaráðun. frá hausti 2020 - 2.585
  10. Vigdís Finnbogadóttir, fv. forseti - 2.582

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar er komið út. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .