*

föstudagur, 17. september 2021
Leiðari
10. september 2021 11:14

20 ára stríðið

Bandaríkin hafa veitt meira fé til uppbyggingarverkefna í Afganistan en fór í Marshall-aðstoðina.

Talibanar í Afganistan.
EPA

Á morgun, laugardag, verða tuttugu ár liðin frá hryðjuverkaárásinni á tvíburaturnana í New York 11. september 2001, þar sem um 3.000 manns létu lífið. Tæpum mánuði eftir árásina réðist Bandaríkjaher inn í Afganistan. Markmiðið var að uppræta hryðjuverkasamtökin Al-Kaída og ná höfuðpaurnum, Osama Bin Laden. Á þessum tíma réðu talíbanar ríkjum, en þeir höfðu um árabil kúgað afgönsku þjóðina og neituðu staðfastlega að aðstoða Bandaríkjamenn í baráttunni við Al-Kaída og leitinni að Bin Laden. Þeir hrökkluðust fljótt frá völdum og í desember 2001 tók Hamid Karzai við stjórnartaumunum. Var hann fyrsti lýðræðislega kjörni leiðtogi landsins. Það ríkti því fögnuður og von á meðal afgönsku þjóðarinnar á þessum tíma en það átti eftir að breytast.

Í febrúar á síðasta ári undirrituðu ríkisstjórn Donald Trump og forsvarsmenn talibana friðarsamkomulag, sem kennt er við borgina Doha í Katar. Í stuttu máli kvað það á um að ljúka stríðinu í Afganistan. Lofuðu talibanar að halda áfram friðarviðræðum við afgönsk stjórnvöld sem og að skjóta ekki skjólshúsi yfir Al-Kaída. Það vakti strax athygli að afgönsk stjórnvöld voru ekki hluti af þessu samkomulagi. Bandaríkjastjórn skuldbatt sig til að draga her sinn til baka fyrir 1. maí á þessu ári.

Þegar Joe Biden tók við sem forseti Bandaríkjanna í janúar síðastliðnum var heimkomu hersins frestað til 11. september en svo fór að herinn var að fullu farinn frá Afganistan tveimur vikum fyrr. Nánast um leið og bandaríski herinn hvarf frá héruðum landsins hófu talibanar stórsókn og á nokkrum dögum voru þeir komnir með yfirráð yfir stórum hluta landsins og Kabúl var í hættu. Öll sú atburðarás bar vott um fullkomið skilningsleysi Bandaríkjastjórnar á stöðunni í landinu. Í því sambandi má benda á að 14. ágúst síðastliðinn fullyrti John Kirby, talsmaður bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að Kabúl væri ekki í bráðri hættu á að falla í hendur talibana. Þetta sagði hann vitandi að her talibana væri búinn að umkringja borgina, enda féll hún í hendur þeirra daginn eftir.

Síðustu mánuðir endurspegla í raun tilgangsleysi stríðsins í Afganistan. Við vitum jú að Bandaríkjaher tókst að drepa Osama Bin Laden 2. maí árið 2011 en við vitum líka að hryðjuverkaógnin hefur ekkert minnkað. Nægir þar að benda á ISIS í Írak, Sýrlandi, Afganistan og víðar. Einnig mætti nefna hryðjuverkaárásir talibana sjálfra í Afganistan, árásir Al-Shabaab í Sómalíu og Kenya, Boko Haram í Nígeríu og svo mætti lengi telja.

Hernaður Bandaríkjamanna í Afganistan síðustu 20 ár hefur að mestu einkennst af stefnuleysi. Þetta hafa herforingjar, hermenn og fleiri borið vitni um. Á sama tíma og forsetar Bandaríkjanna hafa ítrekað sagt að stríðið gangi vel, herinn sé að ná takmarki sínu, hafa Washington Post og fleiri fjölmiðlar birt skjöl þar sem háttsettir menn innan bandaríska hersins lýsa yfir áhyggjum af gangi mála. Í stuttu máli var ítrekað logið að bandarísku þjóðinni og umheiminum um gang mála í Afganistan.

Samkvæmt samantekt Brown-háskóla (Watson Institute) er áætlað að um 3.600 hermenn Bandaríkjanna og NATO hafi fallið í stríðinu í Afganistan og Pakistan og um 240 þúsund Afganar og Pakistanar, þar af tæplega 80 þúsund óbreyttir borgarar. Stríðið í Afganistan hefur kostað Bandaríkin að lágmarki 980 milljarða dollara, samkvæmt fyrrnefndri stofnun innan Brown-háskóla. Sumir telja að kostnaðurinn sé hið minnsta tvöfalt hærri.

John F. Sopko, sem hafði eftirlit með fjárveitingum til uppbyggingarverkefna (e. reconstruction) í Afganistan (Special Inspector General for Afghanistan Reconstruction – SIGAR) segir að Bandaríkin hafi eytt 144 milljörðum dollara í ýmis verkefni. Til samanburðar nam kostnaður við Marshall-aðstoðina, sem átti stóran þátt í uppbyggingu Vestur-Evrópu eftir seinni heimsstyrjöldina, 114 milljörðum dollara, núvirt. Telur Sopko að um 30% af fjárhæðinni í Afganistan hafi glatast, vegna spillingar og verkefna sem voru svo gott sem sjálfdauð. Eitt ágætt dæmi um firringuna var þegar afganski herinn fékk herbúninga í felulitum. Fengu afganskir herforingjar að velja þá. Þeir völdu græna búninga (Forest Green) en einungis 4% landsins eru skógi vaxin. Því til viðbótar völdu þeir mynstur sem bandaríski herinn hafði ekki einkaleyfi fyrir og því þurfti að borga hönnuðum sérstaklega fyrir notkunina. Niðurstaðan var að búningarnir voru 30-40% dýrari en herbúningar Bandaríkjahers.

Fyrir brotthvarf bandaríska hersins frá Afganistan töldu margir að ýmislegt hefði áunnist eftir 20 ára hernað. Afganistan væri orðið lýðræðisríki, þar sem almenn mannréttindi væru virt og virðing borin fyrir menntun og réttindum afganskra kvenna. Þá töldu menn að afganski herinn, sem þjálfaður var af bandamönnum, væri nægilega öflugur til að geta varist árásum óvina. Annað hefur komið á daginn. Eins og staðan er nú virðist þetta lengsta stríð í sögu Bandaríkjanna ekki hafa skilað litlu fyrir utan jú að í dag er talibanski herinn einhver best vopnaði her veraldar eftir að hafa yfirbugað afganska herinn sem Bandaríkin höfðu eytt 84 milljörðum dollara í að byggja upp. Sagnfræðingar og aðrir fræðimenn munu væntanlega setja þetta allt í betra samhengi þegar fram líða stundir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.