*

þriðjudagur, 21. janúar 2020
Leiðari
30. ágúst 2019 14:56

Að líta framhjá raunveruleikanum

Það var alltaf ljóst að refsiaðgerðir gegn Rússum myndu ekki hafa í för með sér efnahagslegan ávinning, enda tilgangurinn annar.

Haraldur Guðjónsson

Fyrir rétt rúmri viku síðan birtist færsla á vefsíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) undir yfirskriftinni Viðskiptabannið á Rússa: Gagnslaus fórn. Í henni eru neikvæð efnahagsleg áhrif viðskiptabanns Rússlands gegn Íslandi árið 2015 tíunduð, og bent á að af þeim þjóðum sem bannið beindist að hafi áhrifin verið hlutfallslega mest hér á landi. Eins og flestir muna var bannið lagt á sem svar við stuðningi Íslands við viðskiptaþvinganir Vesturlanda gegn Rússlandi, vegna hernaðaríhlutunar fyrrverandi stórveldisins í átökum í Úkraínu og innlimunar Krímskaga, þvert á alþjóðalög og reglur.

Í framhaldinu er vikið að nýlegum samningum um útflutning á hátæknibúnaði til matvælavinnslu og fiskveiða til Rússlands. Það sé vissulega jákvæð þróun, en komi ekki í stað tapaðs útflutnings sjávarafurða vegna bannsins. Því sé hæpið að slíkt réttlæti ákvörðun íslenskra stjórnvalda um stuðning við viðskiptaþvinganirnar.

Er þar væntanlega verið að vísa til orða Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra fyrr í sumar, þess efnis að með víðtæku innflutningsbanni á matvælum hafi skapast forsendur mikillar uppbyggingar innlendrar matvælaframleiðslu í Rússlandi, sem aftur hafi leitt til þeirra tækifæra sem nú séu til staðar á útflutningi áðurnefnds hátæknibúnaðar.

Lokaorðin eru svo þessi: „Nú fjórum árum síðar verður ekki séð að ávinningur þessara viðskiptaþvingana sé nokkur. Framhjá þeim raunveruleika geta stjórnvöld því miður ekki litið.“

Ekkert kom hinsvegar fram í máli Guðlaugs Þórs um að aukinn útflutningur á öðrum sviðum réttlætti stuðning Íslands við þvingunaraðgerðirnar á sínum tíma, enda allskostar ófyrirséð þróun á sínum tíma. Raunar er erfitt að sjá að hverjum nákvæmlega orðum SFS er beint. Bæði forsætis- og utanríkisráðherra sem að ákvörðuninni komu á sínum tíma eru nú komnir í stjórnarandstöðu, þótt sá flokkur sem þeir þá leiddu sé reyndar enn við völd. Guðlaugur tilheyrir honum hinsvegar ekki.

Einkennilegust er þó sú fullyrðing að ávinningur þvingananna hafi enginn verið. Sé átt við að ástandið í Úkraínu hafi lítið breyst, er það því miður rétt. Krímskaginn er enn undir stjórn Rússa, og þrátt fyrir á þriðja tug vopnahléa síðustu 5 ár standa átök enn yfir í austurhluta landsins. Hvergi er þó minnst á það í grein SFS, og í ljósi þess að hún fjallar öll um efnahagsleg áhrif á Ísland er erfitt að skilja hana öðruvísi en svo, að hér sé átt við beinan viðskiptalegan ávinning Íslands. Samtökin virðast þannig líta svo á að utanríkisstefna skuli mótast nær alfarið af slíkum hagsmunum.

Flestum hlýtur að hafa verið ljóst frá upphafi að stuðningur við refsiaðgerðir gegn Rússum væri ekki líklegur til að hafa í för með sér beinan efnahagslegan ávinning, enda tilgangurinn allt annar.

Frá örófi alda hefur mannkynssagan einkennst af hernaði og annarskonar valdbeitingu, þar sem hinir máttugri hafa fengið sínu framgengt gagnvart hinum valdaminni, ekki þarf að leita lengra en mannsævi aftur í tímann (og raunar má færa rök fyrir að mun styttra sé síðan) til að finna dæmi þess.

Blessunarlega hafa alþjóðasamskipti þó stjórnast í æ meira mæli af lögum og reglum síðustu 75 ár. Alþjóðasamfélagið gerði sér grein fyrir að til lengri tíma væri hagsmunum allra best borgið með því að fordæma samhljóða ólögmæta valdbeitingu, jafnvel þótt slíkt kynni að ganga gegn skammtímahagsmunum einstakra þjóða hverju sinni. Á árunum frá því að viðskiptabannið var lagt á hefur það fyrirkomulag hins vegar veikst verulega. Fáir hafa meiri hagsmuni af því að verja það en smáþjóðir eins og Ísland.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.