Einar Páll Kjærnested hjá Fasteignasölu Mosfellsbæjar trónir á toppi lista tekjublaðs Frjálsrar verslunar yfir tekjuhæstu fasteignasala landsins. Meðalmánaðarlaun Einars námu að jafnaði, byggt á upplýsingum álagningarskrár Skattsins um greitt útsvar, um 2.174 þúsund krónum.

Þetta er annað skiptið í röð sem fasteignasalar koma fyrir sem sérstakur flokkur í tekjublaðinu en sá var einnig hátturinn í blaðinu sem kom út árið 2019. Messufall varð á útgáfunni 2020 þar sem sóttvarnaaðgerðir hömluðu því að skrárnar yrðu lagðar fram.

Í næstu sætum á eftir Einari má finna þá Víði Arnar Kristjánsson hjá Domusnova, með 1.707 þúsund krónur að jafnaði í mánaðartekjur, og Ástþór Reyni Guðmundsson hjá Remax með tæplega hundrað þúsund krónum minna.

Í sæti fjögur til sex raða sér síðan Óskar Már Alfreðsson hjá Domusnova, Hannes Steindórsson á Lind og Helgi Jón Harðarson hjá Hraunhamri allir með um og yfir 1.500 þúsund krónur í meðalmánaðarlaun að jafnaði. Þórey Ólafsdóttir, fasteignasali hjá Landmark, er eina konan sem ratar inn á topp tíu listann að þessu sinni.

Hér að neðan smá finna listann:

  1. Einar Páll Kjærnested, fasteignasali. Fasteignas. Mosfellsb. - 2.174 þúsund krónur
  2. Víðir Arnar Kristjánsson, fasteignasali. Domusnova - 1.707 þúsund krónur
  3. Ástþór Reynir Guðmundsson, fasteignasali. Remax - 1.614 þúsund krónur
  4. Óskar Már Alfreðsson, Domusnova - 1.550 þúsund krónur
  5. Hannes Steindórsson, fasteignasali. Lind - 1.501 þúsund krónur
  6. Helgi Jón Harðarson, fasteignasali. Hraunhamar - 1.500 þúsund krónur
  7. Guðmundur Theódór Jónsson, fasteignasali. Fasteignamarkaðurinn - 1.482 þúsund krónur
  8. Arnar Birgisson, framkvæmdastj. Eignaver - 1.311 þúsund krónur
  9. Þórey Ólafsdóttir, fasteignasali. Landmark - 1.237 þúsund krónur
  10. Daði Hafþórsson, fasteignasali. Eignamiðlun - 1.215 þúsund krónur

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .