*

sunnudagur, 29. nóvember 2020
Leiðari
30. október 2020 12:56

Að kjósa burt lýðræðið

Forsetakosningarnar á þriðjudaginn snúast ekki um málefni. Þær snúast um virðingu fyrir undirstöðum lýðræðisins.

Bandaríkjamenn velja milli Donalds Trump, sitjandi forseta, eða Joe Biden, fyrrum varaforseta, í forsetaembættið á þriðjudag.
epa

Næstkomandi þriðjudag fara fram kosningar í valdamesta embætti heims. Útlit er fyrir að í fyrsta sinn í tæp 30 ár muni sitjandi Bandaríkjaforseti ekki hljóta endurkjör, en allt getur gerst. Tæp vika er langur tími í pólitík og úrslit síðustu kosninga voru á skjön við svo til allar kannanir og spár, þótt vissulega hafi munurinn verið minni þá.

Fáir ef nokkrir lesendur Viðskiptablaðsins hafa kosningarétt í Bandaríkjunum, og því til lítils fyrir blaðið að lýsa yfir formlegum stuðningi við annan frambjóðendanna eða hvetja lesendur sérstaklega til að kjósa hann.

Hitt er víst í huga þess sem þetta skrifar, að séu frambjóðendurnir metnir eftir þeim gildum og sjónarmiðum sem þetta blað aðhyllist – og raunar grundvallargildum sem allir, óháð stjórnmálaskoðunum, ættu að geta verið sammála um – er aðeins einn sem kemur til greina.

Séu málefnin sem slík skoðuð í algjöru tómarúmi má finna sitthvað hjá hvorum þeirra sem okkur hugnast ágætlega, og sitthvað sem okkur hugnast síður. Viðskiptablaðið tekur almennt afstöðu með frelsi og sjálfsákvörðunarrétti einstaklingsins, og getur því vel fellt sig við yfirlýst stríð sitjandi forseta gegn óhóflegri skriffinnsku og reglugerðafargani, boðum og bönnum.

Skattalækkanir eru að sama skapi almennt af hinu góða, þótt deila megi um útfærslur, og gæta verði að því að þær leiði ekki til viðvarandi hallareksturs og skuldasöfnunar. Ást núverandi forseta á tollum, og hikandi afstaða til utanríkisviðskipta almennt, er hins vegar erfiðari biti fyrir frelsisþenkjandi fólk að kyngja.

En þessar kosningar snúast ekki um málefni. Þær snúast um menn. Drengskap, virðingu, heiðarleika og að vera fyrirmynd. Forseti Bandaríkjanna er ekki aðeins leiðtogi ríkisstjórnarinnar. Hann er einnig þjóðhöfðingi og honum er ætlað að vera sameiningartákn inn á við og fulltrúi þjóðarinnar út á við.

Frá því að hann tilkynnti framboð sitt í síðustu kosningum hefur Donald Trump sýnt megna óbeit á öllu og öllum sem standa í vegi hans til valda. Hann hefur ítrekað skipt sér af opinberum rannsóknum og öðrum faglegum ferlum framkvæmdarvaldsins þegar þeir hafa verið honum í óhag, úthúðað fjölmiðlum sem hlutdræga lygara fyrir að veita honum aðhald og fletta ofan af þeim óteljandi ósannindum sem hann ber á borð nánast í hverju orði.

Hann lítur á alþjóðlegt samstarf og viðskipti sem núllsummuleik, þar sem máttur réttlæti hvað sem er, og leikreglur séu einskis virði ef þær hagnist honum ekki til skamms tíma, sem kemur sér sérstaklega illa fyrir smáþjóðir eins og Ísland, sem mega sín lítils í slíku umhverfi.

Síðast en ekki síst hefur það sýnt sig svo ekki verður um villst frá því að heimsfaraldurinn hófst, að mannslíf og heilbrigði annarra skipta hann engu máli. Hann hefur boðað allskyns skyndilausnir, þvert á málflutning sérfræðinga, í pólitískum tilgangi, gert lítið úr faraldrinum og jafnvel ýtt undir efasemdir um tilgang og virkni grímunotkunnar.

Lýðræði snýst um meira en að mæta á kjörstað á nokkurra ára fresti og velja sér leiðtoga. Virk, upplýst og óheft umræða, frjáls fjölmiðlun, virk og öflug stjórnarandstaða sem hlustað er á, faglegt og óspillt embættismannakerfi og síðast en ekki síst óháðir og ópólitískir dómstólar eru allt nauðsynlegar grunnstoðir raunverulegs lýðræðis. Nóg er af dæmum í mannkynssögunni, sem og nútímanum, um hvað gerist þegar þær bresta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.