*

þriðjudagur, 25. janúar 2022
Örn Arnarson
12. október 2020 07:13

Að þekkja verð á öllum hlutum en virði einskis

Rætt er um skipbrot og hæpnar efnahagsfosendur sóttvarnarstefnunnar ásamt útgjaldastefna stjórnarandstöðu út í hið óendanlega.

Haraldur Guðjónsson

Sóttvarnaaðgerðir voru hertar til muna við upphaf vikunnar í kjölfar þess að kórónuveirusmitum fjölgaði mikið meðal landsmanna. Sérfróðir sögðu um mitt sumar að stjórnvöld stæðu frammi fyrir tveimur valkostum: Annars vegar að hleypa erlendum ferðamönnum til landsins og eiga hættu á mikilli dreifingu veirunnar.

Hins vegar að loka á ferðamenn í þeirri von að halda veirunni í skefjum þannig að kennsla og menningarlíf gæti haldist með sæmilega eðlilegum hætti í vetur. Stjórnvöld kusu seinni kostinn og veittu þeirri viðspyrnu sem ferðaþjónustan sýndi í sumar náðarhögg þegar ákveðið var að bæta sóttkví við tvöfalda skimun á landamærunum.

Ljóst er að þessi stefna hefur beðið skipbrot. Veiran hefur breiðst út og ferðaþjónustufyrirtækin eru rústir einar og efnahagsafleiðingar þess auka niðursveifluna af völdum faraldursins enn frekar. Í fjármálakreppunni kom í ljós að allir Íslendingar eru sérfræðingar á sviði peningamálahagfræði.

Rétt eins og þá hefur nú komið í ljós að þeir eru einnig sérfróðir um sóttvarnir. Það á reyndar ekki við þann sem þetta skrifar. En sé litið framhjá sóttvarnamarkmiðum aðgerðanna í ágúst er nú ljóst að efnahagsforsendur aðgerðanna voru reistar á sandi.

Á þessum vettvangi var bent á í ágúst að minnisblað fjármála- og efnahagsráðuneytisins sem lá að baki ákvörðun ríkisstjórnarinnar um að herða sóttvarnaaðgerðir hafi verið hrákasmíð. Í minnisblaðinu var vísað í einhverja ótilgreinda bandaríska skýrslu um kostnað við hvert veirusmit.

Sá sem les minnisblaðið er í engri aðstöðu til að glöggva sig á hvað liggur að baki þeim útreikningum og hvað þá að fletta upp í skýrslunni og kanna hvaða gagnrýni hún kann að hafa fengið. Þá er fórnarkostnaðurinn við komu ferðamanna reiknaður með því að bera saman innlenda neyslu í sumar saman við einfalt meðaltal neyslu erlendra ferðamanna hér á landi.

Þetta er gert án þess að taka tillit til áhrifa launahækkana í sumar og þeirrar staðreyndar að innlend neysla jókst í sumar sökum þess að heimilin voru að eyða sjóðunum sem til stóð að eyða á Tenerife og vafalaust hafa bæði einstaklingar og fyrirtæki verið að einhverju leyti að ganga á varasjóði sína. Ekkert benti til þess að sami kraftur yrði í innanlandsneyslu með lækkandi sól.

Lítil umræða hefur farið fram um þennan þátt málsins í fjölmiðlum og vekur furðu. Í ljósi þess að sóttvarnaaðgerðir hafa á ný verið hertar væri til að mynda fullt tilefni til að leita til þeirra hagfræðinga sem reiknuðu það út að það hefðu verið mistök að rýmka um komur erlendra ferðamanna snemmsumars, um útreikninga á samfélagslegum kostnaði skerts skólahalds á háskóla- og framhaldsskólastigi, viðvarandi atvinnuleysis og á öðrum samfélagslegum kostnaði vegna þessa ástands sem nú er uppi.

Að sama skapi fer engin umræða fram um af hverju íslensk stjórnvöld fara aðra leið í skólahaldi framhaldsskólanema en hinar Norðurlandaþjóðarinnar. Eins og bent var á í aðsendri grein í Morgunblaðinu á mánudag eru íslenskir framhaldsskólanemendur þeir einu á Norðurlöndunum sem þurfa að stunda fjarnám í stað hefðbundins skólahalds. Nú, þegar þetta ástand hefur ríkt um langan tíma, er ljóst að fórnarkostnaðurinn er mikill og það verður ekki auðvelt verk að koma hlutunum í eðlilegt horf á ný.

