Við teljum að byggða- og atvinnuþróun í tengslum við Keflavíkurflugvöll sé mjög brýnt verkefni. Flugvellir víðs vegar í heiminum standa höllum fæti en árið í ár hefur verið eitt það erfiðasta fyrir flugrekstur í sögunni.“ Þetta segir Dr. Max Hirsh, sérfræðingur á sviði flugvallaþróunar. Hirsh er einn af ráðgjöfum Kadeco, þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, en hann hefur komið að ráðgjöf við slíka uppbyggingu víða um heim.

„Það liggur í augum uppi að flugvöllurinn þarf í framtíðinni að endurhanna viðskiptamódel sitt. Mikil áhersla hefur verið lögð á tekjur frá ferðamönnum og viðskiptum þeirra á vellinum. Ef flugvellir geta dregið einn lærdóm af kórónuveirufaraldrinum er það mikilvægi þess að dreifa áhættu með fjölbreyttum tekjustofnum. Þannig komast flugvellir lífs af í framtíðinni.“

Meginmarkmið Kadeco er að leiða samstarf íslenska ríkisins, Isavia, Reykjanesbæjar og Suðurnesbæjar um skipulag, þróun, hagnýtingu og markaðssetningu lands við Keflavíkurflugvöll. Þróunarsvæðið sem nú er verið að huga að uppbyggingu á er 3,5 ferkílómetrar að stærð en alls sér Kadeco um uppbyggingu á um 55 ferkílómetra svæði.

Áhersla lögð á fraktflutning

„Ein hugmynd er að horfa til Keflavíkurflugvallar sem fraktmiðstöðvar þrátt fyrir að farþegaflutningur verði ennþá mikilvæg stoð í rekstri vallarins. Til þess þarf að efla vöruflutning í gegnum sjó og flug,“ segir Hirsh. Hann telur að í framtíðinni muni hluti farmflutninga sem nú eiga sér stað við til dæmis við Sundahöfn færast og segir hann stórskipahöfnina við Helguvík mjög áhugaverða í því tilliti.

„Flugvellir eru oft á tíðum einn af stærstu vinnuveitendum hvers lands. Þar er Ísland engin undantekning og er Keflavíkurflugvöllur mikilvægur drifkraftur vaxtar fyrir allt hagkerfið,“ segir Hirsh. Bendir hann á að miklar sveiflur einkenni hagkerfið og atvinnulíf á Suðurnesjum. Eftir brotthvarf varnarliðsins, bankahrunið, gjaldþrot Wow air og nú í heimsfaraldrinum hafa Keflavík og nærliggjandi svæði ávallt farið verr út úr ástandinu en íslenska hagkerfið í heild sinni.

Því er lögð áhersla á sjálfbærari byggða- og atvinnuþróun og telur hann brýnt að fá fjölbreyttari tekjustofna á téðu svæði til þess að tryggja stöðugleika.

Nánar er fjallað um málið tímariti Frjálsrar verslunar sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af tímaritinu hér eða gerast áskrifandi hér .