*

sunnudagur, 13. júní 2021
Örn Arnarson
9. nóvember 2020 07:32

Að drepa veiruna úr leiðindum

Fjölmiðlarýnir fór í Heiðmörk þar sem allt fór vel fram og ánægjulegt er að segja frá því að ekki sást golfkylfa á nokkrum manni.

Páll Ketilsson

Á föstudaginn var tilkynnt um hörðustu sóttvarnaaðgerðir sem gripið hefur verið til frá því að kórónuveirufaraldurinn braust út hér á landi. Um er að ræða verulega mikla skerðingu á einstaklings- og athafnafrelsi landsmanna sem svo leggst ofan á þær þungu byrðar sem hvíla nú þegar á efnahagslífinu vegna ástandsins.

Miðað við alvarleika málsins var búist við að ráðamenn yrðu spurðir spjörunum úr á blaðamannafundinum á föstudaginn þar sem aðgerðirnar voru kynntar. Sú var ekki raunin. Það liggur fyrir að sóttvarnalæknir leggur áherslu á að grípa til aðgerða sem minnka álagið á heilbrigðiskerfið. Á endanum er það hins vegar ríkisstjórnin sem tekur endanlega ákvörðun og ber pólitíska ábyrgð á þeirri leið sem farin er. Hún þarf að taka tillit til fjölbreyttra hagsmuna – vega og meta fórnarkostnaðinn við að feta einn veg umfram annan í þeim efnum enda er hún að véla með líf og framfærslu allra landsmanna.

Blaðamenn sáu ekki ástæðu til þess að spyrja út í þessa hlið málsins og ráðamenn sluppu í stuttu máli við að segja efnislega að ástandið væri alvarlegt og því væri nauðsynlegt að grípa til boðaðra aðgerða og meginmarkmiðið væri að freista þess að hægt yrði að létta á takmörkunum þegar aðventan gengur í garð. Spurningin sem blasir við er: Hvað svo? Það er að segja hvað gerist ef þetta skammtímamarkmið næst og stjórnvöld leyfa landsmönnum náðarsamlega að leika lausum hala í aðdraganda jóla með þeim afleiðingum að smitum tekur að fjölga á ný? Er stefnan þá að setja slagbrand fyrir hagkerfið á ný? Það verður að gera þá kröfu á fjölmiðla að þeir kalli eftir þessum svörum frá ráðamönnum, því hver annar á að gera það? Baráttan við kórónuveirufaraldurinn snýst ekki eingöngu um smitstuðla og nýgengi heldur hvernig valdamönnum ferst að stýra þjóðarskútunni gegnum þau vályndu veður sem nú geisa. Það er sjálfsagt að spyrja landlækni um hið fyrrnefnda en hin pólitíska forysta verður að eiga skýr svör við hinu síðarnefnda.

                                                              ***

Fram til þessa hafa svör ráðamanna við spurningum um hvernig eigi að takast á við hinar efnahagslegu áskoranir, sem hertar sóttvarnaaðgerðir eru, reynst rýr í roðinu. Þau snúast fyrst og fremst um að greiða þeim sem verða fyrir skerðingu á atvinnufrelsi vegna sóttvarnaaðgerða bætur með einum eða öðrum hætti úr ríkissjóði – síðan koma þingmenn stjórnarandstöðunnar og lofa enn hærri bótum og á endanum yfirtrompa Logi Einarsson og Ágúst Ólafur Ágústsson alla þá sem undan gengu.

Í þessu samhengi er vert að nefna eina veigamestu frétt síðustu viku. Frétt sem af einhverri ástæðu rataði ekki í fjölmiðla. Á fimmtudaginn birtu Lánamál ríkisins niðurstöðu úr útboði á endurfjármögnun á ríkisvíxli upp á 26 milljarða. Aðeins um 11 milljarðar fengust í útboðinu. Þetta vekur upp áleitnar spurningar um þá stöðu sem er komin upp á peningamarkaði. Eins og fjallað var um á þessum vettvangi í síðustu viku þá hafa langtímavextir leitað upp á við þvert á markmið Seðlabankans og fyrirheit hans um peningaprentun í formi magnbundinnar íhlutunar. Þrátt fyrir að inngrip Seðlabankans á gjaldeyrismarkaði þurrki upp krónueign á peningamarkaði hafa forráðamenn hans ekki talið ástæðu til þess að grípa til mótvægisaðgerða og á sama tíma hafa innlán lífeyrissjóða á neikvæðum raunvöxtum aukist um 60 milljarða það sem af er ári og nema þau nú um 170 milljörðum. Sjóðirnir kjósa að geyma þetta fé á raunvöxtum sem eru neikvæðir um 3 prósent í stað þess að fjárfesta í útgáfu ríkispappíra og það ásamt þeirri staðreynd að stærsti erlendi eigandi slíkra pappíra hefur verið að losa um 40 milljarða stöðu sína á liðnum mánuðum.

