*

laugardagur, 26. september 2020
Leiðari
14. desember 2018 17:45

Að éta kostnaðarmat

Undarleg þögn hefur verið um kjaramálin síðustu vikur.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra.
Eva Björk Ægisdóttir

Undarleg þögn hefur verið um kjaramálin síðustu vikur og þá sérstaklega í ljósi þess að kjarasamningar á almennum launamarkaði losna um áramótin eða eftir rúmar tvær vikur. Töluverð harka var í umræðunum framan af en það er eins og menn hafi haldið í sér upp á síðkastið. Vonandi er það til marks um að aðilar vinnumarkaðarins séu að tala saman eins og fólk. Vonandi er þetta ekki lognið á undan storminum.

Það verður samt ekki litið framhjá því að óvissan sem nú ríkir og orðræða verkalýðsforystunnar framan af hefur þegar haft dempandi áhrif á hagkerfið. Fyrirtæki halda að sér höndum í fjárfestingum því þau vita ekki hver rekstrarkostnaðurinn verður eftir áramót þegar nýir kjarasamningar liggja fyrir. Þetta er ekki gott því þvert við það sem ýmsir virðast halda þá er í raun ekkert, engar hagtölur, sem benda til þess að íslenskt efnahagslíf þurfi að sigla inn í kreppu.

Eitt er þó mjög jákvætt og það er að formaður VR hefur lýst því nokkrum sinnum yfir undanfarið að hann vilji ekki stuttan samning, sem gildir kannski í hálft ár eða ár, heldur vilji hann semja til lengri tíma. Þetta er skynsamleg nálgun því samningar til langs tíma skapa stöðugleika í hagkerfinu. Stöðugleikinn hjálpar öllum, launafólki og fyrirtækjum. Vissulega þurfa samningarnir þá að vera á skynsömum nótum, sem þýðir að þeir mega alls ekki vera í takt við þær kröfugerðir sem VR og Starfsgreinasamband Íslands birtu um miðjan október, þar sem krafist var 60 til 90 prósenta hækkunar lægstu launa.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra tjáir sig um stöðuna í kjaramálum í viðtali í bókinni 300 stærstu, sem Frjáls verslun var að gefa út á dögunum.

„Takist mönnum að knýja fram niðurstöðu í samræmi við þessa fyrstu kröfugerð sem hefur birst þá eru afleiðingarnar að mínu áliti mjög fyrirséðar,“ segir Bjarni í viðtalinu. „Hækki laun langt umfram framleiðniaukningu fáum við verðbólgu, hærra vaxtastig og rýrnun kaupmáttar. Og við vitum líka hvað gerist í beinu framhaldi af slíku. Stórir hópar munu kenna gjaldmiðlinum um allt saman, krefjast endurskoðunar á vísitölum eða breytinga á verðtryggingu, bölva Seðlabankanum og sparka í krónuna. Og þá hefst sú umræða enn á ný. Sem aldrei er um kjarna máls.“

Fjármálaráðherrann telur að íslenska vinnumarkaðsmódelið sé ónýtt vegna þess að það gangi ekki út frá því að það sé forsenda að góðri niðurstöðu að menn hafi fyrst komið sér saman um hvaða svigrúm sé til launahækkana. Engar samræður séu um svigrúmið sem sé fyrir hendi og þar af leiðandi sé enginn byrjunarflötur. Segist ráðherrann sjaldan hafa séð þetta jafn skýrt og núna. „Þegar rætt er um að kostnaðarmeta kröfur er því svarað með útúrsnúningi um að ekki sé hægt að éta kostnaðarmat.“

Ekki þarf annað en að skoða kaupmáttinn til að sjá að kjör allra hafa verið að lagast segir ráðherrann í viðtalinu og bætir við: „Miðað við kaupmáttaraukningu síðustu ára þá eru vonbrigði að ekki sé meiri sátt á vinnumarkaði. Hér hefur kaupmáttur aukist um 24 til 25 prósent á síðustu þremur til fjórum árum og það er, í öllu sögulegu samhengi, algjört afrek. Við öll, almenningur, launþegahreyfingin, atvinnurekendur og stjórnvöld, eigum sameiginlega að vera gríðarlega ánægð og stolt af þessum árangri. Það er aftur á móti eins og margir telji að þetta hafi verið sjálfsagt. Sumir segja heppni. Aðrir segja að þetta sé ekki nóg. Af minni hálfu væri óábyrgt annað en að benda á að hugmyndir um að þetta endurtaki sig á næstu 3-4 árum eru algerlega óraunhæfar og stríða gegn öllum lögmálum efnahagsmála.“

Óhætt er að taka undir þessi orð fjármálaráðherrans og skilaboðin frá honum eru skýr. Hann segir að þótt langt sé á milli samningsaðila sé hann hóflega bjartsýnn og telji að hægt sé að vinna með þá stöðu sem sé uppi á vinnumarkaði. „Hvort sem mönnum líst illa á blikuna eða ekki þá er ekkert annað í boði.“

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.