*

laugardagur, 7. desember 2019
Sigmundur Davíð Gunnlaug
25. ágúst 2017 08:29

Að greina stóru málin og takast á við þau

Ef lausnir á stærstu úrlausnarverkefnum heims eru ekki rædd innan hefðbundinna stjórnmála eru þau eftirlátin öfgamönnum.

Haraldur Guðjónsson

Heimurinn er á flestan hátt að batna. Heilbrigði og önnur lífsgæði aukast, tækninni fleytir fram og nýtist fleirum og veröldin er orðin mun friðsælli enn hún var (þótt borgarastyrjöldin í Sýrlandi sé stór undantekning). Stundum er látið eins og að með því að benda á þetta sé verið að gera lítið úr fátækt, eða sjúkdómum og hryllilegum stríðsátökum. Það er mjög skaðlegt viðhorf, því ef við metum það sem reynist vel getum við gert enn betur.

En svo þarf líka að ræða hætturnar svo hægt sé að takast á við þær. Við höfum enda enga tryggingu fyrir því að batnandi heimur fari áfram batnandi. Í byrjun tuttugustu aldar ríkti bjartsýni. Framfarir á Vesturlöndum höfðu verið byltingarkenndar áratugina á undan og stríð þóttu til marks um fávísi fortíðar. Frelsi í milliríkjaviðskiptum hefur aldrei verið jafnmikið og árið 1913. Árið eftir skall á heimsstyrjöld.

Það er því vissara að hafa varann á. Læra af jákvæðri þróun en líta ekki á hana sem gefna. Þrátt fyrir framfarir stendur heimurinn frammi fyrir stórum úrlausnarefnum og sum þeirra eru þegar farin að breyta hefðbundnu pólitísku landslagi á Vesturlöndum. Ekki vegna þess að hin hefðbundnu stjórnmál séu að takast á við þessi mál heldur vegna þess að þau gera það ekki.

Þrjú þessara mála eru risastór og öll hafa þau áhrif á lífskjör fólks. Þetta eru áhrif alþjóðavæðingar, áhrif hinnar nýju iðnbyltingar, hátæknibyltingarinnar, og loks hinn mikli straumur fólks á milli landa, frá fátækari löndum til Vesturlanda.

Í öllum tilvikum hefur skort á að stjórnvöld á Vesturlöndum gerðu sér grein fyrir umfangi og eðli þessara mála og að miklu leyti er umræða um þau verulega heft. Það á ekki hvað síst við um síðasta atriðið.

Undanfarin misseri höfum við heyrt fréttir af því að aldrei hafi eins margir verið á flótta í heiminum og nú. Hvernig má það vera ef heimurinn hefur aldrei verið jafn friðsamur og velmegun aldrei eins almenn? Ástæðan er sú að þróun samfélaga með aukinni hagsæld dregur ekki úr fólksflutningum, hún ýtir undir þá.

Ýmsir fræðimenn, þar með talið bandaríski þróunarhagfræðingurinn Michael Clemens, hafa sýnt fram á þetta. Þegar árstekjur (kaupmáttarjafnaðar) fara yfir rúma 600 Bandaríkjadali á ári (eins og í Eþíópíu) eykst straumur fólks frá landinu. Ekki fer að draga úr honum, að mati Clemens, fyrr en tekjurnar eru komnar í um 7.500 dali. Það eru um það bil meðaltekjur í Albaníu, en eins og kunnugt er leita margir Albanir enn betri lífskjara annars staðar.

Sókn fólks í betri kjör er eðlileg og hún mun halda áfram. Sú þróun hjálpar hins vegar ekki raunverulegum flóttamönnum. Straumur flóttamanna og annars förufólks til Evrópu er farinn að valda verulegri togstreitu innan, og á milli-, Evrópulanda og átökin ágerast.

Á þessu ári hefur stærsti hópurinn komið yfir hafið frá Líbíu til Ítalíu. Flestir sem koma þá leið eru ekki að flýja stríð heldur að leita betri lífskjara en eiga þó að baki langt og hættulegt ferðalag. Nígeríumenn eru fjölmennastir en næst á eftir kemur fólk frá Bangladesh.

Brýnt að ræða lausnir

Að óbreyttu mun þeim sem leggja í slíka för fjölga jafnt og þétt. Því meira sem hagur fátækustu landanna vænkast þeim mun fleiri munu eygja tækifæri til að yfirgefa þau lönd. Á sama tíma er spáð gífurlegri fólksfjölgun í þróunarlöndunum.

Nígeríumenn eru nú um 170 milljónir. Árið 2045, eftir tæp þrjátíu ár, verður Nígería orðin fjölmennari en Bandaríkin. Landsmenn verða þá um 450 milljónir að mati Sameinuðu þjóðanna.

Norður af Nígeríu er landið Níger. Það er fátækasta land heims. Hvergi í heiminum fjölgar fólki eins hratt. Því er spáð að við lok aldarinnar verði Níger orðið tvöfalt fjölmennara en Rússland. Nágrannarnir í suðri, Nígeríumenn, verða þá orðnir nærri jafnmargir og Kínverjar. Af 25 fjölmennustu ríkjum heims verða 14 í Afríku, ekkert í Evrópu.

Í millitíðinni mun þurfa að leysa ýmis mál.

Til að byrja með þarf stefnu. Ef stjórnmálamenn, embættismenn, fjölmiðlar, fræðimenn og aðrir sem hafa það hlutverk að ræða lausnir, horfa til framtíðar og móta stefnu þora ekki að ræða stærstu úrlausnarefni samtímans eru þeir að eftirláta öfgamönnum umræðuna og lausnirnar. Ef það gerist er ólíklegt að heimurinn haldi áfram að batna.

Höfundur er þingmaður Framsóknarflokksins.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.