Allt þetta hefur gert það að verkum að langtímavextir eru að hækka á sama tíma og stjórnmálamenn keppast í loforðaflaumi um aukningu ríkisútgjalda vegna þess skaða sem efnahagslífið er að verða fyrir vegna kórónuveirufaraldursins. Það má ætlast til þess af fjölmiðlamönnum þegar þeir hafa slík loforð eftir stjórnmálamönnum, að þeir spyrji þá út í fjármögnun þeirra og vaxtakostnaðinn. Veiti þeir ekki slíkt aðhald er hætt við því að mantran um að staða ríkissjóðs sé sterk og skuldastaða góð í alþjóðlegu samhengi fari að ríma óþægilega vel við sönginn sem var sunginn haustið 2008: Eiginfjárstaða bankans er sterk og hann er að fullu fjármagnaður fram til ársloka 2009.

                                                              ***

Aftur að ofangreindum blaðamannafundi: Fréttamaður Ríkisútvarpsins spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort ekki hafi komið til greina að hreinlega setja á útgöngubann vegna ástandsins. Katrín taldi svo ekki vera. Fleiri fréttamenn höfðu spurt að því sama. Það sem er áhugavert við þetta er að nokkrum klukkustundum eftir fundinn tilkynnti Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, um verulega herðingu sóttvarnaaðgerða eða útgöngubanns eins og talað hefur verið um í íslenskum fjölmiðlum. Það er áhugavert að bera saman aðgerðirnar í Bretlandi og þær sem tóku gildi aðfaranótt laugardags. Á þeim er bitamunur en ekki fjár. Í raun og veru eru þær samskonar. Í orði er veigamesti munurinn á þeim að í Bretlandi er sumum fyrirtækjum gert að loka fyrir starfsemi en á móti kemur að á Íslandi er það á borði: Að leyfa tíu manns í verslun á sama tíma er ígildi lokunar. Á Íslandi ríkir ígildi útgöngubanns þó að menn kjósi að kalla það öðrum nöfnum.

Og margt er líkt með Bretlandi og Íslandi um þessar mundir. Ummæli umdæmisstjóra lögreglunnar í Vestur-Miðlöndum á Englandi vöktu mikla athygli á dögunum. Hann sagðist óhikað senda sína menn til að splundra upp fjölskylduboðum næstu jól ef sýnt væri að þar væri einni frænku eða frænda umfram það sem stjórnvöld leyfðu í það sinn. Um síðustu helgi birtist frétt á vefsvæði Morgunblaðsins þar sem haft var eftir Ásgeiri Ásgeirssyni, yfirlögregluþjóni á höfuðborgarsvæðinu, að borist hafði tilkynning um brot á sóttvarnalögum þess efnis að fleiri en tíu hefðu verið staddir í barnaafmæli.

                                                              ***

Reglugerðin sem gefin var út vegna hertra sóttvarnareglna er óskýr. Verður það að teljast óheppilegt, svo ekki sé sterkar að orði kveðið, þegar um er að ræða jafn íþyngjandi takmarkanir á einstaklingsfrelsi borgaranna. Þannig segir í 5. grein reglugerðarinnar: „Einstaklingsbundnar æfingar án snertingar eru heimilar, svo sem útihlaup og sambærileg hreyfing.“

Sama dag og reglugerðin tók gildi var fallegt haustveður á vesturhluta landsins. Engan skal undra að kylfingar hafi flykkst að þeim golfvöllum á Suðurnesjum sem voru opnir enda ekkert í reglugerðinni sem bannar þá iðju. Þrátt fyrir það mættu lögreglumenn í Leiruna á Garðskaga til að reka kylfinga af vellinum eins og fram kom í Víkurfréttum. Það er með öllu óljóst hvaða heimild þeir höfðu til þess.

