Íslandshótel fagnar 30 ára afmæli á næsta ári en Ólafur D. Torfason, stjórnarformaður og aðaleigandi, opnaði fyrsta hótel keðjunnar, Hótel Reykjavík, á Rauðarárstíg árið 1992. Sonur hans, Davíð Torfi Ólafsson, er framkvæmdastjóri Íslandshótela en hann tók á sínum tíma þátt í opnun fyrsta hótelsins með föður sínum og fjölskyldunni allri.

„Það vildi þannig til að ég var á þessum tíma að hætta í námi eftir að hafa ekki fundið mig í framhaldsskólanum og fór því með pabba í þessa vinnu, líkt og raunar öll fjölskyldan. Við lögðum öll hönd á plóg við að opna fyrsta hótelið," segir Davíð og rifjar upp að hótelbransinn hafi ekki verið hátt skrifaður á þessum árum.

„Pabbi hefur oft sagt sögur af því þegar hann var að reyna að fá fyrirgreiðslu hjá bönkunum á þessum tíma og menn fóru bara og þvoðu sér um hendur eftir að hann heilsaði þeim, vegna þess að hann var í hótelbransanum," segir Davíð hlæjandi.

Davíð tók við sem framkvæmdastjóri Fosshótelakeðjunnar árið 2009 og gegndi því hlutverki til ársins 2012, þegar Fosshótelin voru sameinuð við önnur hótel í eigu fjölskyldunnar undir Íslandshótelum sem hluti af uppgjöri eftir bankahrunið, en Davíð tók þá við sem framkvæmdastjóri Íslandshótela.

„Eftir sameiningu hótelanna undir merkjum Íslandshótela ákváðum við að fara í endurskipulagningu á rekstri hótelanna. Fosshótelin voru gjarnan sumarhótel rekin í heimavistarhúsnæði þannig að gæðin voru eftir því og ekki alveg í okkar anda. Fosshótelin vantaði flaggskip í Reykjavík. Við settumst því við teikniborðið, horfðum á landið í heild sinni og settum saman áætlun um uppbyggingu vörumerkisins sem hefur gengið eftir og rúmlega það. Áætlunin fól meðal annars í sér að opna stórt og gott hótel í Reykjavík ásamt því að sinna landsbyggðinni vel og vera með hótel í öllum landsfjórðungum. Við létum jafnframt frá okkur hótel sem voru ekki af þeim gæðum sem við vildum hafa."

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu, sem var að koma út. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .