*

laugardagur, 8. ágúst 2020
Innlent 17. júlí 2019 13:40

Segir raforku sóað í Bitcoin

Gylfi Magnússon slær varnagla við gröft eftir rafmyndinni Bitcon sem hann líkir við pýramítasvindl.

Ritstjórn
Gylfi Magnússon, fyrrum viðskiptaráðherra og dósent í hagfræði við Háskóla Íslands.
Haraldur Guðjónsson

Gylfi Magnússon, fyrrum viðskiptaráðherra og dósent í hagfræði við Háskóla Íslands, segir gröft eftir Bitcoin vera sóun á raforku, en hann var í viðtali í Morgunútvarpi Rásar 2 í morgun þar sem rafmyntin var til umræðu. Að mati Gylfa er mikilli orku sóað um allan heim til að framleiða myntina eða sem nemur 0,2 prósent af heildarraforkuframleiðslu heimsins og um fimm prósent orkuframleiðslu hérlendis.

„Það er sorglegra en tárum taki því mikil og vaxandi orkunotkun er alheimsvandamál vegna hnattrænnar hlýnunar. Þó svo 0,2 prósent sé ekki mikið þá, þegar litið er á allan heiminn, þá er verið að sóa þarna gífurlegri orku,“ sagði Gylfi m.a. í viðtalinu, en gagnaverum hefur fjölgað hratt á Íslandi undanfarin ár og er orkuþörf þeirra orðin á við öll heimili landsins samanlagt. 

„Menn treysta því að hægt sé að finna meira flón sem er til í að kaupa á hærra verði. Bitcoin er eiginlega ekkert notað í alvöru viðskiptum, helst í svörtu hagkerfi sem menn eru að nota þessa mynt,“ segir Gylfi og bætir við að spákaupmenn stýri verðinu á rafmyntinni og að viðskiptin minni helst á pýramídasvindl.

„Á meðan bólan springur ekki er hægt að hafa tekjur af því að grafa upp eftir þessu og selja rafmagn í það. Það kemur fram í tölum um útflutning og raforkusölu innanlands, að á meðan bólan er ekki sprungin eru tekjur af framleiðslunni en þetta er ekki eitthvað sem er æskilegt til langframa,“ segir Gylfi. 

„Það er lágmarkskrafa að hið opinbera tryggi nauðsynlega starfsemi, ekki bara fyrir heimili og fyrirtæki, heldur einnig fyrir innviði eins og götulýsingu og dælingu á heitu og köldu vatni og skólpi. Það þarf að gæta þess að notkun á rafmagni í gagnaver verði ekki til þess að það þurfi að skammta rafmagn í slíka starfsemi,“ segir Gylfi og bætir við raforkuframleiðsla til að standa undir framleiðslu rafmyntarinnar sé áhættufjárfesting sem geti haft áhrif á raforkuverð innanlands. 

Stikkorð: Gylfi Magnússon Bitcoin