                                                              ***

Þær sóttvarnareglur sem voru kynntar um helgina komu mörgum spánskt fyrir sjónir. Nánar tiltekið misræmið sem í þeim er að finna. Margir spurðu af hverju sé ásættanlegt að hafa sundlaugar opnar með takmörkunum meðan líkamsræktarstöðvar verða að loka alfarið. Mikið hefur verið fjallað um slæm lýðheilsuáhrif langvarandi sóttvarnaaðgerða og því er fyllilega réttmætt að spyrja hvort það væri fífldirfska að láta reyna á takmarkaða opnun líkamsræktarstöðva - að minnsta kosti til að byrja með?

Væri ekki frekar hægt að loka búningsklefum til þess að gefa fólki tækifæri á að stunda líkamsrækt nú þegar tækifærum til hreyfinga utandyra fækkar með lækkandi sól og versnandi veðri? Og af hverju ganga sóttvarnayfirvöld út frá því að fólki sé frekar treystandi að virða sóttvarnareglur í sundi frekar en í líkamsrækt?

Annað misræmi er að finna þegar kemur að leiksýningum annars vegar og keppnisleikjum í íþróttum hins vegar. Sóttvarnayfirvöld leyfa að 100 manns í aðskildum rýmum sæki leiksýningar á meðan mun meiri takmarkanir eru settar á áhorfendafjölda á kappleikjum og áhorfendabann á íþróttum innanhúss.

Spurður að þessu sagði Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir að áhorfendur á kappleikjum væru meira á hreyfingu og létu frekar í sér heyra heldur en þeir sem horfa á leiksýningu. Með öðrum orðum að Íslendingar sýni tilfinningaleg viðbrögð á íþróttaleikjum en ekki á leiksýningum. Fjölmiðlarýnir tekur heilshugar undir þessa óvægnu og óvæntu gagnrýni sóttvarnalæknis á stöðu íslenska leikhússins.

Nokkrum dögum síðar tóku svo í gildi mun strangari sóttvarnareglur á höfuðborgarsvæðinu. Þegar þær voru kynntar á blaðamannafundi á þriðjudag sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn að landsleikur Íslands við Rúmeníu myndi hugsanlega fara fram þrátt fyrir enn hertari sóttvarnareglur þar sem milljarðar gætu verið í húfi fyrir efnahagslífið. Við það tilefni spurði enginn blaðamaður Víði hversu miklu þau fyrirtæki sem hökta vegna aðgerðanna velta og hvort þeir milljarðar séu ekki þjóðhagslega mikilvægir.

                                                              ***

Ríkisstjórnin lagði fram fjárlög næsta árs í síðustu viku. Eins og við var búið verður mikill hallarekstur á rekstri ríkissjóðs á næsta ári. Að venju gagnrýndi stjórnarandstaðan fjárlögin og voru fluttar fréttir af því í fjölmiðlum. Rifjaðist þá upp gamla tuggan um að fjölmiðlar eigi alltaf að vera í stjórnarandstöðu. Það er ekki rétt. Fjölmiðlar eiga fyrst og fremst að greina frá gangi mála og spyrja gagnrýnna spurninga til að upplýsa lesendur og áhorfendur.

Fjölmiðlar mega vel vera í stjórnarandstöðu, halda stjórnvöldum við efnið, en þeir mega ekki ganga til liðs við stjórnarandstöðuna. Þeir verða einmitt að vera gagnrýnir á hana líka, svo hún sýni líka ábyrgð. Því markmið hennar er auðvitað að komast að völdum næst og því er brýnt að almenningur viti hvað hún vill, hvað hún er að fara, hvaða afleiðingar boðuð stefna hennar gæti haft, nú eða eftir atvikum hvað er að marka málflutninginn.

Sem sagt sömu trakteringar og stjórnarflokkarnir eiga að fá hjá fjölmiðlum. Því það er ekki eitthvað sem menn vilja komast að eftir á, að nýju ráðherrarnir kunni ekki að reikna, umgangist staðreyndir frjálslega eða séu fyrir skottulækningar, svo nokkur dæmi úr stjórnmálasögu eftirhrunsins séu nefnd.

