Bandaríkin fögnuðu 243 ára afmæli í vikunni, en þar í landi var í fyrsta sinn greipt í stjórnarskrá ákvæði um prentfrelsi. Það var gert þegar í 1. grein réttindaskrár hennar, sem hefst á orðunum „Þingið skal engin lög samþykkja […] sem hömlur leggja á málfrelsið, eða fjölmiðla“.

Það hefur verið fjölmörgum öðrum löndum fyrirmynd æ síðan, þar á meðal Íslandi, þar sem stjórnarskrá lýðveldisins innihélt upphaflega þessa skýru grein: „Ritskoðun og aðrar tálmanir fyrir prentfrelsi má aldrei í lög leiða,“ en síðar vék orðið prentfrelsi fyrir tjáningarfrelsi.

* * *

Það var ekki skrýtið að Bandaríkjamönnum væri ljóst mikilvægi prentfrelsisins. Kveikjan að byltingu þeirra gegn nýlenduvaldi Breta var að miklu leyti tendruð í flugritum, bæklingum, blöðum og bókum, en þau rit voru mörg hver rituð undir dulnefni. Eins má ekki gleyma því að sjálfur Benjamín Franklín var vitaskuld blaðamaður.

Raunar má setja fram tilgátu um að meiriháttar tækniframfarir í fjölmiðlun og við upplýsingu almennings séu nær ævinlega undanfari víðtækra og sögulegra þjóðfélagsbreytinga.

Uppfinning Gutenbergs gerbreytti aðgengi fólks að lesefni og sennilega var siðbótin óhugsandi án hennar. Sem aftur ýtti undir mun meira læsi þegar Guðs orð og margt fleira fór að birtast á hinum ýmsu þjóðtungum. Það hafði margvíslegar breytingar í för með sér, sumar ákaflega farsælar, en svo má líka nefna styrjaldirnar sem sigldu í kjölfarið og ýmsa óáran aðra.

Þegar prenttækni fleygði fram og hún varð ódýrari, sköpuðust ný tækifæri, sem byltingarmenn í bæði Bandaríkjunum og Frakklandi nýttu sér til hins ýtrasta; ritsíminn var forsenda ýmissa annarra framfara og herfara, setningarvélar og rúlluprentvélar leiddu til fyrstu eiginlegu, ódýru fjölmiðlanna, sem margir nýttu til að hafa áhrif á almenningsálit til góðs og ills; útvarpið streymdi fréttum og skemmtan heim í stofu í rauntíma, en það var líka lykillinn að velgengni Hitlers; sjónvarpið var óspart notað beggja vegna járntjalds, en efamál er að Bandaríkjamenn hefðu gefist upp á Víetnamstríðinu nema vegna sífelldra fréttamynda af andstyggðinni í daglegum stríðsrekstri; gervihnattasjónvarp ýtti ákaflega undir fall járntjaldsins (ekkert síður skemmtiþættir sem sýndu óvart velmegun Vesturlanda en fréttir); netið hefur samþætt heimsbyggðina meira en nokkrar aðrar framfarir, gerbreytt fjölmiðlun og bætt við hinni nýju vídd félagsmiðla. Margir þykjast nú þegar greina ýmsar samfélagsbreytingar, jafnvel menningarbyltingar, en sjálfsagt munum við enn frekar greina slíkt á næstu árum.

* * *

Langflestar þessara tæknibyltinga í fjölmiðlum undanfarin 150 ár (líkt og á fjölmörgum öðrum sviðum) hafa fyrst skotið rótum í Bandaríkjunum, en síðan breiðst út annars staðar. Aðeins af þeirri ástæðu er því vert að gefa því gaum, sem gerist vestanhafs; það má nánast ganga út frá því sem vísu að hið sama gerist á öðrum Vesturlöndum nokkrum árum eða misserum síðar og svo annars staðar í heimsbyggðinni.

