*

fimmtudagur, 4. júní 2020
Leiðari
18. maí 2019 18:30

Vetur minnkandi væntinga

Mögulega verður íslenskt viðskiptalíf komið í fullorðinsmannatölu þegar þriðja hagsveifla aldarinnar gengur í garð.

Birgir Ísl. Gunnarsson

Vonir og væntingar á markaði hafa mikið breyst á einum vetri og mikið ber á milli þegar hagspár frá lokum síðasta sumars eru bornar saman við nýjar spár nú í upphafi sumars. Vissulega hefur kólnun hagkerfisins verið spáð um nokkurt skeið enda annað eiginlega óhugsandi eftir ævintýralegan vöxt síðustu ára. Hagvöxtur síðustu fimm ár hefur að meðaltali verið 4,4%.

Haustspárnar í fyrra voru hins vegar samhljóma um að framundan væri afar mjúk lending – ef hægt er að kalla 2,5% hagvöxt lendingu. Réttara væri um lækkun á flughæð að ræða því engin merki voru í spánum um að mesta hagvaxtarskeið lýðveldissögunnar tæki enda í fyrirsjáanlegri framtíð. 

Þegar leið á haustið lækkaði krónan og eldsneytisverð hækkaði skart án þess að það hafi dregið úr bjartsýninni að heitið gæti. Vaxtarhaukarnir í Seðlabankanum voru í meirihluta og í nóvember voru vextir hækkaðir til að stemma stigu við hærri verðbólguvæntingum. Og ekki síst til að minna aðila vinnumarkaðarins á að bankinn myndi verja verðstöðugleika með frekari vaxtahækkunum þótt fórnarkostnaðurinn yrði aukið atvinnuleysi, skert opinber þjónusta og minna svigrúm til opinberra fjárfestinga. 

„Hagvöxtur næstu þrjú árin verður 2,6% sem er nálægt því sem vænta má að þjóðarbúið geti vaxið að jafnaði án þess að flytja inn vinnuafl í stórum stíl,“ sagði Már Guðmundsson á Peningamálafundi um spána sem lá ákvörðun bankans til grundvallar. Annað kom á daginn. 

Helsta óvissan í spám og áhyggjuefni greinenda og Seðlabankans var gerð kjarasamninga en niðurstaðan þar reyndist mun hófsamari en orðræðan í viðræðunum hafði gefið tilefni til að ætla. Þrátt fyrir að þessi óvissa sé ekki lengur fyrir hendi er niðurstaðan í dag – sex mánuðum eftir síðustu vaxtahækkun Seðlabankans – hörð lending. Ástæðan er auðvitað svipleg örlög Wow og samdráttur í ferðaþjónustu sem gjaldþrotið hafði í för með sér. 

Mögulega ætti Seðlabankinn í framtíðinni að gefa nýjum og áður óþekktum áhættuþáttum meiri gaum í stað þess að einblína á þekkta óvissuþætti. Það er ekki það sem bankinn veit sem valdið hefur mestum vandræðum. Heldur það sem bankinn veit ekki.   

Íslenska hagkerfið er ennþá nýliði á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og í hnattvæddum nútímaviðskiptum. Reynslubankinn stækkar þó hratt og mögulega er tími til kominn að íslenskt viðskiptalíf slíti barnskónum. Þeim fjölgar t.d. hratt í fjármálageiranum sem muna tímana tvenna og geta metið stöðuna á markaði í samhengi sögunnar. Reynslan er hins vegar lítils virði nema menn geti horft blákalt um öxl og dregið lærdóm af mistökum gærdagsins. 

Eftir síðustu uppsveiflu var ástæða til að óttast að viðskiptalífið, stjórnvöld og stjórnsýslan færi algerlega á mis við þær fjölmörgu og dýrmætu lexíur sem Hrunið bauð upp á. Allir sem hlut áttu að máli, hvort sem um embættismenn, pólitíkusa eða forstjóra var að ræða, virtust vera á einu máli um eitt: Enginn hafði gert neitt rangt. 

Nú þegar önnur uppsveifla er að baki er annað uppi á teningnum. Margir hafa furðað sig á mikilli hækkun hlutbréfa í Kauphöllinni þrátt fyrir ótal merki um kólnun í hagkerfinu. Þvert á áhyggjur um að hækkanirnar kunni að vera innistæðulausar bendir flest til þess að fjárfestar hafi verið fyrir löngu búnir að verðleggja óvissu og viðsnúning í efnahagslífinu. Þegar hagsveiflan snerist var niðurstaðan um margt betri en fjárfestar höfðu óttast.  

Fjölmörg leiðandi stórfyrirtæki hafa skipt um forstjóra og stokkað upp í framkvæmdastjórnum. Fagmennska í stjórnum fyrirtækja er mun meiri og verklag við skipun stjórnarmanna hefur verið bætt til muna. Útlánavöxtur bankanna virðist þrátt fyrir allt hafa verið í hóflegur í uppsveiflunni og skuldastaða heimila, fyrirtækja og hins opinbera er góð í bæði alþjóðlegu og sögulegu samhengi. 

Allt er þetta er til marks um að íslenskt viðskiptalíf verði jafnvel komið í fullorðinsmannatölu þegar þriðja hagsveifla aldarinnar gengur í garð.  

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.