Kröftugur hagvöxtur samfleytt í sjö ár hefur verið drifinn áfram af útflutningsgreinum, byggður á auknum tekjum og viðvarandi viðskiptaafgangi en ekki erlendri skuldasöfnun. Þetta er ein lengsta uppsveifla Íslandssögunnar.

Á síðasta ári var hér einn mesti vöxtur kaupmáttar í heiminum, fjórtánfaldur á við kaupmáttarvöxt ESB ríkja. Íslenskar hagtölur tala sínu máli. Árangurinn er ótrúlegur í ljósi þess að fyrir aðeins nokkrum árum blasti hér við alvarlegur skuldavandi eftir framúrkeyrslu síðustu uppsveiflu.

Útflutningsgreinar standa nú undir verðmætasköpun hagkerfisins og hvílir áframhaldandi velgengni okkar á því að vöxtur þeirra sé tryggður. Eigi íslenska hagkerfið að vaxa áfram á sama hraða og að meðaltali síðustu áratugi, og útflutningsgreinar að halda sínu vægi, þá þurfa útflutningsverðmæti að vaxa um 1.000 milljarða á næstu 20 árum, um 50 milljarða á ári eða 1 milljarð á viku.

Hin Norðurlöndin þekkja þetta samband og er þar óumdeilt að efnahagsleg velsæld byggir á vexti útflutningsgreina. Þar er það staða útflutningsgreina sem ákvarðar svigrúm til launahækkana. Á Íslandi er það hið opinbera.

Á Norðurlöndunum er deilt um hvort 2% launahækkanir ógni samkeppnisstöðu útflutningsgreina en á Íslandi virðast slík áhyggjuefni fjarlæg. Hér eru lagðar fram kröfur um þrefalt meiri launahækkanir án þess að slíkar kröfur séu mátaðar við samkeppnishæfnina. Á Íslandi er skattheimta á fyrirtæki einnig sú hæsta meðal Norðurlandanna.

Í kjölfar efnahagsþrenginganna 2008 lögðu flest ríki áherslu á að minnka skattheimtu en við fórum aðra leið og jukum hana mikið. Þó að efnahagsleg staða sé nú góð þá fer hagsveifla óhjákvæmilega bæði upp og niður. Ef það á að vera raunhæft markmið að útflutningsgreinar beri áfram uppi vöxt íslensks hagkerfis þá verða hér að vera samkeppnishæf skilyrði. Hóflegar launahækkanir og hófleg skattbyrði skipta þar miklu. Að öðrum kosti vitum við hvernig fer.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs SA