Til þess að skýra málið leitaði viðbragðshópur Golfsambandsins til Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis og Víðis Reynissonar yfirlögregluþjóns eftir svörum sem voru á þá leið að „það sé ekki í anda aðgerðanna“ að leika golf. Enginn hefur spurt í krafti hvers koma heimildir þessara embættismanna til að skýra þessi óljósu ákvæði reglugerðarinnar. Liggur það vald ekki annars staðar? Er ekki rétt að túlka álitamál í reglugerð sem er jafn íþyngjandi og raun ber vitni einstaklingsfrelsinu í vil? Og hvílir ekki sú skylda á herðum stjórnvalda að búa svo um hnútana að framkvæmd laga og reglna séu ekki háðar huglægu mati embættismanna hverju sinni?

Sömu sögu er að segja af rjúpnaveiðum sem voru í þann mund að hefjast þegar reglugerðin tók gildi. Ómögulegt er að sjá hvaða smithætta stafar af slíkum veiðum rétt eins golfiðkun. Hún er engin ef menn halda sig við tilmæli um fjarlægð milli manna og hreinlæti. Í ljósi þess er óskiljanlegt af hverju er verið að meina fólki að stunda þessa útivist á meðan önnur er leyfð. Það sama á við um tilmæli um að fólk ferðist ekki milli landshluta. Hvaða tilgang hafa þau tilmæli annan en þann að fylla sumarhúsaeigendur að ferðaskömm og ala á landshlutabundnum fordómum? Nú þegar ferðamenn eru ekki lengur á vegum úti þá heldur sú röksemd að þetta sé gert til þess að forða umferðarslysum og þar með álagi á heilbrigðiskerfið ekki. Langstærstur hluti umferðarslysa á sér stað á höfuðborgarsvæðinu en ekki á landsbyggðinni.

Miðað við þetta allt saman mætti álykta að stefna stjórnvalda byggist á aðgerðum sem er ætlað að drepa veiruna alfarið – drepa hana úr leiðindum. Spyrja má af hverju þeim sem stýra innlendri dagskrárgerð á Ríkisútvarpinu sé ekki lengur fyllilega treystandi til þess verks.

                                                              ***

Í reglugerðinni er kveðið á um að ekki megi fleiri en tíu koma saman í tilteknum verslunum. Þetta á ekki við matvöru- og lyfjaverslanir. Á fundi almannavarna á mánudag var spurt um hvers vegna ÁTVR væri ekki bundið við tíu manna hámarkið. Víðir yfirlögregluþjónn svaraði því til að þeir sem komu að gerð reglugerðarinnar hafi ekki haft hugmyndaflug til að átta sig á að áfengi væri skilgreind sem matvara. Þetta vekur upp áleitnar spurningar um fagmennskuna að baki gerð reglugerðarinnar þar sem skýrt er kveðið á um í lögum um virðisaukaskatt að áfengi flokkist undir matvöru. Annars er það fagnaðarefni að Landlæknisembættið viðurkenni nú að áfengi er eins og hver önnur neysluvara en embættið hefur margoft haldið hinu gagnstæða fram í umsögnum um frumvörp sem hefur verið ætlað að færa áfengisverslun í frjálsræðisátt. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra hlýtur að fagna þessum liðsauka í baráttunni fyrir að færa áfengisverslun í átt til nútímans.

En sökum þess að þeir sem komu að reglugerðinni skorti hugmyndaflug til að ímynda sér að áfengi væri flokkað undir matvöru í lögum um virðisaukaskatt ákváðu stjórnendur ÁTVR að koma til móts við hugmyndaleysið. Þeir tilkynntu á þriðjudag að frá og með þeim degi mættu aðeins 25 viðskiptavinir vera í hverri verslun fyrir sig. Með öðrum orðum fleiri en í almennum verslunum en samt sem áður er einhver hámarksfjöldi sem virðist vera fundinn út með því að stinga putta út í loftið. Einhverjir myndu kalla þetta skrípaleik.

                                                              ***

Undirritaður vann í bílastæðalottóinu um helgina þegar hann rambaði á laust bílastæði í Heiðmörk á sunnudag. Slík lukka hafði ekki leikið hann síðan hann fann laust bílastæði við suðurinnganginn að efri hæð Kringlunnar Þorláksmessukvöldið 2007. Múgur og margmenni stunduðu útivist í Búrfellsgjá þennan sunnudagseftirmiðdag og var tilkomumikið að virða fyrir sér mannhafið áður en gengið var niður stigann að gjánni. En allt fór vel fram og ánægjulegt er að segja frá því að ekki sást golfkylfa á nokkrum manni.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.