Gagnrýni stjórnarandstöðunnar á fjárlagafrumvarpið snýst um að ríkisstjórnin er ekki að auka útgjöld nægilega mikið til þess að spyrna á móti niðursveiflunni. Gott og vel. Ríkisstjórnin er vissulega að auka ríkisútgjöld verulega á næsta ári á sama tíma og hrun er að verða á skatttekjum vegna efnahagsástandsins. Þetta er enn sem komið er ekki verulegt áhyggjuefni þar sem stjórnvöld hafa greitt niður skuldir á liðnum árum og staða ríkissjóðs er sterk.

Fjölmiðlar mega spyrja stjórnarandstöðuna út í hvort hún telur að það sé hægt að auka útgjöld ríkisins út í hið óendanlega. Á þetta sérstaklega við þingmenn Samfylkingarinnar. Þegar leitað er á Netinu sést að undanfarin þrjú ár hafa þeir gagnrýnt hver einustu fjárlög ríkisstjórnarinnar á grundvelli þess að útgjöld hafi ekki verið aukin nægilega mikið. Eftir að kórónuveirufaraldurinn braust út hafa þeir svo verið iðnir að lofa öllum þeim þjóðfélagshópum sem stigið hafa fram myndarlegri ríkisaðstoð.

                                                              ***

Athygli vekur að Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins hefur undanfarið auglýst á netmiðlum. Í auglýsingunum eru viðskiptavinir ríkiseinokunarfyrirtækisins hvattir til þess að kaupa áfengi í verslunum þess utan annatíma - það er að segja fyrir hádegi eða þá fyrri hluta vikunnar. Lítil umræða hefur átt sér stað vegna þessara auglýsinga. Það vekur undrun því að í hvert skipti sem frumvarp um frjálsræði í sölu áfengis er lagt fyrir Alþingi grípur geðshræring stóran hluta landsmanna.

Þessar auglýsingar vekja upp spurningar um tilgang banns við auglýsingum á áfengi í fjölmiðlum. Bann sem ekki virðist ná til ríkiseinokunarfyrirtækisins sem er þarna beinlínis að hvetja til aukinnar drykkju með leiðbeiningum um álagstíma. Spurningarnar eru ekki síst áleitnar í ljósi þess að stjórnvöld hyggjast samþykkja frumvarp til laga um víðtækan stuðning við rekstur einkarekinna fjölmiðla sem nú berjast í bökkum.

Stór hluti fjölmiðlaneyslu landsmanna er í gegnum Netið þar sem áfengisauglýsingar annarra en íslenska ríkiseinokunarfyrirtækisins eru tíðar og virðist það ekki hafa skaddað þjóðina af neinu viti. Er ekki tímabært að ríkisvaldið hætti að svipta íslenska fjölmiðla aðgengi af þeim mikilvæga tekjustofni sem áfengisauglýsingar eru fyrir fjölmiðla um heim allan?

Og að sama skapi að taka RÚV af auglýsingamarkaði þannig að það sníði sér stakk eftir þeim vexti sem útvarpsgjaldið setur hverju sinni. Það væri meira vit í því en að samþykkja lög sem gera einkarekna fjölmiðla að þurfaling ríkisvaldsins.

                                                              ***

Gengi hlutabréfa í Icelandair hefur fallið í Kauphöllinni eftir að hlutabréfaútboði félagsins lauk fyrir skemmstu. Þegar þetta er skrifað er gengi félagsins 0,87 krónur eða þrettán aurum undir útboðsgenginu. Miðað við ítarlega umfjöllun íslenskra fjölmiðla um bjölluat bandarísku konunnar Michelle Ballarin rétt fyrir útboðið er skrýtið að enginn fjölmiðill hafi spurt Ballerin eða íslenska erindreka hennar hvort hún hafi ekki verið á kauphliðinni undanfarnar vikur? Ekki síst í ljósi þess að þeir hafa fjallað mikið um að Icelandair hafi ekki tekið tilboði hennar að kaupa fyrir sjö milljarða í útboðinu gilt.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.