Óðinn fjallaði á fimmtudag um óþarfa vaxtahækkun um skaðann sem pólitísk öfl, ekki síst Vinstri grænir, hafa valdið okkur með því að koma í veg fyrir orkuuppbyggingu á Íslandi.

Hér má sjá hluta af pistlinum en áskrifendur geta lesið hann hér.

30 ár í undirbúning

Haustfundur Landsvirkjunar var haldinn á þriðjudag. Yfirskriftin var Breytt heimsmynd, breytt forgangsröðun. Óðinn verður að viðurkenna að honum þykir full snemmt að tala um breytta heimsmynd og yfirskriftin því full dramatísk.

Fundurinn var hins vegar góður og þar kom margt áhugavert fram. Það sem er þó hvað dapurlegast eru að sjá öll tækifærin sem starfsmenn Landsvirkjunar fjalla um, í raun dauðafæri, sem ekki er hægt að nýta vegna þess að óskiljanleg afturhaldsstefna hefur verið rekin í orkumálum á Íslandi undanfarin áratug, og í raun lengur.

Ásbjörg Kristinsdóttir framkvæmdastjóri hjá Landsvirkjun benti á hversu langan tíma tekur að fá opinber leyfi til orkuöflunar. Hún sagði að Landsvirkjun hefði byrjað undirbúning Hvammsvirkjunar í Þjórsá fyrir 30 árum, en nú hillir undir að hún verði að veruleika þótt leyfisferli sé ekki endanlega lokið. Búrfellslundur, þar sem reisa á vindmyllur, hefði verið í undirbúningi í áratug.

Hún gerði aðsenda grein António Guterres aðal­rit­ara Sam­einuðu þjóðanna í Viðskiptablaðinu frá því í lok júní að umtalsefni.

Þar sagði Guterres:

Í þriðja lagi þarf að ryðja úr vegi skrifræðislegum hindrunum sem standa í vegi fyrir verkefnum á sviði sólar- og vindorku. Leyfa ber flýtimeðferð til að samþykkja slík verkefni og efla viðleitni til að nútímavæða raforkuflutninga. Innan Evrópusambandsins tekur 8 ár að samþykkja vindorkuver og 10 ár í Bandaríkjunum. Í Suður-Kóreu þarf 22 leyfi frá 8 mismunandi ráðuneytum til að samþykkja vindorkuver á landi.

***

Tvöföldun starfsmanna á rúmum áratug

Þetta er óskiljanleg tregða í kerfinu. En þetta er engin tilviljun. Það eru pólitísk öfl á Íslandi sem hafa barist fyrir því að flækja kerfið svo mikið að hér verði engin uppbygging í orkukerfinu. Stofnanir blása út og þar fá allir starfsheitið sérfræðingar. Í hverju veit Óðinn ekki. Nema ef til vill í að tefja.

Hjá Umhverfisstofnun störfuðu 63 árið 2009. Í dag starfa þar 126 samkvæmt heimasíðu stofnunarinnar. Hvað kallaði á tvöföldun starfsfólks? Þar starfa 69 sérfræðingar. Þá eru ótaldir lögfræðingarnir. Og tveir sérhæfðir ritarar. Óðinn hefur aldrei heyrt áður um það starfsheiti.

Mikið óskaplegan skaða hafa íslenskir vinstrimenn gert í orkumálunum. Þá helst vinstri grænir.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudag, 6. október 2022.