*

mánudagur, 2. ágúst 2021
Örn Arnarson
5. apríl 2021 08:25

Ójöfnuður á tímum fjórðu kóvídbylgju

„Að því sögðu er tímabært að spyrja hverra hagsmuna þeir eru að gæta sem tala gegn komu bólusettra ferðamanna.“

vb.is

Nýlega birtist áhugaverð grein um launaþróun eftir Ara Skúlason hagfræðing í vikuritinu Vísbendingu. Í henni kemur fram að þeir sem starfa í opinberri stjórnsýslu – það er að segja hjá hinu opinbera í stjórnsýslu, fræðslustarfsemi og heilbrigðis- og félagsstarfsemi – draga vagninn þegar kemur að launahækkunum og þar fjölgar störfunum mest á meðan áhrifa kórónuveirunnar gætir fyrst og fremst á hinum almenna vinnumarkaði.

Fjölmiðlar eru sem kunnugt er alla jafna mjög uppteknir af fréttum um launaþróun og misskiptingu. Það er því undrunarefni að grein Ara skuli ekki hafa vakið meiri athygli en raun ber vitni en hún varpar skýru ljósi á öxlum hverra hinar efnahagslegu byrðar kórónufaraldursins hvíla. Meira að segja vefritið Kjarninn, sem gefur út Vísbendingu, sá ekki ástæðu til að fjalla um greinina.

Eins og Ari bendir á hafa launagreiðslur til opinberra starfsmanna hækkað mikið á undanförnum árum. Engin breyting varð þar á í fyrra þegar harðna tók í ári á hinum almenna vinnumarkaði. Hefur þróunin verið með þeim hætti að laun starfsmanna í opinbera geiranum hækka óháð niðursveiflunni sem varð vegna kórónufaraldursins. Aðlögunin að breyttu ástandi í hagkerfinu fer eingöngu fram á hinum almenna markaði.

Ari styðst við svokallaða launasummu sem er unnin úr tölum Hagstofunnar um staðgreiðsluskyldar launagreiðslur. Samanburður hans nær til ársins 2015. Þróunin frá árinu 2019 er sláandi. Í greininni kemur fram að staðgreiðsluskyldar launagreiðslur í opinberu stjórnsýslunni hækkuðu um 10,7% í fyrra á meðan þau lækkuðu í öðrum greinum. Það sem vekur einnig athygli í framsetningu Ara er að störfum hjá hinu opinbera fjölgaði mikið í fyrra eða um tæplega 6%. Á sama tíma fækkaði þeim einstaklingum sem þáðu staðgreiðsluskyld laun um 0,2%.

Í greininni er þróunin í fjármála- og vátryggingastarfsemi einnig skoðuð. Í þeim geira starfar margt háskólamenntað fólk í sérfræðistörfum rétt eins og hjá hinu opinbera. Úttekt Ara nær til ársins 2015 og á þeim tíma hafa laun hjá hinu opinbera hækkað meira en í fjármálageiranum og þar hefur, eins og áður var tekið fram, störfunum fjölgað.

                                          ***

Það eru ekki lítil tíðindi að hið opinbera sé í fararbroddi þegar kemur að launaþróun og fjölgun starfa. Að óreyndu hefði mátt búast við því að þróunin yrði tilefni til umfjöllunar í öllum þeim dægurmálaþáttum sem boðið er upp á öldum ljósvakans. Hugsanlega verður þó fjallað um þessa þróun þegar nær dregur alþingiskosningum enda má á þessu sjá að stjórnvöld eru nú þegar að hrinda í framkvæmd helsta stefnumáli stjórnarandstöðuflokkanna: Að leysa efnahagsvandamálin sem fylgja heimsfaraldrinum með því að fjölga ríkisstarfsmönnum og hækka laun þeirra sem starfa hjá hinu opinbera.

                                          ***

Í þessu samhengi má nefna að algengt er að stjórnmálamenn og önnur frelsisblys sem starfa hjá hinu opinbera velti fyrir sér í heyranda hljóði hverra hagsmuna sé verið að gæta þegar talið berst að ákvörðun stjórnvalda að heimila bólusettum ferðamönnum frá Bandaríkjunum og Bretlandi að koma til landsins eftir 1. maí.

Svarið við spurningunni liggur auðvitað uppi: Það er verið að gæta hagsmuna allra þeirra sem reiða sig á verðmætasköpun í efnahagslífinu. Að því sögðu er tímabært að spyrja hverra hagsmuna þeir eru að gæta sem tala gegn komu bólusettra ferðamanna.

                                          ***

Á mánudag lýsti Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir áhyggjum sínum við fréttastofu Ríkisútvarpsins yfir að erlendir ferðamenn væru að koma til landsins í nokkra daga eingöngu til þess að skoða eldgosið á Reykjanesi og virtu þar með sóttkví að vettugi. Aðspurður sagði Þórólfur að hann hefði þessar upplýsingar frá lögreglunni og „fleirum“ eins og það er orðað í endursögn á viðtalinu á heimasíðu RÚV. Þar segir enn fremur: „Landamæraverðir og lögregla á Suðurnesjunum hafa ákveðið að taka hart á því og fylgja því eftir og ég er bara mjög ánægður með það,“ segir Þórólfur.

