*

þriðjudagur, 20. ágúst 2019
Leiðari
13. október 2016 10:43

Ábyrgðin er löggjafans

Með stórfelldu sjókvíaeldi á laxi er verið að traðka á rétti veiðiréttarhafa og þó greinin skapi störf er mikil skammsýni fólgin í áformunum.

Norsk fiskeldisfyrirtæki hafa keypt ráðandi eignarhluti í þeim íslensku laxeldisfyrirtækjum sem stærst eru á markaðnum hér heima. Auðvitað er fagnaðarefni þegar erlendir fjárfestar sjá tækifæri á Íslandi en í þessu tilfelli verður að setja stórt spurningarmerki við þessar fjárfestingar.

Árið 2004 samþykkti Alþingi lög þar sem stór svæði við strendur landsins voru friðuð fyrir laxeldi. Var þetta gert til að vernda laxveiðiár. Svæðin þar sem laxeldi er heimilt er aðallega á Vestfjörðum og Austfjörðum. Hið opinbera, Hafrannsóknarstofnun, framkvæmir síðan burðarþolsmat í hverjum firði þar sem reiknað er út hversu mikið laxeldi hann þoli.

Á Íslandi kostar nokkur hundruð þúsund krónur að fá leyfi fyrir 200 tonna eldi, nú eða 10 þúsund tonna eldi. Verðið er hið sama. Einhvers staðar í þessu ferli öllu saman hefur gleymst að firðir landsins eru auðlind í eigu allrar þjóðarinnar. Hvort sem það var ætlunin eða ekki þá hefur hið opinbera búið til mjög takmörkuð gæði og á síðustu árum útdeilt auðlindinni til fyrirtækja fyrir lítinn sem engan pening, sem er umhugsunarvert. Norskir fjárfestar hafa þó ekki þurft að hugsa sig tvisvar um enda er komið þak á framleiðsluna þar í landi. Fyrir tveimur árum þurfti að greiða 200 milljónir króna fyrir 940 tonna eldi í Troms og Finnmörku. Fjármunirnir renna til norska ríkisins og sveitarfélaganna.

Það þarf ekki mikið viðskiptavit til þess að sjá tækifærin í því að sækja um leyfi fyrir laxeldi á Íslandi enda er staðan nú þannig að umsóknirnar streyma inn. Miðað við framtíðaráformin mun framleiðslan innan fárra ára verða komin í 100 þúsund tonn á ári. Í þessu samhengi verður að hafa í huga að í fyrra voru framleidd 3 þúsund tonn.

Sjókvíaeldi á laxi er mengandi. Það efast enginn um það. Menn deila aftur á móti um hversu mengandi það er. Alvarlegast er þó ef lax sleppur úr kví, sem gerist alltaf. Aftur á móti deila menn um hversu margir laxar sleppa. Sumir segja að af hverju tonni í eldi sleppi 0,3 laxar út, aðrir segja að 1 lax sleppi per tonn í eldi. Ef hér verða framleidd 100 þúsund tonn munu því á bilinu 30 til 100 þúsund norskir, ógeldir eldisfiskar sleppa. Þessi fiskur hefur sporð og getur á tiltölulega stuttum tíma blandast villta íslenska laxastofninum og þar með eyðilegt verðmæti þeirra sem eiga veiðiréttindi á Íslandi. Talið er að stangaveiði á Íslandi velti í kringum 15 til 20 milljörðum króna á ári. Hver er réttur landeigendanna — veiðiréttarhafanna? Ef ógeldur lax sleppur í þessu magni verða umhverfisáhrifin óafturkræf og verðmætar eignir eyðileggjast.

Það er alveg ljóst að þingmenn þurfa að endurhugsa þessi mál því löggjafinn ber meginábyrgð á þeirri stöðu sem upp er komin. Því miður virðast fáir þeirra vera með augun opin og þeir sem hafa þó opnað þau stunda grímulausa hreppapólitík eins og þingmaðurinn, sem í dag skipar 1. sæti á lista Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.  Þingmaðurinn hefur talað um laxeldið sem blómstrandi atvinnugrein, sem hafi alla burði til þess að verða  ein af undirstöðuatvinnugreinum Vestfjarða. Sú var tíðin að Vinstri grænir höfðu umhverfismálin í öndvegi.

Talsmenn laxeldisins hafa borið fyrir sig byggðasjónarmið og til dæmis bent á að nú starfi 120 manns við laxeldi á Vestfjörðum. Í þessu samhengi ber að hafa í huga að í greinum tengdum ferðaþjónustu fjölgaði störfum um 2.500 milli ára. Stóriðja og laxeldi eru ekki lausn á byggðavandanum. Þau voru það kannski fyrir fimm árum eða tíu en ekki í dag. Mögulegur fórnarkostnaður er einfaldlega of mikill.

Stikkorð: atvinnumál Laxeldi
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.