Tveir Árnar raða sér í tvö efstu sætin á lista yfir tekjuhæstu forstjóra landsins á síðasta tekjuári samkvæmt álagningarskrá Skattsins. Það eru þeir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marels, með rúmlega 35,9 milljón krónur í mánaðarlaun að jafnaði og Árni Harðarson, forstjóri Salt Investments, með 26,3 milljón krónur.

Þetta er meðal þess sem finna má í tekjublaði Frjálsrar verslunar sem kom út í dag, en blaðið hefur að geyma upplýsingar um tekjur um 4.000 Íslendinga. Rétt er að geta þess að blaðið kom ekki út í fyrra, þar sem ekki var unnt að leggja fram álagningarskrár sökum sóttvarna.

Tómas Már Sigurðsson, forstjóri HS Orku, er í þriðja sæti listans að þessu sinni, mánaðarlaun námu að jafnaði rúmlega 19,9 milljónum króna, en á hæla hans fylgir Rupert John Horrocks, framkvæmdastjóri Kaupþings ehf. Þá var Grímur Karl Sæmundsen með rúmlega 17,8 milljónir króna að jafnaði í mánaðarlaun.

Nafn Vilhelms Róberts Wessmann, forstjóra Alvogen, er ekki að finna á listanum að þessu sinni þar sem hann er ekki lengur með lögheimili á Íslandi.

Hér að neðan má sjá tíu tekjuhæstu forstjórana:

  1. Árni Oddur Þórðarson, forstj. Marels - 35,9 milljónir
  2. Árni Harðarson, forstj. Salt Investments - 26,3 milljónir
  3. Tómas Már Sigurðsson, forstj. HS Orku - 19,9 milljónir
  4. Rupert John Horrocks, frkvstj. Kaupþing ehf. - 19,9 milljónir
  5. Grímur Karl Sæmundsen, forstj. Bláa Lónsins - 17,8 milljónir
  6. Hjalti Baldursson, frkvstj. Bókunar, - 14,6 milljónir
  7. Magnús Steinarr Norðdahl, forstj. LS Retail - 13,3 milljónir
  8. Haraldur Líndal Pétursson, frkvstj. Johan Rönning - 12,2 milljónir
  9. Kári Stefánsson, forstj. Ísl. erfðagr. - 8,8 milljónir
  10. Guðmundur Þóroddsson, forstj. ReykjavíkGeothermal - 8,3 milljónir

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .