*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Leiðari
9. apríl 2021 11:14

Að loka augunum

Svo virðist sem skynsemin hafi borið forstjórann ofurliði í viðtalinu við Fréttablaðið á þriðjudaginn því í Kastljósinu í gær kvað við allt annan tón.

Annan dag páska var ákvörðun stjórnvalda um að vista einstaklinga, sem komu til landsins frá áhættusvæðum í farsóttarhúsi úrskurðuð ólögmæt í Héraðsdómi Reykjavíkur. Fóru stjórnvöld út fyrir þann ramma sem sóttvarnarlög heimiluðu við setningu reglna um skyldudvöl í sóttvarnahúsi. Áður en lengra er haldið er nauðsynlegt að halda því til haga að í febrúar var sóttvarnarlögum breytt og á meðal breytinga var skilgreining á sóttvarnarhúsi. Samkvæmt skilgreiningunni er sóttvarnarhús staður, þar sem einstaklingur, sem ekki býr hér eða getur ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun.

Málin sem fóru fyrir dóm snéru einmitt öll að fólki sem hafði lögheimili á Íslandi og var viljugt til að vera í sóttkví heima hjá sér. Að mati dómsins er það að mörgu leyti sambærileg frelsisskerðing að vera í heimasóttkví eða í sóttvarnahúsinu en þó „verður af ýmsum, sumpart augljósum, ástæðum að telja dvöl þar þungbærari en dvöl í heimahúsi."

Eitt af grunngildum lýðræðislegra réttarríkja er að réttindi borgaranna séu tryggð. Lög eiga að vera almenn og skýr þannig að þegnarnir geti farið eftir þeim. Þá er það grundvallaratriði að valdastofnanir ríkisins séu jafn bundnar lögunum og þegnarnir. Lög eiga sem sagt að taka jafnt til allra og gæta þarf meðalhófs. Niðurstaða héraðsdóms var sú að frelsi einstaklinga var skert án þess að heimildir væru fyrir því í lögum. Reglugerðarákvæðið, sem frelsissviptingin sótti stoð í, rúmaðist sem sagt ekki innan ramma laganna. Af þessari ástæðu bar að fagna niðurstöðunni - fagna því að við búum í ríki þar sem borin er virðing fyrir mannréttindum.

Eftir að dómurinn birti úrskurð sinn varð mikið fjaðrafok í samfélaginu. Því miður hafa hátt settir embættismenn kynt þann eld með hræðsluáróðri, spám um að hér muni allt fara á versta veg verði ekki heimilt að læsa ferðalanga inni á hótelherbergjum. Hér þarf því miður að nota orðið „hræðsluáróður" því staðan í samfélaginu endurspeglar ekki á nokkurn hátt upphlaupið. Það fylgir því mikil ábyrgð að tala með þessum hætti.

Sóttvarnalæknir, sem hingað til hefur talað af skynsemi, missti fæturna óvænt þegar hann fullyrti að úrskurðurinn væri vonbrigði fyrir „íslenska þjóð". Formaður Læknafélags Íslands sagði úrskurðinn alvarlega „aðför að sóttvörnum landsins" en bætti því síðan við að Alþingi þyrfti að tryggja heilbrigðisyfirvöldum óyggjandi heimildir til aðgerða þegar alvarlegar farsóttir geisi. Við þessi orð er ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi þá var úrskurðinn fagnaðarefni fyrir íslenska þjóð, í öðru lagi ber það vott um firru að varpa ábyrgðinni á dómstóla og í þriðja lagi þá verður að fara mjög varlega í að veita óyggjandi heimildir til aðgerða.

Forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar hitti naglann ágætlega á höfuðið í viðtali í Fréttablaðinu á þriðjudaginn. „Mér finnst persónulega auðvitað að það eigi ekki að taka það léttilega að svipta fólki frelsi og setja það í fimm daga inn í herbergi þar sem það getur ekki farið út," sagði hann. Um þetta snýst einmitt málið.

Svo virðist sem skynsemin hafi borið forstjórann ofurliði í viðtalinu við Fréttablaðið á þriðjudaginn því í viðtali í Kastljósi Ríkistúvarpsins í gær kvað við allt annan tón. Var hann þar komin á sömu línu kollegar hans í læknastéttinni, sóttvarnalæknir og formaður Læknafélagsins. „Mér finnst hins vegar með ólíkindum þessi dómur héraðsdóms. Ég held að það megi ekki draga af því annan lærdóm en að dómurum í héraðsdómi geti orðið á mistök eins og öðrum," sagði forstjórinn.

Það sem þessir ágætu menn loka augunum fyrir er að úrskurðurinn snýst alls ekki um sóttvarnir heldur grunngildi réttarríkisins. Þremenningarnir eiga það sammerkt að hafa gengið menntaveginn, lengri leiðina, og því hefði mátt ætla að þeir væru meðvitaðir um þessa staðreynd. Hugmyndir um réttarríkið, valdbeitingu og réttindi borgaranna, eru ekki nýjar af nálinni. Þær ná allt aftur til Forngrikkja, þeirra félaga Aristótelesar og Plató. Meira að segja Englendingar reistur skorður við valdbeitingu konungs á 13. öld, þegar konungur undirritaði Magna Carta.

Orðræðan í samfélaginu hefur einkennst af hræðslu þeirra sem gagnrýnt hafa úrskurðinn, vilja skella öllu í lás og herða enn aðgerðir. Bera þarf virðingu fyrir áhyggjum þessa fólks enda er útbreiðsla veirunnar dauðans alvara. Á sama hátt verða þeir sem svona tala að bera virðingu fyrir þeim sem gera kröfu um að skýrar lagaheimildir séu fyrir þvingandi aðgerðum.

Hvorki stjórnvöld né þríeykið eiga heiðurinn að þeim árangri, sem náðst hefur baráttunni við heimsfaraldurinn heldur fólkið í landinu. Þjóðin hefur sýnt samstöðu í því mikilvæga verkefni að verja líf og heilsu fólks í faraldrinum sem nú gengur yfir. Þó einhverjir örfáir gangi ekki í takt þá má það ekki verða til þess að samstaðan rofni - við megum ekki láta lægsta samnefnarann ráða för. Við verðum líka að gera kröfu um að lagastoð sé fyrir hvers konar frelsissviptingu jafnvel þó heimsfaraldur geisi. Spurning um það hversu langt við ætlum að ganga á alltaf eiga rétt á sér. Við megum ekki loka augunum og láta líf okkar stjórnast af ótta.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.