Ég er komin af sjósóknurum á Akranesi en hef þó aldrei til sjós verið. Ef frá er talinn einn loðnutúr. Veiðin var treg í þeim túr. Ég skal taka það á mig, enda allir aðrir um borð til hreinnar fyrirmyndar. En það virðist ekki lengur duga að hafa mig í landi, því í vetur hefur engin loðna fundist, þrátt fyrir mjög skipulega leit og samkvæmt forskrift okkar færustu vísindamanna. Náttúran hefur nefnilega sitt lag á hlutunum og ekki er á vísan að róa í samskiptum við hana.

Fjárfestingar fyrir tugi milljarða króna standa hljóðar, starfsfólk og sveitarsjóðir verða af miklum tekjum og talið er að ríkissjóður tapi um 4-5 milljörðum króna. Ofan á þetta bætist að loðnubrestur getur sett markaði í uppnám þegar ekkert er framboðið. Það má því segja að fyrirtæki í uppsjávargeiranum á Íslandi hafi sannarlega litið bjartari daga en þá sem nú eru að líða.

Rétt er að halda þessu öllu til haga því oft er látið eins og veiðar og vinnsla á sjávarafurðum séu með öllu áhættulausar og að hægt sé að ganga að auðlindum sjávar sem vísum. Sumir vilja jafnvel skattleggja sjávarútveg eins og þar sé einhverskonar krani sem hægt er að skrúfa frá eftir hentugleik. Því fer hins vegar víðs fjarri.

Það ber ávallt að hafa hugfast að rekstri sjávarútvegsfyrirtækja fylgir mikil áhætta frá náttúrunnar hendi. Óþarft er að bæta hinni mannlegu áhættu við sem felst í sífelldu tali um að það þurfi að bylta rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Hugleiðingar í þá veru gera öldudalinn bara dýpri og erfiðari yfirferðar.