Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir að ef Íslendingum heppnast að beita stýrivöxtum til að jafna sveiflur í hagkerfinu verði það gríðarlega mikill ábati fyrir land og þjóð. Þetta kemur fram í viðtali við Ásgeir í bók Frjálsrar verslunar 300 stærstu, en áskrifendur geta lesið viðtalið í heild hér.

Í þessu samhengi er Ásgeir að vísa til þess að nafnvaxtalán, eða óverðtryggð lán, eru mjög góð fyrir peningastefnu Íslands að því leyti að stýrivaxtabreytingar hafa með beinum hætti áhrif út í hagkerfið. Í gamla kerfinu, þegar allir voru með verðtryggð lán með föstum vöxtum til langs tíma, höfðu stýrivaxtabreytingar lítil áhrif.

„Stýrivextir eru það tæki sem best er að beita og sérstaklega ef það heppnast að beita þeim án þess að það hafi mikil áhrif á gengi krónunnar. Miklar hreyfingar á gjaldmiðli hafa mjög óæskileg áhrif á lítil hagkerfi.

Ég vil sjálfur að þróun undanfarinna ára haldi áfram — að fólk haldi áfram að færa sig yfir í nafnvaxtalán og að við förum alveg úr verðtryggingunni. Það er aftur á móti ekkert hagsmunamál fyrir Seðlabankann að fólk sé með breytilega vexti sem þróast alveg í takt við stýrivexti. Ég myndi vilja sjá lánastofnanir bjóða fólki að festa vexti í lengri tíma en nú stendur til boða.

Ég myndi vilja sjá stjórnvöld, verkalýðshreyfinguna og bankana vinna saman að því að halda þessari þróun áfram. Það liggur fyrir að ef við missum stjórn á verðbólgunni þá mun verðtryggingin koma aftur. Það er því mikið undir í kjaraviðræðunum sem nú eru í gangi að þessari þróun yfir í nafnvaxtakerfið verði fylgt eftir því samfara því verður peningastefnan miklu virkari og hætta á kollsteypum í hagkerfinu minnkar.

Sársaukinn sem fylgir stýrivaxtahækkunum þýðir að vextirnir eru að bíta. Þegar allir voru með verðtryggð lán til 40 ára á föstum vöxtum með jafngreiðsluskilmálum höfðu stýrivextir nánast engin áhrif á þann þátt. Raunar lækkar verðtryggða krafan gjarnan í kjölfar óvæntra verðbólguskota og það var ódýrara fyrir fólk að skuldsetja sig.”

Staðan er góð

Verðbólga hefur farið úr böndunum víða um heim og hér heima mælist hún liðlega 9% og hefur ekki verið hærri frá hruni.

Spurður hvernig hann meti stöðuna hér heima í samanburði við stöðuna á meginlandi Evrópu, þar sem nú er stríð og orkukrísa svarar Ásgeir:

„Staðan hér er mjög góð út frá mörgum forsendum. Í fyrsta lagi erum við með okkar eigin orkugjafa. Í öðru lagi erum við ekki mikið skuldsett í útlöndum lengur sem þýðir að vaxtahækkanir erlendis hafa ekki veruleg áhrif á okkur. Í þriðja lagi þá eru heimilin ekki mikið skuldsett. Skuldir þeirra sem hlutfall af ráðstöfunartekjum er eitthvað í kringum 150% sem er mun lægra hlutfall en úti. Bankakerfið stendur líka vel því bankarnir eiga mikið eigið fé og eru lítið skuldsettir. Þessu til viðbótar standa útflutningsgreinarnar vel. Okkar staða er því mjög góð.

Við erum samt ekki eyland í þessum skilningi og við lendum auðvitað í því að flytja inn verðbólgu hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það er því ekki gott ef okkar helstu viðskiptalönd fara í djúpa kreppu.”

Viðtalið má lesa í heild í bók Frjálsrar verslunar, 300 stærstu, sem áskrifendur geta nálgast hér.