Arnaldur Jón Gunnarsson og Ársæll Hafsteinsson hafa sætaskipti á lista tekjublaðs Frjálsrar verslunar þetta árið yfir tekjuhæstu lögfræðinga landsins. Að þessu sinni er það Arnaldur sem toppar listann, með rétt rúmar tíu milljón krónur í tekjur á mánuði að jafnaði, en Ársæll hefur rúmum 200 þúsund krónum minna.

Efstu þrír eru þeir sömu og síðast þegar tekjublaðið kom út, messufall varð á síðasta ári sökum sóttvarnaaðgerða, en í þriðja sæti er Þröstur Ríkharðsson með rétt tæpar níu milljón krónur. Þórarinn Þorgeirsson, einn eigenda lögmannsstofunnar Dragna, fylgir svo í kjölfarið með rúmar átta milljónir.

Þrjár konur rata inn á topp tíu listann að þessu sinni. Hæst þeirra er Þórunn Helga Þórðardóttir, tæpar 3,9 milljónir á mánuði að jafnaði, því næst Birna Hlín Káradóttir hjá Arion banka, 3,6 milljónir, og að endingu Greta Baldursdóttir, fyrrverandi hæstaréttardómari, með 3,3 milljónir.

10 tekjuhæstu lögfræðingarnir árið 2020:

  1. Arnaldur Jón Gunnarsson, hdl. Kaupþingi - 10.023 þúsund krónur
  2. Ársæll Hafsteinsson, hdl. AH Lögmenn - 9.777 þúsund krónur
  3. Þröstur Ríkharðsson, hrl. Kaupþing - 8.996 þúsund krónur
  4. Þórarinn Þorgeirsson, lögm. og meðeigandi Dranga - 8.012 þúsund krónur
  5. Benedikt Einarsson, hdl. Atlantik Legal - 4.415 þúsund krónur
  6. Þórunn Helga Þórðardóttir, lögmaður hjá Jus - 3.894 þúsund krónur
  7. Birna Hlín Káradóttir, lögfr. Arion banki - 3.637 þúsund krónur
  8. Helgi Ingólfur Jónsson, fv. hæstaréttardómari - 3.385 þúsund krónur
  9. Óttar Pálsson, hrl. Logos - 3.371 þúsund krónur
  10. Greta Baldursdóttir, fv. hæstaréttardómari - 3.352 þúsund krónur

Um er að ræða útsvarsskyldar tekjur á árinu 2020 og þurfa þær ekki að endurspegla föst laun viðkomandi. Munurinn getur falist í launum fyrir setu í nefndum og öðrum aukastörfum og hlunnindum vegna kaupréttarsamninga. Í launum sumra kann að vera falinn bónus vegna ársins 2019, sem greiddur var árið 2020. Miðað er við útsvarsstofn samkvæmt álagningarskrá. Í tölunum eru ekki fjármagnstekjur, t.d. af vöxtum, arði eða sölu hlutabréfa. Sleppt er skattfrjálsum dagpeningum, bílastyrkjum og greiðslum í lífeyrissjóði. Hafa verður í huga að inni í tekjunum getur líka verið einskiptisgreiðsla vegna úttektar á séreignarsparnaði hjá lífeyrissjóði.

Tekjublað Frjálsrar verslunar kom út í morgun. Finna má blaðið á helstu sölustöðum en einnig má panta eintak hér .