Hvernig er það hægt? „Með því að spyrja og hvetja fólk og benda fólki á, sem kemur hingað til landsins, að það geti ekki farið á gos-stöðvarnar. Sérstaklega fólki sem ætlar bara að dvelja hérna nokkra daga, 3-4 daga. Það er eitthvað skrýtið að fólk ætli bara að vera í sóttkví 3-4 daga og fara svo aftur úr landi þannig að það eru allskonar þannig hlutir sem hægt er að skoða.“

Þessi frétt vekur upp fleiri spurningar en hún svarar. Í fyrsta lagi er umhugsunarefni að maður í stöðu Þórólfs stígi fram með jafn alvarlegar fullyrðingar án þess að koma með eitthvað sem hönd á festir um þetta meinta vandamál. Það er varla hlutverk sóttvarnalæknis að ala á tortryggni að ástæðulausu. Nú hafa til að mynda þeir íbúar Schengen-svæðisins sem fengið hafa bólusetningu getað ferðast óhindrað til landsins frá því í vetur.

Er útilokað að einhver úr þeim hópi hafi farið beina leið á gosstöðvar eftir komuna til landsins? Í öðru lagi hlýtur það að kalla á skýr svör frá yfirvöldum ef það sé tilfellið að útlendingar séu unnvörpum að koma til landsins og rjúfa sóttkví til að skoða eldsumbrotin. Slíkt hlýtur að kalla á afdráttarlausari aðgerðir, aðrar en stutt útvarpsviðtal. Við þetta er að bæta að sama dag og sagt var frá þessum áhyggjum Þórólfs flutti RÚV fréttir þar sem talsmenn ferðaþjónustunnar sögðust ekki hafa orðið varir við fleiri ferðamenn í kjölfar eldgossins.

                                          ***

Menn og málleysingjar hafa lítið fyrir stafni í frítíma sínum á meðan hinar hörðu sóttvarnaaðgerðir eru í gildi. Skal engan undra að fólk flykkist til að virða eldsumbrotin á Reykjanesskaga fyrir sér. Fjölmiðlar hafa að sjálfsögðu fylgst grannt með gangi mála og skipst á að segja frá hinu tilkomumikla gosi annars vegar og vara fólk við því að fara á gosstöðvarnar.

Þá hafa þeir greint frá snörum viðbrögðum björgunarsveita og annarra gæslumanna almennings við auknum ágangi að svæðinu kringum eldgosið. Þannig hafa verið stikaðar greiðfærar gönguleiðir fyrir þá sem vilja komast að gosinu og hundruðum bílastæða komið fyrir á stuttum tíma. Ósagða fréttin er að þarna er á nokkrum dögum búið að gera meira fyrir aðgengi ferðamanna en var gert við fjölda vinsæla ferðamannastaða á landinu árum saman áður en heimsfaraldurinn braust út.

                                          ***

Endalaust klifur fjölmiðla og álitsgjafa á þriðju bylgju faraldursins og boðað upphaf fjórðu bylgjunnar er orðið ansi hvimleitt. Þeir sem fylgjast með fréttum beggja vegna Atlantsála vita að þar stendur enn yfir önnur bylgja faraldursins og hljóta þeir að velta fyrir sér af hverju Íslendingar ættu að eiga að baki fleiri bylgjur en íbúar annarra Vesturlanda. Að minnsta kosti sjást engin rök fyrir því þegar kíkt er á tölfræðilegar upplýsingar um þróun faraldursins hér á landi – hann einkennist af tveimur toppum.

Sá fyrri þegar faraldurinn braust út og sá seinni í vetur. Smitskotið sem hér varð síðsumars 2020 getur með engu móti flokkast sem farsóttarbylgja.

Vilji menn halda sig við þá sérstöðu að tala um að þriðja eða fjórða bylgja faraldursins standi yfir á Íslandi meðan leikar eru rétt að hefjast í nágrannalöndunum þá hlýtur að mega gera þá kröfu að mannauðs- og umbreytingasérfræðingar landsins fari að birta greinar um fimmtu iðnbyltinguna í stað þeirrar fjórðu í fjölmiðlum – þær síðarnefndu eru orðnar ansi fyrirsjáanlegar.

                                          ***

Fregnir um dauða miðborgarinnar eru stórlega ýktar. Það sást einna best við upphaf vikunnar þegar RÚV sagði frá því að „myndarlegur gosbrunnur“ hefði myndast á horni Lækjargötu og Bankastrætis að morgni mánudags þegar rör í snjóbræðslukerfi hafði farið í sundur.

Eins og sjá mátti á myndinni með fréttinni náði vatnsbunan af völdum bilunarinnar ríflega metra hæð þegar mest lét. Haft var eftir sjónarvotti að „vatnsstrókurinn hafi verið tilkomumikill og fallegur í sólinni í Reykjavík“. Þá sagði Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Veitna, að vatnsbunan hafi skapað „glæsilegt sjónarspil“.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.