Heiðar Guðjónsson tók við forstjórastöðunni í apríl 2019. Heiðar segir að á þeim tímapunkti hafi fyrirtækið verið búið að gefa út margar neikvæðar afkomuviðvaranir í röð.

„Þær áætlanir sem höfðu verið settar fram stóðust engan veginn og reksturinn versnaði dag frá degi — þannig að það þurfti að grípa inn í,“ segir hann í viðtali við tímarit Frjálsrar verslunar.

Í lok árs 2017 keypti Sýn stóran hluta af fjölmiðlum 365 miðla en það voru til dæmis sjónvarpsstöðvarnar Stöð 2 og Stöð 2 Sport, útvarps­stöðvarnar Bylgj­an, FM957 og X -ið en auk ljósvakamiðlana keypti Sýn vefmiðilinn Vísi.is , sem og fréttastofu 365. Fréttablaðið var í raun það eina sem Sýn fékk ekki til sín.

„Það var mikið havarí við að setja þetta allt saman og það hafði ekki gengið sem skyldi. Fjármálin og tæknin rákust hvort á annað og skiljanlega olli það mikilli óánægju á meðal viðskiptavina, sem margir hættu í viðskiptum hjá okkur. Það þurfti að komast út úr þessum ógöngum og það var stóra verkefnið þegar ég tók við. Smám saman tókst okkur að laga hlutina. Það gerðist ekki í snarhasti heldur með því að treysta starfsfólkinu og fara í alhliða stefnumótun frá grunni og upp.

Sumarið 2019 misstum við enska boltann til Símans. Á þessum tíma voru líka breytingar að verða í heimi streymisveitna. HBO var að koma með sína streymisveitu en Stöð 2 hafði verið heimili HBO á Íslandi. Margir héldu því fram að línulegt sjónvarp og íþróttastöðvar væru dauðar því erlendar efnisveitur myndu taka allt yfir. Við stóðum því frammi fyrir mörgum áskorunum vorið og haustið 2019 en sem betur fer var farið í þessa stefnumótun og fyrirtækinu breytt úr því að vera tæknidrifið yfir í að vera þjónustudrifið. Við gerum allt fyrir viðskiptavinina. Í dag liggur styrkur fyrirtækisins í því að við erum með um helming allra heimila á Íslandi í föstum mánaðarlegum viðskiptum og um helming allra íslenskra fyrirtækja líka. Það eru um 150 þúsund heimili á Íslandi og 19 þúsund fyrirtæki með starfsfólk.“

Heiðar segir að ánægja viðskiptavina Sýnar hafi verið í lágmarki sumarið 2019 en það hafi breyst mikið. Á þessum tíma hafi árlegt tap fyrirtækisins af reglulegum rekstri numið um milljarði króna en samt sem áður hafi fyrirtækið lækkað öll verð. Skilmálum og áskriftum hafi verið breytt og dreifigjald, sem skilaði fyrirtækinu um 150 milljónir króna á ári, var fellt niður. Áskrift að Stöð 2 kostar 7.990 í dag og segir Heiðar að sem hlutfall af ráðstöfunartekjum sé það hlægilega ódýrt í samanburði við það sem hafi verið fyrir 10 árum eða 20.

„Með öllu þessu skiptum við um kúrs og fleiri viðskiptavinir komu til okkar en fóru frá okkur. Síðastliðin tvö ár höfum verið verið hástökkvarinn í Íslensku ánægjuvoginni, sem segir okkur að ánægja viðskiptavina er alltaf að aukast. Augljóslega helst okkur betur á viðskiptavinum ef þeir eru ánægðir. Þetta hefur svona í stórum dráttum verið lykillinn að því að snúa rekstrinum við. Í dag standa allar einingar Sýnar undir sér.“

Berjast fyrir auknu frelsi og gegn stöðnun

Fyrirtækjamenning er mikilvæg. Spurður hvort það hafi orðið einhverjir árekstrar þegar fjölmiðlarnir voru keyptir sameinaðir fjarskiptahlutanum svarar Heiðar: „Nei. Starfsfólkið, sem kom frá 365 var mjög sveigjanlegt, lipurt og ýmsu vant. Það er gott að hugsa til þess að bæði fjölmiðlarnir og fjarskiptahlutinn, sem nú mynda Sýn, eiga það sameiginlegt að hafa í gegnum árin barist fyrir auknu frelsi og gegn stöðnun.

Fjölmiðlar eins og Bylgjan og Stöð 2 voru stofnaðir til þess að fara í samkeppni við Ríkisútvarpið og Vodafone er samsafn fyrirtækja, eins og Íslandssíma og Tal, sem fór í samkeppni við Símann. Ég held að þetta hafi hjálpað mjög til. Það sem var aðallega að rekstrinum var að upplýsingatæknin hjá okkur réði ekki við sameina fyrirtækin. Reikningakerfið, bókhaldið og fjármálakerfið réði ekki við þetta. Innviðir Vodafone til að taka yfir allan þennan rekstur bognuðu og brotnuðu. Það fór gríðarlega mikið vinna í að laga þetta en það tókst.

Sem betur var starfsfólkið tilbúið í þessa vegferð sem var ekki sársaukalaus. Starfsfólki fækkaði úr 620 í 470 á einu ári og millistjórnendum fækkaði um 55. Í íslensku fyrirtækjaumhverfi finnst mér helsti gallinn vera sá hvað það eru margir millistjórnendur. Hjá okkur skiptir skipuritið miklu minna máli en áður. Við höfum lagt áherslu á valddreifingu frekar en miðstýringu og notið góðs af því. Þetta fyrirkomulag ýtir undir sköpun og starfsánægjan hér hefur aldrei mælst meiri en nú.“

Viðtalið er hægt að lesa í heild sinni í tímariti Frjálsrar verslunar sem var að koma út. Hægt er að gerast áskrifandi hér eða kaupa blaðið hér .