Seðlabankinn hækkaði vexti um eina prósentu í gær. Meginvextir bankans eru 7,5%. Ákvörðunin átti ekki að koma neinum á óvart. Verðbólga er mikil og mælist á breiðum grunni og fátt bendir til þess að lát verði á innfluttri verðbólgu á komandi misserum.

Seðlabankinn neyðist til að hækka vexti og fastlega má gera ráð fyrir að þeir verði hækkaðir enn frekar. Raunvextir eru enn neikvæðir á óverðtryggðum fasteignalánum. Eins og fram kemur í umfjöllun í fjármálastöðugleikaskýrslu Seðlabankans í síðustu viku hafa vaxtahækkanir ekki haft eins mikil áhrif á greiðslubyrði heimila og oft er látið í veðri vaka. Á meðan raunvextir eru neikvæðir hafa hvorki heimili né fyrirtæki hvata til að auka sparnað á kostnað neyslu og fjárfestinga. Vextir þurfa því að hækka enn frekar.

Atvinnuvegafjárfesting er mikil og í raun og veru fátt sem getur komið í veg fyrir vaxtahækkanir.

Ábyrgð stjórnvalda á ástandinu er mikil. Stjórn ríkisfjármála er í engum takti við aðstæður í efnahagsmálum og til þess eins fallnar að kasta olíu á verðbólgu og ofþenslu. Í vikunni komu fram tölur frá Hagstofunni um að ríkissjóður hefði verið rekinn með 162 milljarða halla í fyrra. Það blasir við að hallarekstur sem nemur um 4,3% af landsframleiðslu á sama tíma og hagvöxtur mælist 6,4% er ekki til þess fallinn að draga úr verðbólgu sem er fyrst og fremst knúin áfram af eftirspurn.

Fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar verður kynnt á næstunni. Nauðsynlegt er að hún markist af einbeittu aðhaldi á útgjaldahliðinni. Fátt bendir til þess að það verði raunin. Nánast á hverjum degi má sjá í fjölmiðlum ráðherra lofa útgjöldum til þess að tryggja öllum „góð bílastæði, betri tóngæði, meira næði og frítt fæði“ svo vitnað sé til ljóðs Megasar. Þannig að þó svo að fjármálaætlunin kunni að virðast ábyrg í fyrstu er vafamál um að hún standist þegar á reynir.

Reykjavíkurborg getur staðið við fæst af loforðum meirihlutans vegna þess að reksturinn er kominn í kalda kol. Örvæntingarfullir foreldrar ungra barna finna fyrir þessu á degi hverjum. Óráðsía í rekstri borgarinnar ætti að kenna ráðherrum í ríkisstjórninni hvað gerist ef reynt að er að leysa öll vandamál með fjáraustri. Ekkert bendir til þess að þeir muni læra nokkuð. Ásmundur Daði Einarsson barnamálaráðherra stígur fram og vill leysa vanda foreldra á leikskólaaldri með því að lengja fæðingarorlofið enn frekar á kostnað ríkisins! Fleira má nefna í þessum efnum: áætlun stjórnvalda um að styrkja bílaleigur um milljarð á ári vegna orkuskipta, stuðningur við kornrækt og opinn tékki ríkisstjórnarinnar til niðurgreiðslu á starfsemi erlendra kvikmyndafyrirtækja hér á landi svo eitthvað sé nefnt.

Þessi dæmi sýna að ekki virðist vera mikill skilningur innan ríkisstjórnarinnar á því að verðstöðugleiki sé stærsta kjaramál heimilanna og atvinnulífsins. Á meðan svo er þá þarf Seðlabankinn að stíga enn harðar á bremsuna í einmana baráttu sinni gegn verðbólgunni.

Það er því full nauðsyn að taka tillit til ástandsins við gerð fjárlaga næsta árs og ráðast í verulegan niðurskurð. Það ætti að blása mönnum kapp í kinn að hægt er að skera mikið niður án þess að skerða þá þjónustu sem þverpólitísk sátt ríkir um að ríkið veiti. Ástæða þess er einfaldlega að rekstrinum hefur verið leyft að hlaupa í spik og útgjaldaaukning undanfarinna ára er að mörgu leyti til komin vegna tilgangslausra verkefna og fjármögnunar á áhugamálum einstakra hópa.

Þetta er sama stefnan og var mörkuð á sínum tíma í Reykjavík og afleiðingar hennar ættu að vera öllum augljósar.