Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, sem er í ítarlegu viðtali í nýju tímariti Frjálsrar verslunar, hefur í gegnum árin verið óhræddur við að viðra skoðanir sínar á ýmsum málum opinberlega. Það gerði hann til að mynda í grein í Áramótum, tímariti Viðskiptablaðsins og Frjálsar verslunar, sem kom út á milli jóla og nýárs, og vakti mikla athygli. Í henni sagði Heiðar að nú á dögum væri mikil pressa á fyrirtæki að hugsa út fyrir hefðbundið markmið sitt, sem sé að skapa verðmæti, því þau eigi að hafa sjálfbærnistefnu , samfélagsstefnu, umhverfisstefnu og svo framvegis.

„Sumir stjórnendur fyrirtækja brenna fyrir ákveðnum málefnum og er það skiljanlegt. En hafa þeir umboð hluthafa eða stoð í lögum um hlutafélög til að hampa einu máli umfram annað og krýna sjálfa sig í leiðinni sem riddara réttlætis?“ skrifaði Heiðar í Áramót.

Í nýútkomnu tímariti Frjálsrar verslunar eru þessi mál rædd frekar.

„Þessi spurning um umboðið er hluti af stærri mynd,“ segir Heiðar. „Núna getur Seðlabankinn sem dæmi sett á gjaldeyrishöft og einn peningastefnumaður hefur reyndar talað fyrir því. Yrði slíkt samþykkt þyrfti ekki að leita til þingsins vegna þeirrar ákvörðunar.

Þegar verið var að deila um Icesave og skuldbindingarnar tengdu því, sem sannarlega voru skuldbindingar einkafyrirtæki, þá ætluðu opinberir embættismenn að taka ákvarðanir í þeim málum og semja sig út í horn. Þegar kom að uppgjöri við kröfuhafa þá ætluðu embættismenn að fara framhjá lýðræðinu.

Sóttvarnarlæknir hefur tekið ákvarðanir um hitt og þetta, þvert á lög. Það er almennur umboðsvandi í gangi. Hvaðan kemur lýðræðislegt umboð til að taka svona stórar ákvarðanir eins og um gjaldeyrishöft, uppgjör á stærstu skuldbindingum landsins, sóttvarnaraðgerðir og um það að breyta stefnu nánast allra fyrirtækja. Þetta er rauði þráðurinn í því sem ég er að vekja máls á.“

Tala auðvitað með rassinum

Heiðar segir að Sýn hafi verið í fararbroddi í sjálfbærni-, samfélags- og umhverfismálum.

„Ég efast um að annað skráð fyrirtæki hafi sinnt þessum málum meira en við. Hins vegar má ekki gleyma því að það er grunnrekstur fyrirtækjanna sem skiptir mestu máli. Það verður að skapa skapa verðmæti. Fyrirtæki sem er með frábæra umhverfisstefnu eða samfélagsstefnu en skapar ekki verðmæti er ekki að sinna hlutverki sínu. Það verður fyrst að vera með framúrskarandi verðmætasköpun og fyrst þá er hægt að velta hinu fyrir sér.

Til þess að fyrirtæki missi ekki sjónar á þessu hlutverki að skapa verðmæti þá þarf að passa upp á þessi tískuumræða, sem er í gangi, yfirgnæfi ekki annað, að við höfum ekki endaskipti á hlutunum. Auðvitað eigum við að vanda okkur í allri umgengni við náttúruna. Það eru líka lög í landinu og reglugerðir um það hvernig fyrirtæki mega starfa, þetta er ekki villta vestrið. Það er ekki eins og fyrirtæki geti gengið á skítugum skónum úti um allt.

Það er ekkert land í heiminum sem stendur framar Íslandi í þessum málum og þess vegna er þessi umræða sérkennileg. Það er ekkert svæði í heiminum sem stendur framar norðurslóðum í því að vera með ábyrga umgengni gagnvart náttúrunni. Það er sem dæmi ekkert svæði í heiminum sem framleiðir olíu á ábyrgari hátt.

Finnst fólki núna, sem er að banna alla olíuvinnslu í kringum Ísland, það vera sniðugt. Með því er verið að ýta olíuvinnslu til svæða, eins og Mið-Asíu og Afríku, sem hafa ömurlega sögu þegar kemur að umgengni við náttúruna. Það er ekki hægt að slökkva á eftirspurninni eftir olíu með því að banna framleiðslu á bestu stöðunum. Þetta er svipað og draumórar sumra um að með því að slökkva á íslenskum álverum minnki eftirspurnin eftir áli. Það er ekki þannig. Orkuskiptin ganga út á að nýta léttmálma og til þess að þau nái fram þarf meiri álframleiðslu. Öll þessi umræða er öfugsnúin og mér finnst hún ekki ganga upp. Hún byggir miklu meira á tilfinningum frekar er rökhyggju og vísindahyggju. Einhverjir hafa sagt að það eigi að hugsa með hjartanu í þessum málum, en þeir sem segjast hugsa með hjartanu tala auðvitað með rassinum.“

Að sögn Heiðars eiga orkuskipti sér ekki stað yfir nótt.

„Þetta er samfelld þróun. Maðurinn fór úr því að brenna eldivið í að brenna smám saman kolum. Svo fór hann að brenna olíu og gasi. Hvert stig af þessu minnkar sóun og mengun gríðarlega því maðurinn var alltaf að komast í hreinni og kraftmeiri orkugjafa. Núna er verið að þróa kaldan samruna með lofandi árangri, einhverjir hlægja við og segja að búið sé að tala um kaldan samruna í fimmtíu ár og ekkert gerist, en þetta er að gerast núna. Einnig er alltaf verið að finna betri lausnir í kringum vatnsafl, sólarorku og vindorku en þetta gerist ekki yfir nótt.“

Fyrirhyggjuleysi ESB

Heiðar segir að hann furði sig oft á vegferð Evrópusambandsins í orkumálum [þess ber að geta að viðtalið við Heiðar var tekið áður en Rússar réðust inn í Úkraínu].

„Þar eru teknar pólitískar ákvarðanir en ekki ákvarðanir út frá rökhyggju. Endurspeglast þetta til dæmis í banni við notkun á kjarnorku, sem þýðir að byggja þarf fleiri gasorkuver í Evrópu og álfan allt í einu orðin háð Rússum um gas. Svo vill sambandið leggja mikla áherslu á vind- og sólarorku, sem er gott en í vetur hefur verið mjög sérstakt árferði. Það hefur verið kalt og lítill vindur. Þannig að þeirra orkuþurrð og aukinn orkukostnaður er ekki loftslagsbreytingum að kenna heldur misheppnuðum stjórnmálaákvörðunum. Núna hittir það Evrópusambandið fyrir að ætla breyta orkukerfinu í einni svipan. Þetta er ekkert grín. Það er fullt af fólki sem er að gjalda dýrum dómi hvað breytingar sambandsins á orkustefnunni hafa verið fyrirhyggjulausar.“

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .