*

föstudagur, 22. nóvember 2019
Leiðari
1. febrúar 2015 12:19

Ábyrgir skuldarar

Öllum ber að standa við skuldbindingar sínar, en þær verða að vera rétt heimfærðar á viðkomandi skuldara.

epa

Tvö ár eru nú liðin frá því að EFTA-dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið bæri enga fjárhagslega ábyrgð í Icesave-málinu. Við það tækifæri er rétt að skoða nokkur álitamál sem uppi eru á heimsvísu um skyldu ríkissjóða til að greiða skuldir sínar.

Ný ríkisstjórn Grikklands, með hinn róttæka vinstriflokk Syriza í broddi fylkingar, ætlar engan tíma að missa. Nú þegar er búið að hætta við einkavæðingu á nokkrum stórum ríkisfyrirtækjum og -eignum og forsætisráðherrann, Alexis Tsipras, vill hefja strax viðræður við lánardrottna gríska ríkisins um afskriftir á skuldum.

Ástandið í Grikklandi er ekki fallegt. Fjórðungur Grikkja er atvinnulaus og hagkerfið hefur skroppið saman um ein 25%. Gripið hefur verið til hagræðingar í ríkisrekstrinum, en þessi hagræðing var ekki heimatilbúin, heldur var henni í raun þröngvað upp á Grikki, því hún var skilyrði fyrir því að Grikkir fengju aðstoð evruríkjanna í hremmingunum 2012. Það er því eðlilegt að grískur almenningur sé ósáttur.

Vel má vera að staðan sé svo slæm að endurskipuleggja þurfi skuldir Grikkja, en það verður að gera á sömu forsendum og þegar aðrir skuldarar ganga í gegnum endurskipulagningu. Fella verður saman hagsmuni skuldara og lánardrottna. Takist þetta kann að vera að kosning Syriza reynist Grikkjum happafengur.

Ákveði gríska stjórnin hins vegar að standa ekki við skuldbindingar sínum, einfaldlega af því að hún vill það ekki, þá horfir málið öðruvísi við. Enginn neyddi grísk stjórnvöld til að taka þau lán sem nú eru á gjalddaga og grískur almenningur hefur notið góðærisins sem fylgdi í kjölfarið. Vinsælt er að líkja hagkerfum við partí og ef grísk stjórnvöld ætla að haga sér með þeim hætti sem hér er lýst, þá eru þau gesturinn, sem ekki kom með eigið áfengi, drakk vel af áfengi annarra og móðgast svo þegar ætlast er til þess að hann borgi fyrir leigubíl.

Það er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að þessi lán séu greidd. Ósanngirnin felst í því að greiða ekki. Traust er vanmetið í umræðunni um hið kapítalíska kerfi, en það er hornsteinn þess. Ef ekki er hægt að treysta því að einstaklingar, fyrirtæki og ríki greiði skuldir sínar eru dagar markaðarins brátt taldir. Það sem hér er sagt kynni, í eyrum einhverra, að hljóma mjög svipað því sem fræði- og stjórnmálamenn á vinstrivængnum sögðu hér heima í tengslum við Icesave-málið. Talað var um að Íslendingar hefðu siðferðilegum skyldum að gegna í málinu og að við þyrftum að standa við skuldbindingar okkar. Það er rétt, eins og segir hér að framan, að skuldir beri að greiða, en það á aðeins við um skuldir sem réttilega eru heimfærðar. Íslenska ríkið bar enga ábyrgð á skuldum einkabankanna. Siðferðilega er það jafn rangt að neita að borga réttmætar skuldir og að krefjast þess að skattgreiðendur axli ábyrgð á skuldum sem þeim ber ekki að axla.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.