*

miðvikudagur, 22. september 2021
Róbert Helgason
30. nóvember 2011 13:16

Að bæta gráu ofan á svart

Eina spurningin sem eftir á að svara í Evrópu er á hverjum tapið lendir.

Vinsælt máltak innan fjármálageirans er að einhver sá atburður sem talinn var óhugsandi fyrir stuttu getur orðið óumflýjanlegur daginn eftir.

Skulda- og stjórnmálakreppan sem herjar á Evrópu um þessar mundir er að nálgast það stig.

Verðbréfamarkaðir eru órólegir og munu líklega þvinga fram ákvörðun um hvernig framtíð og skipulag evrópska myntbandalagsins verður háttað í framtíðinni. Mikilvægt er að leggja allar væntingar eða hugmyndir um hvað Evrópusambandið ætlaði sér að verða til hliðar og horfa kalt á þær staðreyndir sem liggja fyrir í dag. Það er sömuleiðis mikilvægt að muna að í raun höfum við séð erfiðleika sem þessa áður. Meinið sem hrjáir Evrópu er skuldakreppa, og afleiðingarnar verða með öllum líkindum þær sömu og oft áður — verðbólga, úrsögn úr myntbandalaginu, og/eða gjaldþrot þjóða. Á síðustu níu árum hefur heildarskuldsetning heimsins hækkað úr US$ 80 trilljón í US$ 210 trilljónir. Það er 12% á ári sem er þrisvar sinnum sá hagvöxtur sem var á sama tímabili. Skuldsetning sem skilar ekki samsvarandi tekjum myndar tap, og þetta uppsafnaða tap mun ekki hverfa með lágum vöxtum, frekari skuldsetningu, eða með bókhaldsbrellum. Það er sú staðreynd sem verður að horfast í augu við. Spurningin í Evrópu, og á öðrum stöðum í heiminum þar sem skuldakreppan herjar, snýst því ekki um hvort það verður tap, eða hvernig best verður komist hjá því, heldur hvernig því verður deilt niður. Gjaldþrot þjóða, úrsögn úr myntbandalagi eða ómæld peningaprentun eru allt leiðir sem fela í sér mismunandi dreifingu á því tapi sem þegar er orðið. Þessar leiðir eru nú til alvarlegrar umræðu í mörgum löndum Evrópu.

Bankar taka fyrsta höggið

Það sem bætir hins vegar gráu ofan á svart þegar kemur að skuldastöðu Evrópulanda, og skýrir mikla afskiptasemi IMF, Bandaríkjanna, Bretlands og Kína, er ekki endilega staða Evrópuríkjanna sjálfra, eða hvort verst stöddu ríkjunum s.s. Grikklandi sé best borgið með því að fara í gjaldþrot, heldur staða evrópsku bankanna og getu þeirra til að taka á sig höggið við gjaldþrot skuldsettra ríkja. Bankar eru oft þeir fyrstu til að taka við þeim höggum sem myndast við lokakafla skuldakreppna, og oft minnst við því búnir. Þannig að þótt ríki Evrópu ábyrgjast ekki skuldir Grikklands beint, munu þau mögulega ábyrgjast það tap sem óumflýjanlega myndast í bönkunum vegna afskrifta grískra skulda. En hvernig standa annars evrópskir bankar ?

Í fjármálakreppunni 2008 urðu mörg lönd, þá sérstaklega Bandaríkin, Bretland, og Írland fyrir miklum kostnaði við það að tryggja fjárhag banka með innspýtingu á fjármagni og margs konar endurskipulagningu. Það liggur hins vegar fyrir að fæst önnur lönd Evrópu gerðu slíkt hið sama og því eru margar af helstu fjármálastofnunum Evrópu nær þrisvar sinum skuldsettari en helstu fjármálastofnanir í Bandaríkjunum. Það virðist því vera að evrópskir bankar séu enn verr í stakk búnir að verjast áföllum en marga hefði grunað.

Í meðfylgjandi töflu er yfirlit yfir stærstu banka Evrópu sem hafa hvað mesta skuldsetningu (gírun) og lægst hlutfall af áþreifanlegu eigin fé miðað við eignir en það hlutfall er oft notað til að mæla þol banka til að standast eignatap. Staðan er vægast sagt grátlega slæm.

Skuldsetning evrópskra banka

 

Sömu viðvörunarbjöllur og gerðu vart við sig 2008, í þann mund er bandarískir bankar tóku að falla, eru farnar að hljóma aftur en nú gagnvart þeim evrópsku, miðpunkt óreiðunnar í dag. Heildargírun í evrópska bankakerfinu er 26:1 (eignir/eigið fé) að meðaltali. Til viðmiðunar má benda á að stuttu áður en undirmálslánakreppan í Bandaríkjunum skall á árið 2008 þá var bandaríska bankakerfið í heild sinni gírað 13:1 sem er mun lægra hlutfall en er nú til staðar í Evrópu. Á þeim tíma var tekinn saman samskonar listi og er hér til hliðar. Óhætt er að segja að sá listi hafi gefið ágæta vísbendingu um þau áföll sem voru þá í vændum því efst á þeim lista voru Fannie Mae og Freddie Mac (nú í ríkiseigu), Bear Stearns (nú hluti af JP Morgan), Merrill Lynch (nú hluti af Bank of America), og Lehman Brothers (gjaldþrot).

Í mörgum tilfellum virðist hlutfallið svo lágt að erfitt er að gera ráð fyrir öðru en að margir séu nú þegar tæknilega gjaldþrota – neikvæð þróun á verðbréfamarkaði virðist styðja það sjónarmið. Tilkynningar IMF um þörf á frekara eigið fé í evrópska banka og mat greiningaraðila sem telja eiginfjárþörfina nema á milli EUR 2-6 trilljónir til að leysa megi vandann sem við er að etja.

Spurning um bolmagn

Því er spurningin ekki eingöngu hvort ríki geta greitt eigin skuldir, heldur hvort og hverning evrópsk ríki hafa nægilegt bolmagn til að endurfjármagna eigin banka án þess að missa tök á eigin skuldum í kjölfarið. Sömuleiðis ef horft er til þróunar á þeirri óreiðu og reiði sem hefur myndast undanfarið ár innan margra ríkja gæti þurft pólitískt þrekvirki til að endurtaka leikinn frá 2008 og flytja tap fjármálafyrirtækja á axlir skattgreiðenda. Stjórnmálamenn Evrópu þurfa aðeins að horfa til Írlands til að sjá hvaða meðferð þeir gætu fengið með samningum af því tagi. En hvað ef bönkunum verður ekki bjargað? Þá flyst tapið yfir hafið og magnar vandræði í öðrum ríkjum. Staðreyndin er að það mun lenda einhverstaðar. Hver sem niðurstaðan verður liggur fyrir að ef horft er heildstætt á vandamálið þá á þetta uppsafnaða vandamál eftir að verða Evrópu og heiminum mjög dýrt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.