*

þriðjudagur, 25. febrúar 2020
Týr
1. júní 2019 15:13

Aðalseðló

Það vandasama verkefni liggur fyrir forsætisráðherra að velja nýjan Seðlabankastjóra úr hópi 16 umsækjenda.

Haraldur Guðjónsson

Það vandasama verkefni liggur fyrir forsætisráðherra að velja nýjan Seðlabankastjóra úr hópi 16 umsækjenda. Fréttablaðið gerði raunar athugasemdir við það hversu viðeigandi væri að Sigríður Benediktsdóttir, hagfræðingur við Yale og bankaráðsmaður Landsbankans, væri í hinni leiðbeinandi hæfisnefnd um umsækjendur, en Landsbankinn er stærsti viðskiptavinur Seðlabankans. Það er rétt, það gengur ekki.

***

En hugum að umsækjendunum, það er fjölbreyttur söfnuður, en óhætt að segja að þar eigi menn mjög misjafnt erindi. Sumir, nokkrir jafnvel, bókstaflega ekki neitt. Alveg þannig að skipa má í 1., 2. og 3. flokk eftir fallþunga dilka.

***

Það eru formlegar kröfur í lögunum, sem umsækjendur uppfylla vafalaust allir, en það eru þó aðrar og óformlegri kröfur, sem meiru munu skipta. Auðvitað er nauðsynlegt að seðlabankastjóri sé vel heima í hagfræði, en þarf ekki að vera sérfræðingur, það er sægur af þeim hjá bankanum. Umfram allt þarf seðlabankastjóri að vera framúrskarandi stjórnandi, þrautgóður á raunastund, með víðtækt traust, þekkingu á þjóðarhag og atvinnulífi, með skynbragð á stjórnmál, en ekki úr stjórnmálum. Og svo þarf hann nú eiginlega að vera bankamaður.

***

Af þeim ástæðum er sennilega rétt að setja í hliðarbunkann þá, sem ekki hafa reynslu úr bankaheiminum, og sömuleiðis hefur Týr miklar efasemdir um að velja innanbúðarmenn. Miklar breytingar eru framundan og þá koma nýir vendir sér best. Sömuleiðis hlýtur að vera gerð rík krafa um stjórnunarreynslu, því þó að akademískar kvalífíkasjónir séu mikilsverðar, þá ríða þær varla baggamuninn í þetta starf. Hins vegar má vel spyrja hvers vegna menn eins og Jón Daníelsson og Ásgeir Jónsson hafi ekki verið kjörnir í bankaráð eða peningastefnunefnd hans. Eins yrði Gylfi Arnbjörnsson vafalaust til þess að bæta bankaráðið. Og væri Sturla Pálsson, framkvæmdastjóri markaðs-, viðskiptaog fjárstýringar í bankanum, ekki nánast sjálfgefinn sem varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika?

***

Að því sögðu eru varla nema tveir umsækjendur eftir, sem til greina koma, þeir Gunnar Haraldsson og Sigurður Hannesson. Gunnar er raunar ekki bankamaður, en hefur víðtæka reynslu úr stjórnsýslu, heima og á alþjóðavettvangi. Ekki verður hins vegar annað séð en að Sigurður tikki í öll boxin, en auk starfa á fjármálamarkaði var hann potturinn og pannan í haftalosunni.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér 


Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.