Fyrir viku birtist í Viðskiptablaðinu áhugavert viðtal við Hörð Arnarson, forstjóra Landsvirkjunar. Í viðtalinu bendir Hörður á að skortur á framsýni og fyrirhyggju í orkumálum kunni að koma í bakið á landsmönnum þegar fram í sækir. Orkuskipti vegna alþjóðlegra skuldbindinga íslenskra stjórnvalda í loftlagsmálum kalla á aukna framleiðslu á endurnýjanlegri orku.

Það verður ekki gert nema með byggingu nýrra virkjana. Sjónarmið þeirra sem telja raforkuframleiðslu á Íslandi nú þegar duga til þess að standa undir orkuskiptum hlýtur að fela í sér að að raforka sem nú fer til stóriðju verði nýtt til rafvæðingar samgangna í lofti, láði og legi. Verði þessi leið farin mun það fela í sér stórfellda atlögu að lífskjörum í landinu. Svo stórfellda að það er umhugsunarvert að þetta sjónarmið eigi sér fylgismenn.

Það er því ljóst að það þarf að virkja til að verja lífskjör í landinu og stuðla að orkuskiptum. Tíminn er dýrmætur í þess- um efnum eins og Hörður bendir á í viðtalinu, enda er það mat hans að auka þurfi raforkuframleiðslu um helming til þess að standa undir orkuskiptum og öðrum tækifærum þeim tengdum. Í viðtalinu segir:

„Hörður bendir þó á að það sé heljarinnar framkvæmd að reisa nýja virkjun og allt ferlið í kringum það geti tekið rúmlega áratug. Því þurfi að taka ákvarðanir um framtíðaráformí orkuvinnslu eins fljótt og auðið er. „Það þarf að varpa ljósi á hvað samfélagið hefur mikla orkuþörf til lengri tíma litið. Í full- um orkuskiptum, sem gerast á 15-20 árum, þá er mikilvægt að vera með virkjunarkosti á borðinu. Þá kosti sem eiga að koma til framkvæmdar eftir 15-20 ár þarf að byrja að skoða núna því tíminn sem það tekur að undirbúa virkjanir, fara í gegnum leyfis- veitingaferlið og svo framkvæmdin sjálf, er mjög langur."

Og enn fremur:

„Raforkuframleiðsla í heild sinni á Íslandi sé tæpar 20 teravattstundir á ári. Ef ráðast eigi í orkuskipti á landi, sjó og í innan- landsflugi sé ekki ólíklegt að það þurfi að auka ársframleiðslu raforku um a.m.k. helming. „Það er verið að vinna í grænbók í umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu og eitt af meginhlut- verkum þeirrar vinnu er að ná utan um það hver orkuþörfin til framtíðar sé. Grænbókin á að vera tilbúin í næsta mánuði og verður fróðlegt að sjá sýn höfunda hennar á stöðu mála varðandi framboð og eftirspurn raforku.""

Af þessu sögðu er ljóst að lítinn tíma má missa þegar kemur að skipulagningu og framkvæmdum á nýjum virkjunum. Segja má að ástandið í vetur hafi veitt ákveðinn forsmekk af því sem koma skal ef ráðamönnum tekst ekki að koma sér saman um skynsamlega leiðir í raforkumálum á næstu árum. Það má lítinn tíma missa þegar kemur að virkjunarframkvæmdum, eins og Hörður bendir á. Grænbókin sem hann minnist á í viðtalinu gæti orðið mikilvægt framlag til þeirra umræðu og það er því ákaflega brýnt að höfundar hennar nálgist viðfangsefnið af raunsæi og festu. Verði það raunin getur grænbókarvinnan leitt til þess að menn hefjist handa við þann undirbúning sem er fram undan vegna orkuskiptanna.

Hörður nefnir einnig í viðtalinu að fjölmörg tækifæri séu fram undan í tengslum við svokallaðan grænan iðnað. Forstjórinn segir að fjölbreyttur grænn iðnaður hafi áhuga á að hefja starfsemi á Íslandi, samhliða þeim sem fyrir er, með tilheyrandi atvinnu- og nýsköpun fyrir samfélagið, og má í því samhengi nefna matvæla- iðnað, gagnaversiðnað og hugmyndir um rafeldsneytisfram- leiðslu. Eina leiðin til þess að þetta allt saman gangi upp er að hefja frekari orkuvinnslu. Seinagangur á virkjanaframkvæmdum gæti því reynst dýrkeyptur og leitt til þess að fjölmörg efna- hagsleg tækifæri glatist.