Í janúar veitti Seðlabanki Íslands lífeyrissjóðum 20 milljarða króna heimild til að fjárfesta í erlendum gjaldeyri. Heimildin dreifist yfir fyrstu fjóra mánuði ársins. Ætlun bankans er meðal annars að draga úr þörf sjóðanna til gjaldeyriskaupa í framtíðinni.

Samkvæmt hagtölum Seðlabankans nam staða lífeyrissjóðanna í erlendum verðbréfum 21% af hreinni eign í janúar síðastliðnum – þar af erlend hlutabréf 20%. Dr. Ásgeir Jónsson og Dr. Hersir Sigurgeirsson leggja til í bók sinni, „[á]hættudreifing eða einangrun?“ frá árinu 2014, að hlutfallið fari ekki niður fyrir 22% (bls. 66). Að þeirra mati þarf sömuleiðis að verja að minnsta kosti 22% af hreinu innflæði sjóðanna til fjárfestinga erlendis (bls. 59).

Önnur staða er uppi varðandi eign sjóðanna í innlendum skráðum hlutabréfum. Samkvæmt ársreikningabók lífeyrissjóða (sem FME tekur saman) og hagtölum Seðlabankans nam hlutfall slíkra bréfa, óbeint og beint, 16% af hreinni eign í janúar. Miðað er við hreina langa stöðu þar sem hagtölurnar tiltaka ekki undirliggjandi gerninga afleiðustaðna sjóðanna. Hæst fór hlutfallið í rúm 19% um mitt ár 2007 en lægst 2% árið 2009. Miðgildi áranna 1997 til 2008 er 10%.

Vigtirnar 16% og 20% virðast ekki tiltökumál þar sem lífeyrissjóðum er heimilt að fjárfesta í skráðum hlutabréfum upp að 60% af hreinni eign, samanber 4. mgr. 36. gr. l. nr. 129/1997. Lesandi þekkir að seljanleikaáhætta er raunveruleg í tilfelli fyrra vægisins. Líkt og myndin sýnir óx staða sjóðanna í skráðum innlendum hlutabréfum sem hlutfall af markaðsvirði skráðra hlutabréfa í Kauphöll Íslands úr 17% árið 2010 í 50% árið 2015. Hlutfallið er talsvert yfir miðgildi áranna 1997 til 2008 sem er 12%. Slíkt umfang gerir sjóðunum erfitt um vik að skipta um skoðun og færa marktækt magn á söluhliðina. Fljótt fréttist af slíkri tilboðainnsetningu og þegar einungis ósamstíga helmingur er til að taka á móti hörfar kauphliðin hratt. Ein vísbending þess að lífeyrissjóðirnir átta sig á sýnileika sínum er að samkvæmt fyrrgreindri ársreikningabók hefur vægi óskráðra hlutabréfa af hlutabréfaeign þeirra farið úr 4% árið 2010 í 15% árið 2014. Slík þróun dregur varla úr seljanleikaáhættu.

Væntingar eru um afléttingu fjármagnshafta á núlíðandi ári. Líkt og aðrir eygja lífeyrissjóðirnir um að minnka innlenda stöðu – þrátt fyrir bjartar efnahagshorfur. 20 milljarða króna heimild gerir gagn og hækkar hlutfall erlendra eigna úr 21% af hreinni eign í tæplega 22%. Til að ná 30% líkt og árið 2010 þyrftu sjóðirnir 250 milljarða króna heimild. Ef sala af slíkri stærðargráðu færi fram á innlenda hlutabréfamarkaðnum, að öðru óbreyttu, myndi umrætt hlutfall af heildarmarkaðsvirði fara úr 50% einungis niður í 26%.

Hlutfall eignar lífeyrissjóða í skráðum innlendum hlutabréfum af markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöll Íslands.
Hlutfall eignar lífeyrissjóða í skráðum innlendum hlutabréfum af markaðsvirði hlutabréfa í Kauphöll Íslands.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.