Icelandair réðst í víðtækar hagræðingaraðgerðir í fyrra, meðal annars neyðarsamninga og hlutafjárútboð, og Play air frestaði innkomu á markaðinn og beið átekta. Á þessu ári hefur þó tekið að birta til, Icelandair skilaði nýverið hagnaði í fyrsta sinn í tvö ár, MAX vélarnar eru loksins komnar í loftið og Play hóf starfsemi um sumarið eftir vel heppnað frumútboð og skráningu.

Farþegafjöldi Icelandair dróst saman um 99% í apríl í fyrra, þegar flugfélagið flutti alls 1.700 farþega. Í lok sama mánaðar sagði félagið upp rúmlega 2.000 starfsmönnum í einni stærstu einstöku hópuppsögn Íslandssögunnar.

Af þeim sem áfram störfuðu hjá félaginu var starfshlutfall langflestra skert sem og laun þeirra sem áfram unnu fullt starf. Samhliða þeim aðgerðum var ráðist í umfangsmiklar skipulagsbreytingar, sviðum var meðal annars fækkað sem og stjórnendum.

Félagið bókfærði 26,8 milljarða króna rekstrartap strax á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs, en fyrir árið í heild nam tapið 51 milljarði. Heilt yfir dróst farþegafjöldi félagsins saman um 83% milli ára á árinu, en árið 2019 var stærsta ár í sögu félagsins í farþegum talið, sem voru alls 4,4 milljónir það ár.

MAX og Play í loftið á árinu
Á nýju ári fór gæfa félagsins svo að snúast við. Í mars fóru MAX vélar Icelandair loks í loftið eftir tveggja ára kyrrsetningu og ítrekaða frestun leyfisveitingar að nýju. Á fyrri helmingi ársins tapaði félagið þó hátt í 11 milljörðum króna, en hafði tapað 45 á sama tímabili árið áður.

Strax á öðrum ársfjórðungi fór flugstarfsemin að glæðast að nýju. Heildartekjur námu 10 milljörðum og jukust um rúman fjórðung, og tekjur af seldum flugferðum tvöfölduðust og námu 7 milljörðum.

Flugfélagið Play air – sem á rætur sínar að nokkru leyti að rekja til hins fallna flugfélags Wow air og bar upphaflega vinnuheitið WAB air eða „We Are Back“ – hafði verið að undirbúa flugrekstur í nokkurn tíma þegar faraldurinn hófst. Í nóvember 2019 var tilkynnt um að félagið myndi bera nafnið Play, ásamt því að rauður einkennislitur félagsins var kynntur.

Vildu ekki fórna sterkri stöðu
Félagið var hins vegar ekki komið lengra en á fjármögnunarstigið þegar faraldurinn skall á, og eins og við má búast tafði það áformin nokkuð. Í apríl í fyrra var fullyrt að félagið hefði tryggt sér nægt fjármagn til að hefja flug, en biði átekta vegna stöðunnar sem upp var komin. Þó væri stefnt að því að hefja flug næsta vetur.

Þegar haust bar að garði og smita fór að gæta á ný eftir ládeyðu sumarsins lét Arnar Már Magnússon, þáverandi forstjóri Play, svo hafa eftir sér að félagið vildi „alls ekki fórna sterkri stöðu“ sinni með því að byrja of snemma. Jafnvel yrði beðið fram á næsta vor.

Í lok júní var félagið skráð á First north hliðarmarkað kauphallarinnar samhliða frumútboði þar sem um þriðjungshlutur í félaginu var seldur á rúmlega 4 milljarða, en alls bárust tilboð fyrir tæpa 34 milljarða, sem samsvarar áttfaldri eftirspurn. Sama dag og opnað var fyrir tilboð var svo jómfrúarferð flugfélagsins flogin.

Í upphafi flaug félagið til sjö áfangastaða, en síðan þá hefur leiðakerfið stækkað í ellefu staði, sem allir eru í Evrópu enn sem komið er. Þrír til viðbótar á Norðurlöndunum hafa verið staðfestir fyrir sumaráætlun næsta árs, en félagið sótti auk þess um leyfi nú í haust til að hefja farþegaflutninga til og frá Bandaríkjunum næsta sumar, enda byggir viðskiptaáætlun þess á tengiflugi milli heimsálfanna tveggja, með viðkomu hér á landi. Til samanburðar flýgur Icelandair nú til 43 áfangastaða.

Nánar er fjallað um málið í bókinni 300 stærstu sem kom út nýlega. Hægt er að kaupa eintak af bókinni hér .