Þegar ég hóf að skrifa viðskiptatengdar fréttir var allt á uppleið á Íslandi. Skrúðyrtum tilkynningum um ný Íslandsmet í hagnaði, stórkostlegar afkomutölur og bjarta framtíð undir handleiðslu yfirburðarmanna rigndi inn í pósthólf fjölmiðlamanna.

Ég var blessunarlega aldrei settur í aðstöðu sem krafðist þess að ég mokaði út tyllifréttum af útrásarafrekum og því voru fréttirnar mínar oftar en ekki gagnrýnar. Því fékk ég iðulega símtöl eða tölvupósta frá hrokafullum upplýsingafulltrúum sem sögðu með vandlætingu að ég skildi ekki bisness. Ég yrði að passa hvað ég skrifaði, enda gætu skilningsleysi mitt haft áhrif á þróun

Fjármál
Fjármál
© AFP (AFP)
markaðarins. Einn forstjórinn sagði meira að segja við mig að hann vildi fleiri fréttir sem væru gráar, þar sem viðskiptalegir hagsmunir og almannahagsmunir myndu vega hvora aðra upp.

Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Þó virðist sem að þröngur hópur þeirra sem voru aðal á bóluárunum sé enn á því að allir hinir hafi rangt fyrir sér þegar litið er í baksýnisspegilinn. Að það sé fullkomlega eðlilegt að bankar hafi lánað eigendum sínum eftir pöntunum. Að engin eigi að vera í ábyrgðum fyrir neinu. Að góð viðskipti snúist um að framleiða ekkert nema uppblásnar tölur á pappír. Að það sé sjálfsagt mál að kaupa eign, setja hana inn í eignarhaldsfélag, láta það vera í eigu annars félags í Hollandi, og að öllu batteríinu sé síðan stýrt frá íslenskum dótturbanka í Lúxemborg. Að það sé beinleiðis óábyrgt að eiga ekki félag á Tortola utan um arðgreiðslur til að geta dýft hendinni í þegar allt hrynur og nauðsynlegt verður að kaupa allt draslið upp á nýtt.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Ég viðurkenni fúslega að ég skil ekki þennan bisness. Það er nefnilega langur vegur milli þess sem viðskiptajöfrar og gelti-tíkur þeirra segja að sé eðlilegur bisness og þess sem aðrir héldu að hann snérist um. En kannski, og bara kannski, er það ekki almúginn sem hefur rangt fyrir sér. Kannski eru það yfirburðarmennirnir sjálfir sem skilja ekki bisness.

Endahnúturinn birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 19. apríl 2010.