Stór rekstraráföll eru stundum kölluð svartir svanir. Það eru áföll sem hafa svo mikil áhrif á reksturinn að engan hefði getað órað fyrir þeim. Tvö nærtæk dæmi sem höfðu áhrif á allan heiminn eru fjármálakreppan 2008 og Covid-19 heimsfaraldurinn. Mikilvægt er fyrir stjórnendur fyrirtækja að gera sér grein fyrir því að stór rekstraráföll koma oftar upp en fólk gerir sér almennt grein fyrir. Fleiri dæmi eru staðbundnir atburðir eins og sprengingin við höfnina í Beirút í Líbanon eða afleiðingar náttúruhamfara eins og eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010 sem hafði áhrif á flugsamgöngur í allri Evrópu. Allt eru þetta atburðir sem höfðu mikil og víðtæk áhrif á rekstur fyrirtækja og í raun allt þjóðfélagið á þessum landsvæðum.

Mikilvægt er að stjórnendur fyrirtækja séu meðvitaðir um hvernig nýta má áhættumat til að bregðast við óvæntum en miklum áföllum í rekstri. Stjórnendur eru yfirleitt vel meðvitaðir um hver eru helstu verkefni og áskoranir í daglegum rekstri, en þá farsótt sem nú gengur yfir heimsbyggðina mætti nýta sem vakningu til að yfirfara það hvernig rekstrinum er háttað á krísutímabilum. Ekki er ætlast til þess að stjórnendur séu góðir í að spá fyrir um hvað gæti hugsanlega en líklega aldrei gerst. Tíma stjórnenda er betur varið í að gera sér grein fyrir því hvernig bregðast skuli við þeim áhrifum sem slíkir atburðir hafa í för með sér.

Innri endurskoðendur eru augu og eyru stjórnar og staðfesta til hennar að þeirri stefnu sem stjórn hefur sett sé framfylgt innan fyrirtækisins og að einstakar einingar og deildir séu að vinna að settum markmiðum. Annað sem innri endurskoðendur gera er að staðfesta að greining á áhættuþáttum og áskorunum í rekstrarumhverfi fyrirtækisins fari fram og að viðeigandi mótvægisaðgerðir hafi verið innleiddar og virki sem skyldi til að stýra óviðunandi áhættu.

Á Íslandi hefur mikið verið fjallað um áhrif af hruni ferðamannaiðnaðarins í kjölfar Covid-19 og er það ein af þeim yfirvofandi hættum sem innri endurskoðendur fjármálafyrirtækja þurftu að fylgjast með að stjórnendur hefðu horft til og metið hvort framundan væri mögulegt högg á lánasafnið. Sem betur fer lærðu íslenskar fjármálastofnanir af húsnæðisbólunni, sem var einn af orsakavöldum hrunsins 2008, og hafa markvisst gætt þess að vera ekki með öll eggin í sömu útlánakörfunni eftir það.

Engu að síður hefur vaxandi ferðamannaiðnaður á Íslandi sett mikinn þrýsting á þennan útlánaflokk fjármálafyrirtækja sem hafa þurft að vega og meta aðkomu sína að fjármögnun ferðamannaiðnaðarins hérlendis. Covid-19 faraldurinn verður ágætur prófsteinn á þá áhættustýringu. Að sjálfsögðu er mismikill áhættuvilji milli fjármálafyrirtækja hvað varðar einstakar atvinnugreinar en þetta má heimfæra á önnur fyrirtæki líka. Stjórnendur þurfa alltaf að vita hver er mjólkurkú síns reksturs og hvað gerist ef sú kú veikist eða hreinlega hrekkur upp af? Það er gott að hafa plan B og jafnvel plan C tilbúið ef og, því miður líklega, þegar til þess kemur að einhvern tímann komi það mikið högg á reksturinn að rekstrargrundvelli sé kippt undan fyrirtækinu.

Í störfum innri endurskoðenda er það hluti af hverri úttekt að skoða hvernig stjórnendur bera sig að við að stjórna sinni einingu og hvernig áhættustýringu er háttað. Því miður er algengt að of mikið af þessum þáttum liggi bara hjá hverjum stjórnanda fyrir sig og að ekki sé til skjalað plan um greinda áhættuþætti í rekstrinum, hvort þeir séu metnir óviðunandi eða ekki og þá hvað sé verið að gera í því að mæta þeim og milda svo þeir verði viðunandi og dregið sé úr líkum á að áhættan raungerist.

Því er mikilvægt að stjórnendur tileinki sér að vera með áhættustýringu sýnilega með því að skjala hana og það sem mikilvægast er, að yfirfara og uppfæra hana reglulega. Þetta er ekki bara árleg æfing sem unnin er á handahlaupum til að þóknast endurskoðandanum og geta hakað í box um að hafi verið framkvæmt heldur getur þetta skilið milli feigs og ófeigs ef á reynir að hafa yfirfarið það af alvöru til hvaða aðgerða skuli gripið næst þegar enginn getur mætt í vinnuna, aðaltölvukerfið liggur niðri, stærstu aðilar í aðfangakeðjunni verða óstarfhæfir, fyrirtækið er tekið niður í tölvuárás eða eitthvað sem dagsdaglega er tekið sem gefnum hlut er ekki til staðar.

Höfundur er sérfræðingur í innri endurskoðun hjá Kviku banka.