Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á fimmtudag um fjármál Reykjavíkurborgar og 15 milljarða hallarekstur í ár, samkvæmt endurskoðaðri áætlun.

Sérstaklega athygli vekur endurmat á eignum félagsbústaða. Félagslegar íbúðir eru eitt af lögbundnum verkefnum sveitarfélaga en Reykjavíkurborg hefur endurmetið eignir Félagsbústaða um tæpar 100 milljarða frá 2013 þótt ekki standi til að selja íbúðirnar.

Hér er brot úr pistlinum en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Að kokka bækurnar

Fjárhagur Reykjavíkurborgar hefur síðasta áratuginn verið fegraður með því að endurmeta eignir Félagsbústaða hf. Endurmat eigna á núverandi verðlagi frá árinu 2013 nemur 94 milljöðrum króna.

Í árshlutareikningi janúar til september 2022 segir þetta um endurmat Félagsbústaða.

Fjárfestingaeignir eru fasteignir Félagsbústaða hf. sem eru í eigu félagsins til að afla leigutekna. Fjárfestingaeignir eru færðar á gangverði í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Við mat á fjárfestingaeignum er stuðst við fasteignamat Þjóðskrár Íslands. Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðskrá er fasteignamat gangverð sem ætla má að eign hefði haft í kaupum og sölum.

Þetta eru ekki eiginlegar fjárfestingaeignir því það stendur ekki til að selja þær. Stefna þessa félagslega hlutafélags borgarinnar að fjölga íbúðum í safninu, eins gert hefur verið síðustu ár. Frá árinu 2018 til ársins 2025 er gert ráð fyrir að íbúðum fjölgi um 650 og verði 3.400. Þessi svokallaði hagnaður af verðhækkunum á húsnæðinu, sem er tilkomin vegna lóðaskortsstefnu borgarinnar sjálfrar, kemur því ekki inn í rekstur borgarinnar.

Óðinn veltir fyrir sér hvernig J. Sturla Jónsson endurskoðandi Félagsbústaða getur skrifað undir ársreikning félagsins þegar honum er fullljóst að ekki er um fjárfestingaeign að ræða, sem ætlunin er að kaupa á sem lægstu verði og selja á sem hæstu verði. Það er auðvitað til mikillar skammar að félags endurskoðenda og endurskoðendur almennt geri engar athugasemdir þegar pólitíkusar kokka bækurnar til þess eins að fegra afleidda stöðu.

Að auki setur Óðinn stórt spurningarmerki við það hvort ástand þessara félagslegu íbúða sé það sama og annarra íbúða í Reykjavík, að meðaltali. Fasteignamat gefur því hugsanlega ekki rétta mynd af raunverulegur verðmæti þessara íbúða og því kann eignasafnið að vera ofmetið vegna þess og endurmatið því of hátt.

Fyrst endurskoðendurnir heimila þessa vitleysu alla. Hvers vegna endurmetur borgin ekki skólpræsin, gangstéttirnar, götuvitana, ljósastaurana og allt hitt sem við vitum að verður aldrei selt, rétt eins og íbúðir félagsbústaðanna.

Þetta er dæmalaus vitleysa.

Óðinn er einn af reglulegum skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út í fimmtudaginn, 8. desember 2022.