Það hefur mátt sjá ótal oft áður. Til dæmis er athyglisvert fyrir áhugafólk um fjölmiðlun að skoða á timarit.is hvernig íslensku blöðin breyttust ögn á dögum fyrri heimsstyrjaldar þegar siglingar til Evrópu féllu mikið niður en Leifslínan vestur opnaðist og bandarísk dagblöð og tímarit tóku að berast til landsins. Hvað þá eftir að Bandaríkin tóku að sér hervernd Íslands í síðari heimsstyrjöld árið 1942, en þá leið ekki á löngu áður en byltingarkenndar breytingar urðu á íslensku blöðunum, bæði í útliti og efnistökum.

Þróun prentmiðla og netmiðla hér á landi hefur þannig verið mjög á sömu lund og vestanhafs, með þeirri undantekningu þó að fyrirmyndin að fríblöðum var fremur sótt til Evrópu og hér á landi náðu þau mun meiri útbreiðslu en annars staðar, þrátt fyrir að hér á landi séu almenningssamgöngur sáralitlar og ekki helsta dreifingarleið fríblaða, líkt og víðast annars staðar.

Enginn vafi er á því að þegar frjálst útvarp ruddi sér rúms á 9. áratugnum voru fyrirmyndir gjarnan sóttar til Bandaríkjanna og eru enn, en ekki síður var Stöð 2 þó upphaflega mun skyldari bandarískum stöðvum en evrópskum, enda var í fæstum Evrópulöndum margar fyrirmyndir að finna, þar hafði ríkisrekstur sjónvarps víðast verið með svipuðum hætti og hér og frjálsir sjónvarpsmiðlar fáir, í mörgum löndum engir. Ríkisútvarpið átti sér hins vegar nær aðeins evrópskar fyrirmyndir, einkum þá í Danmörku og á Englandi, en enn eimir mjög eftir af því.

Það er hins vegar mikið umhugsunarefni að íslenskar sjónvarpsstöðvar eiga í raun fá ef nokkur svör við hinni nýju samkeppni streymds sjónvarpsefnis frá Netflix, Amazon, Apple og þeim öllum. Þeirra virðist varla hafa verið leitað og mögulega eru þau svör ekki til. Fámennið og það allt. Það er þó eftirtektarvert hversu mikil áhersla er lögð á það hjá Símanum og Sýn að kynna séríslenskt efni.

Sennilega þarf Ríkissjónvarpið, líklega Ríkisútvarpið allt, að tálga sig mun betur til vilji það eiga erindi við nýja tíma og nýjar kynslóðir. Það gerir það þó ekki í tómarúmi, þar þurfa löggjafinn og framkvæmdarvaldið bæði að koma að málum til þess að endurskilgreina hlutverk Ríkisútvarpsins. Þar þarf áherslan ljóslega að vera á hið séríslenska menningarhlutverk þess, það á enga möguleika í síaukinni alþjóðlegri samkeppni dægurefnis.

* * *

Þegar litið er til fjölmiðla í Bandaríkjunum nú má fyrst til telja að prentmiðlar eru almennt í mikilli vörn og þá sérstaklega prentmiðlar. Það er sama saga hér. En á sama tíma eru það einmitt þeir, sem halda bestu netmiðlunum úti. Og líkt og hér eiga línulegar sjónvarpsstöðvar, bæði þessar stóru og svæðisbundnu, mjög undir högg að sækja gagnvart nýjum efnisveitum.

Hins vegar er athyglisvert hvað útvarpsstöðvarnar virðast ónæmar fyrir samkeppni. Þær halda bara áfram að mala og mala, ekki stórgróðafyrirtæki en býsna stöðug. Samt vantar þær ekki samkeppni, myndi maður ætla, því hlaðvörp (e. podcasts) hafa verið í gríðarlegri sókn upp á síðkastið og þar er mikið nýjabrum í flutningi hljóðvarps. Þess hefur raunar ekki gætt mikið á Íslandi enn, en getur þess verið langt að bíða? Það eru byltingar framundan, en ekkert að óttast.