*

sunnudagur, 5. desember 2021
Leiðari
30. maí 2019 16:44

Að hlusta á áhyggjuraddir

Sameining Seðlabankans og FME — Hvers vegna að kollvarpa kerfi sem gengið hefur vel fyrir óljósan ávinning?

vb.is

Eftirlit með fjármálakerfinu verður aldrei gallalaust. Hafa þarf það í huga við fyrirhugaða sameiningu Fjármálaeftirlitsins og Seðlabankans. Misjafnt er hvernig þjóðríki byggja upp eftirlit með fjármálakerfinu – hvort eftirlitið sé innan seðlabanka eða rekið í sérstakri eftirlitsstofnun eða stofnunum. Töfralausnir eru ekki í boði.

Taka þarf mark á varnaðarorðum Gylfa Zoega, nefndarmanns í peningastefnunefnd og dósents í hagfræði í HÍ, sem spyr til hvers verið sé að sameina stofnanirnar. Gylfi hefur að undanförun bent á í viðtölum og blaðagreinum að umtalsverðar breytingar hafi verið gerðar á eftirliti með fjármálakerfinu frá bankahruninu. Seðlabankinn og FME hafa ýmis tæki og heimildir sem ekki voru til staðar fyrir hrunið og þegar sé mikil samvinna milli stofnana. Í fyrsta sinn í lýðveldissögunni hefur tekist að viðhalda allt í senn hagvexti, lágri verðbólgu, jákvæðum viðskiptajöfnuði og vaxandi kaupmætti. Hvers vegna að kollvarpa kerfi sem gengið hefur vel fyrir óljósan ávinning?

Reynslan af því því að láta Seðlabankann sinna eftirlitshlutverki er ekki góð. „Það verður að vera alveg ljóst að svona gera menn ekki,“ sagði Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, um Samherjamálið í mars. Meirihluti af sektum sem gjaldeyriseftirlit Seðlabankans lagði á hefur verið endurgreiddur. Bankaráð Seðlabankans segir að bankinn kunni að hafa bakað sér skaðabótaskyldu. Mistök við fjármálaeftirlit eða átök við þekkt fyrirtæki eða einstaklinga eru líkleg til að grafa undan trúverðugleika Seðlabankans á öðrum sviðum, til að mynda að halda aftur af verðbólgu.

Skýrsla sem nefnd undir forystu Ásgeirs Jónssonar, deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, skilaði til forsætisráðherra í október lagði ekki til sameiningu stofnananna í heild. Færa ætti svokallaða þjóðhagsvarúð (eftirlit með fjármálakerfinu í heild) og eindarvarúð (eftirlit með einstaka fjármálafyrirtækjum) inn í Seðlabankann en eftirlit með viðskiptaháttum og neytendavernd yrði eftir í sérstakri stofnun. Kauphöllin, Viðskiptaráð og Samtök atvinnulífsins vara öll við því að gengið verði alla leið við sameiningu og vilja aðskilið viðskiptaháttaeftirlit. Meðal annars af þeirri ástæðu að Lánamál ríkisins, sem eru rekin innan Seðlabankans, eru þátttakandi á fjármálamarkaði. Á Seðlabankinn þá að hafa eftirlit með sjálfum sér?

Tryggja þarf að sameining Seðlabankans og FME skili því hagræði sem stefnt er að, til dæmis með því að koma í veg fyrir tvíverknað við greiningarvinnu og gagnaskil. Athygli vakti í vetur að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að ekki væri stefnt að fækkun starfsmanna sameinaðrar stofnunar. Benda má á að starfsmönnum Seðlabankans hefur fjölgað um fjórðung frá árinu 2011. Samanlagður rekstrarkostnaður FME og Seðlabankans hefur hækkað úr 5,7 milljörðum í 6,3 milljarða króna frá árinu 2011 á föstu verðlagi eða um 600 milljónir króna. Þessi kostnaður endar á íslenskum neytendum, annaðhvort beint í gegnum ríkissjóð eða óbeint í gegnum kjör á fjármálaþjónustu enda er rekstur FME fjármagnaður af fjármálafyrirtækjum.

Seðlabankinn hefur sjálfur áhyggjur af í umsögn sinni að frumvörpin um sameiningarnar hafi verið samin í of miklum flýti. Forsætisráðherra sagði við Viðskiptablaðið í síðustu viku að fallið yrði frá ákvæðum um að ráðherra hefði neitunarvald yfir vissum þjóðhagsvarúðartækjum líkt og kveðið er á um í frumvarpinu. Alþingi þarf að flýta sér hægt og hlusta á áhyggjuraddirnar. Ekki þarf að minna Íslendinga á hvaða afleiðingar það getur haft þegar eftirlit með fjármálakerfinu misheppnast.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.