*

föstudagur, 6. desember 2019
Huginn og muninn
7. september 2019 10:02

1,4 milljarða „óheppileg mistök“

Excel-draugurinn alræmdi fór úr Hagstofunni í ruslið.

Haraldur Guðjónsson

Það er ekki bara á Hagstofunni sem menn eru í veseni með Excel því í vikunni kom í ljós að Sorpa hefði „gleymt“ að gera ráð fyrir tæplega 1,4 milljarða króna kostnaði í fjárfestingaráætlun sinni. Þessum „óheppilegu“ mistökum, eins og Björn Halldórsson framkvæmdastjóri kallaði þau, verður mætt með lántökum.

Þessi „óskiljanlegu“ mistök, eins og framkvæmdastjórinn kallaði þau einnig, þýða að afkoma sveitarfélaganna versnar sem nemur tæplega 1,4 milljörðum króna því þetta er allt fært í þeirra bækur. Sorpa er í eigu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og heldur Reykjavík stærsta hlutnum, eða um 60%. Stjórn Sorpu er skipuð sex borgar- og bæjarfulltrúum.

Karl Pétur Jónsson, bæjarfulltrúi á Seltjarnarnesi, sagði í Fréttablaðinu að stjórnin hefði alveg brugðist eftirlitshlutverki sínu. Hrafnarnir, sem eðli málsins samkvæmt eru mjög hlynntir sorpi, taka undir þessi orð Viðreisnarmannsins á Nesinu.

Huginn og muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.