Eins og flestir vita tilkynnti ríkisstjórnin að Bankasýslan yrði lögð niður. Ástæðan er gagnrýni á síðasta útboð á hlut ríkisins í Íslandsbanka. Væntanlega verður þá Jóni Gunnari Jónssyni bankasýslumanni og undirmönnum hans sagt upp í framhaldinu vegna þessara skipulagsbreytinga.

Alkunna er að slíkar uppsagnir njóta mikilla vinsælda um þessar mundir. Ljóst má vera á viðbrögðum stjórnvalda að þau hafi dregið þá ályktun af gagnrýninni að ótækt sé að stofnun á borð við Bankasýsluna, sem er í armslengd frá fjármálaráðuneytinu, komi nálægt frekari sölu hlutar ríkisins í Íslandsbanka og rétt sé að virkja þann mikla mannauð sem finnst á Alþingi í þeim efnum. En eins og komið hefur í ljós að undanförnu er vandfundinn sá vinnustaður þar sem er að finna meiri þekkingu á verðmati fjármálafyrirtækja. Sérstaklega þegar kemur að svokölluðu afturvirku verðmati en þegar kemur að slíkri eftiráspeki standast fæstir þingmönnum stjórnarandstöðunnar snúning.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .