*

mánudagur, 6. desember 2021
Erlent 15. október 2021 11:25

Hætta við kaup á höfuð­stöðvum E­ver­grande

Byggingarfyrirtæki í eigu kínverska ríkisins er hætt við að kaupa höfuðstöðvar Evergrande.

Ritstjórn
Evergrande keypti 32 þúsund fermetra höfuðstöðvar sínar árið 2015 fyrir 12,5 milljarða Hong Kong dala eða um 200 milljarða króna.
epa

Byggingarfyrirtækið Yuexiu Property, sem er í eigu kínverska ríkisins, er hætt við tæplega 220 milljarða króna kaup á höfuðstöðvum kínverska fasteignarisans Evergrande. Yuexiu var nálægt samkomulagi um kaup á 26 hæða byggingunni, sem staðsett er í Hong Kong, en stjórn félagsins hætti við vegna áhyggna af því að fjárhagsvandræði Evergrande myndu koma í veg fyrir hnökralaus viðskipti. Reuters greinir frá.

Evergrande, sem skuldar yfir 300 milljarða Bandaríkjadala, hefur ekki staðið skil á þremur vaxtagreiðslum á alþjóðlegum skuldabréfum.

Fasteignarisinn hefur átt í kappi við að selja eignir í ljósi lausafjárvandræðanna. Viðræður um sölu á 51% hlut í fasteignarekstrarfélaginu Evergrande Property Services eru sagðar á lokastigi. Talið er að kaupverðið muni hljóða upp á 20 milljarða Hong Kong dali, eða sem nemur um 330 milljörðum króna.