Ef þú, minn ágæti lesandi, vissir af barni að deyja úr hungri í næsta húsi – í Rimahverfi eða á Raufarhöfn – veit ég að þú myndir bregðast umsvifalaust við. Þú myndir að öllum líkindum byrja á því að banka uppá, bjóða fram aðstoð. Svo myndirðu ugglaust hringja í barnaverndarnefnd og félagsmálayfirvöld og velferðarráðuneytið. Þú myndir jafnvel hafa samband við fjölmiðla og spyrja: „Hvernig samfélag lætur börnin sín deyja úr hungri?“ Okkar samfélag. Samfélag heimsins.

Í dag, fimmtudaginn 5. maí, deyja hátt í tuttugu þúsund börn úr hungri og vannæringu. Hvert og eitt af þessum börnum, börnunum sem deyja í dag, er einstakt kraftaverk. Augu þeirra – brún, blá, græn – hafa fengið að sjá heiminn, en þau munu aldrei kynnast honum, vegna þess að í dag munu augu þeirra bresta.

Auðvitað er ekkert þessara barna í Rimahverfi eða á Raufarhöfn, en þau eru samt í næsta húsi í örlitla heimsþorpinu okkar. Og það á að vera heilagt og sjálfsagt forgangsverkefni að bjarga þessum börnum. Sú var tíð að Íslendingar þekktu bæði hungurvofuna og barnadauðapláguna.

vikunni fengum við hins vegar að vita að Ísland er í öðru til þriðja sæti yfir þau lönd heimsins þar sem auðveldast er að vera móðir. Noregur gamli er efstur á lista, vesalings Afganistan neðst: þar deyja þúsundir kvenna af barnsförum árlega og eitt af hverjum fimm börnum deyr fyrir fimm ára afmælið sitt.

Tölurnar eru yfirþyrmandi – freistandi að láta sér nægja að hrista höfuðið, og halda svo áfram að bölsótast út í ríkisstjórnina, bankana, bresk stjórnvöld, veðurstofuna. En það er hægt að breyta heiminum, og það er meira að segja mjög auðvelt: Maður byrjar. Á Íslandi starfa nokkur samtök beinlínis við að bjarga lífi barna. Flest treysta þessi samtök fyrst og fremst á stuðning almennings – okkar.

Sá sem bjargar einu barni, bjargar öllum heiminum.