*

föstudagur, 4. desember 2020
Heiðar Guðjónsson
2. nóvember 2019 13:31

Að gera meira fyrir minna

Samkeppni á markaði er mjög mikil á Íslandi. Það nægir að horfa á vísitölu fjarskipta sem hefur lækkað um 79% á síðustu fjórum árum.

Aðsend mynd

Samkeppni á markaði er mjög mikil á Íslandi. Við greiðum einhver hæstu laun sem um getur í veröldinni en verð á þjónustu hefur lækkað á sama tíma og gæðin eru sífellt að aukast, nægir að horfa til vísitölu fjarskipta, sem er undirvísitala verðlagsmælinga en hún hefur lækkað um 79% á síðustu fjórum árum. Til þess að geta haldið áfram á þessari braut er nauðsynlegt að fyrirtæki leiti leiða til að hagræða.

Við getum horft til þess að innviðir margra atvinnugreina eru gríðarlega fjárfrekir. Greinarnar hafa oft mörg lög af sömu innviðum sem kemur fram í hærri kostnaði við rekstur og takmarkar því verðlækkanir sem annars gætu komið fram.

Á olíumarkaði eru til dæmis tvö dreifingarfyrirtæki, þegar eitt ætti að duga og áhættan af því að hafa nokkra flota olíuflutningabíla á vegunum og olíutanka um allt land er umtalsverð. Ef horft er til bankareksturs má sjá fyrir sér að bankarnir gætu hagrætt mikið með því að setja fleiri verkefni inn í Reiknistofu bankanna. Bakvinnsla banka og stór hluti af upplýsingatækni gæti vel rúmast þar og hagræðingin af slíku væri mjög mikil.

Alþjóðleg þróun

Á fjarskiptamarkaði er 5G væðing landsins framundan. Þar skiptir öryggið miklu því ætlunin er að tengja sjálfkeyrandi bíla og aragrúa tækja við netið sem þarf að vera algerlega hnökralaust. Það væri því óráð ef mörg ótengd 5G kerfi yrðu til staðar og þróunin í Evrópu er sú að fjarskiptafyrirtækin taka sig saman um uppbygginguna. Þau taka með öðrum orðum innviði sína og leggja inn í sameiginlegt félag sem aftur tryggir að kerfið sé algerlega heildstætt.

Það er til hagsbóta fyrir neytendur því ekki nóg með að kerfið sé öruggara þá er það líka umtalsvert ódýrara en ef hvert fyrirtæki fyrir sig ætlar sér að byggja eigið kerfi. Það er líklegt að með aukinni tæknivæðingu hagkerfisins sjáum við mikla aukningu í þessa veru, að innviðir atvinnugreina sé teknir út úr samkeppnisfyrirtækjunum og settir í sér félag. Það er síðan rekið með sama fyrirkomulagi og dreifiveitur landsins í rafmagni og vatni. Hagræðingin sem af þessu hlýst gerir það svo að verkum að verðlag getur haldið áfram að lækka á grunnþjónustu samfélagsins.

Heppilegir eigendur

En hverjir ættu að eiga innviðafyrirtækin sem búa við takmarkanir á arðsemi? Það er ljóst að erlendir fjárfestingasjóðir eru mjög áhugasamir um slíkar eignir því tekjuflæðið er mjög fyrirsjáanlegt, þó að arðsemin verði ekki há, og í heimi lækkandi vaxta eru fjárfestingakostir næstu ára aðrir en verið hafa.

Íslenska lífeyrissjóðakerfið er gríðarlega umfangsmikið og sterkt. Það hefur sannað sig í ölduróti fjármála undanfarna áratugi. Mér þykir blasa við að lífeyrissjóðirnir væru ákjósanlegur eigandi innviðafyrirtækjanna, enda eru þau þá í eigu almennings í landinu og hagsmunir þjóðar og almennings fara saman: Að tryggja örugga uppbyggingu innviða og dreifa arðseminni sem jafnast.

Sjálfvirknivæðing er að breyta þjónustugreinum gríðarlega og sú þróun er rétt hafin. Til að styðja við þá þróun er aðgreining innviða frá samkeppnisgreinum mjög rökrétt skref fram á við. Það er lykillinn að því að gera meira fyrir minna.

Höfundur er forstjóri Sýnar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.